Biskupskosning

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:17:41 (5999)

1997-05-09 14:17:41# 121. lþ. 120.10 fundur 302. mál: #A biskupskosning# (kosningarréttur við biskupskjör) frv., Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:17]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 1033 um frv. til laga um breyting á lögum um biskupskosningu, nr. 96 31. desember 1980 (kosningarréttur við biskupskjör), 302. mál þingsins.

Nefndin fékk á sinn fund vegna málsins Þorstein Geirsson, Þórhall Ólafsson og Hjalta Zóphóníasson frá dóms- og kirkjumrn. Var frv. sent fjölmörgum aðilum til umsagnar ásamt frv. til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og bárust nefndinni mörg svör.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að taka af öll tvímæli um hverjir eru kjörgengir til biskupskjörs, en að undanförnu hefur fjölgað prestvígðum mönnum sem ekki eru ráðnir til starfa af kirkjulegum yfirvöldum, t.d. sérþjónustuprestum á sjúkrahúsum. Er frumvarpinu ætlað að tryggja þeim sérþjónustuprestum, sem ráðnir eru til starfa af sjúkrastofnunum, kosningarrétt við biskupskjör og kjör vígslubiskupa. Einnig er í frumvarpinu lagt til að aðstoðarprestum, sem ráðnir eru af sóknarnefndum, verði tryggður sami réttur. Í þriðja lagi er lagt til að rektor Skálholtsskóla fái í þessum efnum sömu réttindi og kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands. Þá er lögð til breyting á ákvæðum laganna um kjör leikmanna í samræmi við skiptingu Reykjavíkurprófastsdæmis í tvö prófastsdæmi.

Nokkrar umræður urðu í nefndinni um kosningarrétt í biskupskjöri og komu þau sjónarmið komu fram að stefna beri að fjölgun þeirra sem hafa rétt til þátttöku í biskupskjöri þannig að m.a. djáknar og aðrir fastir starfsmenn kirkjunnar komi þar að.

Nefndin leggur til að gerð verði ein breyting á frv. en hún miðar að því að tryggja að þeir prestar sem ráðnir eru af sveitarfélögum, t.d. til að sinna öldruðum, fá kosningarrétt við biskupskjör.

Nefndin mælir með samþykkt frv. Undir álitið skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Jónsson, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason, Ögmundur Jónasson, Kristján Pálsson og Guðný Guðbjörnsdóttir.