Tvöföldun Reykjanesbrautar

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 17:09:57 (5755)

1997-05-02 17:09:57# 121. lþ. 115.13 fundur 402. mál: #A tvöföldun Reykjanesbrautar# þál., Flm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[17:09]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls undir þessari umræðu og tekið undir tillöguna sem ég hef mælt fyrir. Ég vil leyfa mér að geta nokkurra atriða sem við erum sammála um að skipta máli þegar við veltum fyrir okkur framkvæmd af þessu tagi, forsendum til hennar eða hvaða ávinning við getum af hlotið. Ég tek undir orð Ólafs Þ. Þórðarsonar, hv. þm. Vestf., að ástand Reykjanesbrautar er þannig nú að veruleg ástæða er til að bæta slitlagið en það breytir því hins vegar ekki að það er líka veruleg þörf á að auka flutningsgetu og bæta öryggi umferðar um brautina. Ég heyri á máli hans að við erum sammála um þetta. Annað atriði sem ég veit í raun og veru að við erum báðir sammála um og fleiri þingmenn hér, er bætt umferð. Afkastabetri umferðartæki og umferðarmannvirki eru verulegur og veigamikill þáttur í byggðaþróun og í þróun atvinnu- og efnahagslífs. Þetta er þekkt hér á landi í seinni tíð og er þekkt með grannþjóðum okkar nánast frá örófi alda. Ákveðnum hluta af þessum sannleik virtumst við hafa glatað um hríð og við lögðum ekki mikið til vegamála. Sem betur fer höfum við aðeins snúið við blaðinu í þessu efni og ég tek undir þau orð að okkur ber að leita allra leiða til þess að auka fjárveitingar og fjármagn í heild sinni til vegagerðar í landinu.

Ég vek athygli á því að í máli okkar flutningsmanna, t.d. í greinargerðinni, er vikið að því að skoða þurfi fjárhagsleg og tæknileg atriði. Við bindum okkur hvergi við það að verkefnið, þegar að því kemur sem við raunar gefum okkur að geti ekki orðið mjög fljótt, hljóti að verða fjármagnað af vegafé eins og það er í dag. Við teljum aðra fjármögnun koma til álita og höfum raunar í hinum fyrri þingmálum þessa efnis nefnt að leita skuli annarra leiða. Ástæða þess að við nefnum sérstaklega vegsvæðið milli Hafnarfjarðar og Leifsstöðvar er sú að milli Hafnarfjarðar og Mjóddar í Reykjavík, eða milli Reykjavíkur og Kópavogs, er annar vegarkafli sem einnig er kallaður Reykjanesbraut en er fjármagnaður með öðrum hætti og litið á sem annað verkefni. Ákvarðanir varðandi fjármögnun þess eru lengra á veg komnar. Það er þegar á áætlun en þessi vegarhluti er ekki einu sinni á langtímaveg\-áætlun. Ég bendi á 1. mgr. í greinargerð með tillögunni vegna þessa.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir velti því fyrir sér hvort það væru líkur á samþykkt þessarar tillögu. Ég efa ekki að vangaveltur um það eru réttmætar en þó vil ég geta þess að nú eru hér á þingi og meðal flm. þessarar tillögu menn sem mæltu á móti henni í héraði fyrir fáum árum. Ég tel það skipta miklu máli sem hún og nefndi, að nú eru þingmenn kjördæmisins samtaka í þessu máli og lýsa því með því að vera allir flutningsmenn að tillögunni. Ég fagna því mjög að þannig hefur til tekist og ég tel það meira virði heldur en það hvort framkvæmdin verður sjáanleg innan skamms eða þó örlítið lengra verði þangað til við sjáum hana. Ég vil vekja á því sérstaka athygli sem ég nefndi ekki í fyrri ræðu minni en hef raunar oft vikið að áður að Reykjanesbrautin er einn af þeim þjóðvegum sem allir landsmenn fara um oft á ævinni. Nánast má segja að Íslendingar fari vart til annarra landa án þess að fara um Reykjanesbraut á leiðinni bæði að heiman og heim aftur. Þannig tel ég alveg ljóst að þetta er þjóðvegur allra landsmanna, ekki Suðurnesjamanna eingöngu. Ekki einasta Suðurnesjamanna og höfuðborgarbúa, heldur allra Íslendinga.

En vegna þess sem hér hefur verið vikið að um öryggi umferðar, mikil tíð og dýr slys á fólki á Reykjanesbrautinni, þá er sérstaklega rakið á bls. 3 í greinargerðinni hvað þar er um að ræða. Ég vil leyfa mér að nefna aftur það sem hér var vikið að, að á þessum 50 km af 8.300 km í þjóðavegakerfi Íslands, 0,6% eða innan við 1% af þjóðvegum landsins öllum, verða 12,3% eða nærri því áttundi partur af öllum umferðarslysum. En vel að merkja, það kemur ekki fram þarna þó að þessi kafli sé nefndur svartasti kaflinn, að um slysin á Reykjanesbraut er hægt að rekja í skýrslum lækna og annarra sem um þau þurfa að fjalla og þurfa að annast fólkið sem í þeim lendir að þau eru verstu umferðarslys á þjóðvegum á Íslandi. Ofar á sömu blaðsíðu er vikið að athugun á því hvað þessi slys kunni að hafa kostað. Og þar má geta þess að seint á árinu 1990 kom út athugun sem var byggð á því sem hafði gerst 1989 og þá var hægt áætla sem svo að slysin á Reykjanesbraut hefðu kostað u.þ.b. 3/4 úr milljarði ef reynt er að meta það til fjármuna. Sú fjárhæð hefur aldrei komið fram í mati Vegagerðarinnar á arðsemi þess að auka öryggi umferðar. Ég tel að það sé nokkuð sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gat um að sé að líkindum veigamest.