Breytingartillaga við 407. mál

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:58:19 (5675)

1997-04-23 15:58:19# 121. lþ. 111.91 fundur 300#B breytingartillaga við 407. mál# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[15:58]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Frv. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins er til umræðu síðar í dag og þá gefst betra tækifæri til að ræða þennan þátt málsins. En af því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson beindi aðallega orðum sínum til efh.- og viðskn. þar sem þessi brtt. er gerð, þá vil ég upplýsa að þegar þetta mál var í undirbúningi á vegum iðn.- og viðskrn., var sérstaklega kannað, ekki þó formlega hjá Eftirlitsstofnun EFTA, heldur var kannað hvort sú leið sem þarna var verið að fara, þ.e. að útbúa nýsköpunarsjóð sem hefði það verkefni og hlutverk sem lýst er í lögunum, samrýmdist ekki þeim reglum. Og það var mat þeirra manna sem undirbjuggu málið og áður en það var lagt hér fyrir þing að svo væri.

Breytingin er í raun og veru engin önnur en sú að bætt er við einum milljarði króna inn í Nýsköpunarsjóðinn og þannig eru ákveðin verkefni valin sem skuli lögð sérstök áhersla á á sviði upplýsinga- og hátækni og er það nú býsna víðtækt svið sem menn eru þá með undir í þeim efnum. En það er reyndar alveg hárrétt að þar er verið að velja út tiltekið landsvæði sem sérstaklega á að leggja áherslu á. Mitt mat er að þarna sé ekki um neina efnisbreytingu að ræða frá því að frv. var hér lagt fyrir og úr skugga var gengið um að það samrýmdist þeim reglum sem þarna gilda því hér er ekki um styrki að ræða, hér er fyrst og fremst um áherslur í lánveitingum að ræða.