Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:18:33 (5661)

1997-04-23 15:18:33# 121. lþ. 110.3 fundur 576. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var tekin ákvörðun um að mörkuð yrði heildarstefna og skipulagi komið á málefni er varðar flóttamenn, m.a. með stofnun flóttamannaráðs. Hlutverk ráðsins er m.a. það að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag er varðar móttöku á flóttamönnum, hafa yfirumsjón með framkvæmd á móttöku flóttamanna og veita stjórnvöldum umsögn um einstök mál. Því er spurt hér hvort sú stefnumótun og skipulag þetta liggi nú fyrir.

Ástæða fyrirspurnar þessarar er sú að við stofnun flóttamannaráðs voru uppi hugmyndir sem m.a. komu úr dómsmrn. um hlutverk ráðsins sem gerðu ráð fyrir að auk þess að sjá um móttöku flóttamanna gæti ráðið einnig orðið farvegur þar sem tekið yrði á málum þeirra, þeim málum sem eru hjá stjórnvöldum, og kæmi ráðið ásamt Rauða krossinum að aðlögun flóttamanna hér á landi. Talað var um að ráðið fjallaði um alþjóðasamninga og kæmi með tillögur og ábendingar til stjórnvalda um aðgerðir gegn kynþáttamisrétti. Þá var og gert ráð fyrir að Íslendingar tækju á móti kvótaflóttamönnum.

Ég fagna viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við afleiðingum stríðsins í gömlu Júgóslavíu með móttöku fólks þaðan í fyrra og áformum um frekari móttöku. Það var í hvívetna staðið vel að þeim málum og aðlögun fólksins að íslensku samfélagi hefur tekist vel til þessa.

Ég held hins vegar að stefna ríkisstjórnarinnar varðandi móttöku flóttamanna, sem fram kom í svari félmrn. við fyrirspurn minni um flóttamannakvóta hér í vetur, sé röng. Í svari ráðherrans kom fram að ekki stæði til að taka þátt með hinum Norðurlandaþjóðunum í móttöku árlegs flóttamannakvóta heldur mundi hann gera árlega tillögu um að taka á móti einhverjum hópi flóttamanna.

Ég tel að við Íslendingar ættum að vinna með hinum Norðurlöndunum og í samráði við flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að móttöku flóttamanna með árlegum fjölda eða kvóta flóttamanna eins og hin Norðurlöndin. Við mundum ákveða sjálf hinn árlega fjölda. Síðan gæti sú ríkisstjórn sem situr hverju sinni ákveðið viðbót við þann fjölda eftir atvikum. Þetta er mun ábyrgari afstaða. Við höfum að mestu verið laus við flóttamannavandamálið en reglan um fyrsta griðland mælir einnig með því að við bindum okkur við ákveðinn kvóta. Reglan um fyrsta griðland er ekki í alþjóðasamþykktum og því ekki alþjóðaréttarregla, en hún finnst í landsrétti ýmissa ríkja og í milliríkjasamningum, t.d. Norðurlandasamningum. Reglan byggir á þeirri meginreglu að í því ríki sem flóttamaður leitar fyrst til ber að veita honum viðtöku ef honum er vísað brott úr öðru ríki sem hann hefur leitað til griðlands. Reglan er umdeild vegna þess að sum lönd verða meira fyrir barðinu á flóttamannavandamálinu en önnur vegna staðsetningar sinnar. Þess vegna hafa fjarlæg ríki eins og Norðurlöndin skipt með sér ábyrgðinni með því að undirgangast móttöku á ákveðnum flóttamannakvóta.

Virðulegi forseti. Í fyrirspurn minni er m.a. spurt hvenær fyrirhugað sé að heildarstefna og skipulag á málefnum er varða flóttamenn liggi fyrir. Hefur flóttamannaráði verið falin endurskoðun á lögunum? Ef svo er, hvenær lýkur því starfi? Telur ráðherra að endurskoðun á lögunum um eftirlit með útlendingum sé hluti af mótun heildarstefnu í málefnum flóttamanna sem hér leita hælis?