Stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:59:22 (5744)

1997-05-02 15:59:22# 121. lþ. 115.9 fundur 481. mál: #A stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:59]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Undanfarin tvö ár hef ég átt sæti í Vestnorræna þingmannaráðinu, eða þingmannasambandinu eins og það hét áður en heitir nú þingmannaráðið ef þessi tillaga nær fram að ganga. Er skemmst frá að segja að þetta starf hefur verið afar fróðlegt og skemmtilegt og mjög ánægjulegt að fá tækifæri til að kynnast þingmönnum bæði frá Grænlandi og Færeyjum því við eigum margt sameiginlegt þó að menning okkar sé líka um margt ólík, ekki síst okkar Íslendinga og Færeyinga annars vegar og Grænlendinga hins vegar. Þetta hefur verið afar skemmtilegt en mönnum fannst samt sem áður ástæða til þess að reyna að gera starfið markvissara, reyna að skilgreina betur hvaða verkefnum þingmannaráðið ætti að sinna og því er þessi tillaga fram komin sem felur í sér nokkrar breytingar og er um margt markvissari. Engu að síður er ég ekki flm. að þessari tillögu og það er fyrst og fremst vegna einnar greinar, 4. gr. í II. kafla tillögunnar, þar sem kveðið er á um ákveðna breytingu sem ég er andvíg en verð þó að sjálfsögðu að sætta mig við verði hún samþykkt hér og einnig á Lögþingi Færeyinga og Landsþingi Grænlendinga.

Þessi tillaga felur það í sér að hér eftir, verði þetta staðfest, verði kosið í ráðið í samræmi við hlutfall stjórnmálaflokka á þingi, eftir gildandi reglum í hverju landi eins og hér segir. Þetta þýðir, hæstv. forseti, að sú staða getur komið upp að einstakir flokkar á hinum mismunandi þingum eigi ekki aðild að ráðinu. Að vísu er uppi sú staða, eins og reglurnar eru núna, að ef flokkar eri fleiri en sex að þá kemur upp ákveðinn vandi en það hefur ekki verið lenska hér á þingi að hér hafi verið fleiri en sex flokkar, ekki alllengi að því er ég hygg. Þeir voru reyndar sex við upphaf þessa kjörtímabils en eru nú orðnir fimm þingflokkar. Ég er þeirrar skoðunar að sem flest sjónarmið og flestir aðilar eigi að eiga aðild að því alþjóðlega þingmannastarfi sem við tökum þátt í og mér finnst að hér sé verið að þrengja að. Hins vegar er alltaf hægt að koma sér saman um skipan samkvæmt þessari grein, reglur hvers lands gilda og t.d. getur stjórnarandstaða samið sín á milli um það hvernig hún skiptir þessum sætum eins og öðrum sín á milli. En mér finnst þetta samt vera grundvallarregla sem ég vildi sjá hér og víðar í alþjóðlegu samstarfi þingmanna, að sem flestir komist að svo lengi sem það er hægt. Það gefur auga leið að t.d. á Lögþingi Færeyinga þar sem eiga sæti fjölmargir flokkar, ég man nú ekki töluna en þeir eru býsna margir, hafa menn komið sér saman um reglur um það hvernig þeir skiptast á um þessa samvinnu.

Við höfum rætt það okkar á milli í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannasambandsins hvort vilji væri til þess að gera ákveðið samkomulag það sem eftir lifir kjörtímabilsins þannig að allir þessi fimm þingflokkar eigi þar sæti en sá stærsti, þ.e. Sjálfstfl., auki hlut sinn en það er ekki komin niðurstaða í það mál. En það verður væntanlega fljótlega ljóst eftir að þessi tillaga hefur verið afgreidd.

Þetta er athugasemd mín við þessa tillögu, hæstv. forseti, en að öðru leyti tek ég undir efni hennar en mér fannst þetta vera svo stórvægilegt atriði að ég vildi ekki gerast flm. þessarar tillögu.