Helgidagafriður

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:47:02 (5741)

1997-05-02 15:47:02# 121. lþ. 115.7 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:47]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Í allshn. var frv. um helgidagafrið til gagngerrar skoðunar og umræður voru mjög langar um það hvernig við ættum að skilgreina helgidagafriðinn, annars vegar á jólunum og hins vegar á páskahátíðinni. Mörgum fannst að með því að skilja jólahald frá páskum, í tillögunni þá væri verið að gera páskum og þeirri helgi sem þar hvílir lægra undir höfði heldur en jólunum.

Ég var einn af þeim sem höfðu þá skoðun í upphafi að ástæða væri til þess að föstudagurinn langi mundi flokkast með aðfangadegi jóla og jólum sem helgur dagur, þar sem öll starfsemi væri óheimil nema sú starfsemi sem hefðbundin hefur verið á undanförnum áratugum.

Í mínum huga var ekki verið að gera ráð fyrir því að sú starfsemi sem hefur verið á útivistarsvæðum og hefðbundin áratugum saman þyrfti að raskast við það að þessi lög næðu fram að ganga.

Ég hef álitið það vera mjög eðlilega og jákvæða þróun hvað varðar fjölskyldulíf, útivist og heilbrigði hvernig fólk hefur hópast til skíðaiðkana og útivistar um allt land á páskum og mér finnst, þvert á skoðun hv. þm. Ögmundar Jónassonar, fjölskylduvænt að páskar þróist þannig að fólk og fjölskyldur sameinist í útivist á þeim degi og hann fái um leið þann þjónustumöguleika sem nauðsynlegur er svo að útivist geti orðið almenn. Það á ekki að trufla með neinu móti helgihald páskanna eða föstudagsins langa þó svo heimilað sé samkomuhald eftir miðnætti á föstudaginn langa. Mér finnst það ekki trufla neitt helgihald þess dags. Ég er þó þeirrar skoðunar að páskarnir séu einn helgasta hátíð kristninnar.

Það er svo aftur annað mál að menn hafi verið að blanda þessu máli sérstaklega við skíðahátíð sem hefur verið á Ísafirði á undanförnum áratugm. Ég hef verið þess aðnjótandi að fá að njóta útivistar á Ísafirði um nokkurra ára skeið meðan ég bjó þar sem ungur maður. Ég man eftir ferðum upp á Seljalandsdal til þess að skemmta sér og njóta útiverunnar. Ég held að engum hafi dottið í hug að það truflaði þá hátíð sem allir bera virðingu fyrir, ekki síður Ísfirðingar en aðrir, sem á þessum hátíðum voru. Því vil ég fagna tillögu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar. Ég sem nefndarmaður í allshn. hafði ekki áttað mig á, þ.e. að þetta gæti orðið til þessa að gera þær samkomur ómögulegar sem hingað til hafa tíðkast á þessari hátíð á Ísafirði sem og annars staðar. Þetta er ekki eini staðurinn sem hefur nýtt sér þennan möguleika, enda hefur það þótt mjög eðlilegt þar sem mjög stór hópur fólks alls staðar að af landinu kemur saman, að reynt sé að halda uppi skemmtanahaldi og laða að fólk.