Öryggisþjónusta

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 15:38:25 (5900)

1997-05-06 15:38:25# 121. lþ. 117.10 fundur 486. mál: #A öryggisþjónusta# frv., Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:38]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1075 um 486. mál, frv. til laga um öryggisþjónustu.

Allshn. hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og Viðar Ágústsson frá Öryggisþjónustunni Vara. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Öryggisþjónustunni Vara, Neytendasamtökunum, Öryggisþjónustunni Sívaka, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi lögreglumanna, Landssambandi slökkviliðsmanna og lögreglustjóranum í Reykjavík.

Með frv. er stefnt að heildarlagasetningu um öryggisþjónustu, en hér hafa um nokkurt skeið verið starfandi fyrirtæki sem veita viðskiptavinum sínum margvíslega öryggisþjónustu sem felst einkum í því að gæta húsakynna eða athafnasvæða. Nú eru ekki í lögum takmarkanir á því hver getur haft slíkan rekstur með höndum né nánari reglur um framkvæmd starfseminnar eða hæfi þeirra sem starfrækja öryggisþjónustu. Mikilvægt er að slíkar reglur séu til þar sem oft er um mikla hagsmuni að ræða og nauðsynlegt að þeir sem annast öryggisþjónustu noti sér ekki aðstöðu sína í vafasömum tilgangi. Er öryggisþjónusta skilgreind í frv. og þar er að finna ákvæði um að leyfi ráðherra þurfi til að annast öryggisþjónustu í atvinnuskyni og skilyrði þess að slíkt leyfi verði veitt.

Nefndin leggur áherslu á að frv. miðar ekki að því að veita þeim aðilum sem fá leyfi til að sinna öryggisþjónustu opinbert vald. Eftir sem áður verða þeir sem sinna öryggisgæslu að leita atbeina lögreglu ef beita þarf opinberu valdi, t.d. við handtöku. Nefndinni bárust athugasemdir við það að í frv. eru ekki gerðar aðrar hæfniskröfur til starfsmanna öryggisþjónustufyrirtækja en að þeir séu að minnsta kosti 18 ára að aldri og að öðru leyti til þess fallnir að rækja starfann af samviskusemi og trúverðugleika. Telur nefndin ekki ástæðu til að setja frekari hæfniskröfur í lög en minnir á að strangar kröfur eru gerðar til þeirra sem starfrækja öryggisþjónustu og ætlast verður til að yfirmenn fylgi því eftir að starfsmenn hafi óflekkað mannorð og valdi starfinu. Þá bárust nefndinni athugasemdir varðandi klæðnað starfsmanna öryggisþjónustufyrirtækja. Telur nefndin að gæta verði þess að einkennisklæðnaður þessi líkist ekki of mikið klæðnaði löggæslumanna. Telur nefndin ekki ástæðu til að setja skilyrði varðandi klæðnað í lög en bendir á að æskilegt sé að kveðið verði nánar á um þetta atriði í reglugerð.

Nefndin leggur til breytingu við 2. gr. frv., um það skilyrði að einstaklingur, sem hyggst annast öryggisþjónustu, þurfi að hafa haft forræði á búi sínu síðustu tvö ár. Leggur nefndin til að tími þessi verði lengdur í fimm ár. Er breytingartillagan í samræmi við þá þróun sem orðið hefur varðandi sams konar ákvæði í öðrum lögum. Má nefna sem dæmi að sölumenn notaðra ökutækja þurfa samkvæmt lögum að hafa haft forræði á búi sínu í þrjú ár og nýverið lagði allsherjarnefnd til að fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar skyldu hafa haft forræði á búi sínu síðustu tíu ár.

Nefndin mælir með samþykkt frv. Valgerður Sverrisdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Aðrir nefndarmenn skrifa undir álitið en tveir hv. þm., Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson, skrifa undir með fyrirvara.