Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:29:31 (5887)

1997-05-06 14:29:31# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:29]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hefur um langt árabil verið mjög mikilvæg burðarstoð í atvinnulífi í Reykjavík. Þess vegna er tímabært að hv. þm. Svavar Gestsson tekur framtíð hennar hér til umræðu. Það hefur verið rakið af hæstv. umhv.- og landbrh. að kaflaskil hafa orðið í rekstri verksmiðjunnar. Þegar Íslendingar urðu aðilar að EES var einkaleyfið afnumið um leið sem Áburðarverksmiðjan hafði á sölu á áburði hér innan lands.

Komið hefur fram hjá formanni landbn., hv. þm. Guðna Ágústssyni, að þrátt fyrir að innflutningur á áburði sé nú frjáls virðist sem íslenskir bændur vilji frekar kaupa áburð sem er örlítið dýrari en hann er hins vegar vistvænn og er innlend framleiðsla. Í þessu felst e.t.v. kjarni málsins.

Framtíð þessarar verksmiðju sem áburðarframleiðanda hlýtur að standa og falla með þeim stuðningi sem hún hlýtur af hálfu íslensks landbúnaðar. Ég verð hins vegar að segja að ég held að framtíð hennar sem áburðarframleiðanda sé nú mjög í tvísýnu. Eins og íslenskur landbúnaður er nú staddur þá hljóti að vera erfitt að gera þá kröfu til hans að hann kaupi innlent ef hann á kost á útlendu jafngóðu efni á talsvert lægra verði. Þess vegna held ég að það sé líka rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði að nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg og ríkisvaldið reyni að hlutast til um að treysta stoðir verksmiðjunnar til framtíðar. Meiri hlutinn sem ræður í Reykjavík, Reykjavíkurlistinn, hefur einmitt gert það. Kannanir eru í gangi á því hvernig hægt er að nýta þá miklu fjárfestingu sem þar er fyrir. Menn hafa t.d. verið að kanna möguleikana á að reisa þar peroxíðverksmiðju sem er tiltölulega mengunarlítil. Það hafa verið aðrar mun óheillavænlegri hugmyndir upp eins og búa þarna til olíuhreinsun eða sinkverksmiðju en ég tek ekki undir þær.

Eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sagði er þarna mikil þekking til staðar á sviði vetnisframleiðslu. Ég minni á það frábæra verkefni sem Bragi Árnason prófessor hefur rekið þarna árum saman, minni á þær ályktunartillögur sem hér hafa verið samþykktar og bornar fram af Kvennalistanum á síðustu kjörtímabilum sem einmitt varða þetta. Ég held að það sem hér kom fram sé e.t.v. lykillinn að framtíð þessarar verksmiðju, en enn þá eru þau mál í deiglu og ljóst að mikið þróunarstarf er óunnið. Ég tek undir með hv. þm. Guðna Ágústssyni að ríkisvaldið og Reykjavíkurborg leggi saman fé til að reyna að þróa verkefni af því tagi til að halda þessum störfum á lífi.