Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:43:35 (5669)

1997-04-23 15:43:35# 121. lþ. 110.4 fundur 577. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessum málum. Ég átti þess kost meðan ég sat í Evrópuráðinu að fylgjast þar með málefnum flóttamanna í gegnum eina af þeim nefndum sem ég sat í og það leiddi einmitt til þess að ég bar hér upp fyrirspurnir fyrir nokkrum árum, nokkuð svipaðs eðlis og þær sem hér eru ræddar, sem leiddu í ljós að á því tímabili höfðu mun fleiri beðið um hæli hér.

Ég á von á því að hluti skýringar þess hve mörgum er vísað frá sé sá að Ísland er í flestum tilvikum annað land sem flóttamenn koma til og samkvæmt öllum gildandi reglum er það fyrsta land sem ber ábyrgðina og því er svo auðvelt að vísa mönnum frá.

Erindi mitt hingað í ræðustólinn, hæstv. forseti, var að spyrja í ljósi þeirra talna sem fram komu hjá hæstv. ráðherra: Hvernig er staðið að því að kynna þeim sem hingað leita þann rétt sem þeir hafa? Er þeim kynnt það að þeir geti skotið málum sínum til æðra yfirvalds eða hvernig er staðið að því gagnvart þeim sem hingað koma?