Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 15:20:48 (5978)

1997-05-07 15:20:48# 121. lþ. 118.10 fundur 601. mál: #A réttarstaða fólks í óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:20]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er svo að þáv. dómsmrh. sýnist hafa komist að þeirri niðurstöðu varðandi þetta mál að ekki væri ástæða til að aðhafast frekar en fram kom í svari hans við fyrirspurninni árið 1982. Eins og fram kom í ræðu hv. fyrirspyrjanda hafa síðan setið einir fjórir dómsmálaráðherrar þangað til ég tók við því embætti.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög umdeilanlegt að festa í lög reglur um eignarrétt fólks í óvígðri sambúð og þó einkum um erfðarétt þess á milli. Ég tel að slíkar reglur, þótt e.t.v. yrði unnt að semja sig undan þeim, væru þess til þess fallnar að skapa fleiri ágreiningsmál og eignarflækjur en þær mundu leysa. Það er einnig í mörgum tilvikum svo að fólk kýs að búa saman í óvígðri sambúð vegna þess að það vill ekki lúta þeim réttaráhrifum sem hjúskap fylgja.

Ég bendi á að karl og kona í óvígðri sambúð geta tryggt eignar- og erfðaréttarlega stöðu sína að verulegu leyti kjósi þau að gera svo. Þau geta t.d. átt fasteign og bifreið í sameign og gætt þess að eignarhlutur þeirra sé skráður í þinglýsingarbækur og þau geta gert gagnkvæma erfðaskrá. Ef annað þeirra á börn fyrir hefur það ráðstöfunarrétt á 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá en ef viðkomandi er barnlaus getur hann ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá.

Það eru ekki uppi af þessum sökum áform í ráðuneytinu, a.m.k. ekki að svo stöddu, að breyta réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð hvað varðar eignar- og erfðarétt. Þess má á hinn bóginn geta að ýmis nýmæli hafa verið lögfest frá því að fyrrgreind þáltill. var samþykkt á Alþingi sem tryggja bætta réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð. Þar má m.a. nefna að í lögum um erfðafjárskatt frá 1984 er kveðið á um að hvorki maki hins látna né sambýlismaður eða sambúðarkona ef því er að skipta þurfi að greiða erfðafjárskatt. Þá er í skiptalögum frá 1991 mælt fyrir um að ef karl og kona slíta óvígðri sambúð og ágreiningur rís um eignaskipti geti annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra ef þau hafa búið saman samfleytt í a.m.k. tvö ár eða búið saman skemmri tíma og annaðhvort eignast barn eða konan er þunguð af völdum karlsins.

Loks vil ég benda á breytta dómvenju frá tímum framangreindrar þál. Horfið hefur verið frá því að dæma þeim sambúðaraðila sem ekki er skráður fyrir eignum ráðskonu- eða ráðsmannskaup í ágreiningsmálum um eignaskipti við sambúðarslit og hefur um árabil verið fallist á hlutdeild þess aðila í eignamyndun á sambúðartímanum í samræmi við framlag hans til eignamyndunarinnar sem hefur verið fólgið í fjárframlagi, vinnu á heimili eða með öðrum hætti. Ég tel hins vegar brýna þörf á fræðslu um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð og því hefur verið ákveðið að láta útbúa stuttan fræðslubækling um það efni sem mun m.a. liggja frammi á þeim stöðum þar sem fólk skráir sig í óvígða sambúð, svo sem á Hagstofu Íslands.