Bókasafnssjóður höfunda

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:20:21 (5737)

1997-05-02 15:20:21# 121. lþ. 115.5 fundur 330. mál: #A Bókasafnssjóður höfunda# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:20]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Bókasafnssjóð höfunda. Við kvennalistakonur styðjum þetta frv. og ég ritaði undir nefndarálitið án fyrirvara eins og það liggur fyrir.

Meginástæðan fyrir að ég kem hér í pontu nú er að vekja athygli á að það er nokkurt misræmi á milli athugasemdar við 5. gr. í frv. og þess sem stendur í nefndarálitinu. Ég vil taka undir að það var samróma álit í menntmn. að hafa nefndarálitið með þeim hætti sem það er þrátt fyrir setninguna sem stendur í athugasemdum með 5. gr.

Þetta frv. fjallar um Bókasafnssjóð höfunda sem á að leysa Rithöfundasjóð Íslands af hólmi og úthluta bæði styrkjum til höfunda og greiða fyrir afnot bóka á bókasöfnum. Í stjórn sjóðsins sitja tveir fulltrúar frá rithöfundum og einn frá Hagþenki en það hefur einmitt verið mikið baráttumál fræðslubókahöfunda að hafa aðgang að sjóði sem þessum. En í athugasemdinni við 5. gr. segir: ,,Eðlilegt er að áhersla verði lögð á styrki til höfunda fagurbókmennta.`` Í andstöðu við þetta er ítrekað í nefndarálitinu að menntmn. telur mikilvægt að við úthlutun styrkja verði rétthöfum gert jafnhátt undir höfði. Það er í ljósi þessa sem ég styð þetta frv., enda var það minn skilningur að það væri meirihlutavilji menntmn.