Skipan prestakalla

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:24:35 (6002)

1997-05-09 14:24:35# 121. lþ. 120.11 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:24]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil koma hérna upp til þess að taka mjög sterklega undir álit minni hluta allshn. í þessu máli. Mér finnst þetta algjörlega fráleitt ef við ætlum að fara að samþykkja að stytta starfsþjálfun guðfræðikandídata úr fjórum mánuðum niður í tvo. Hver eru rökin fyrir þessu? Þau eru að kirkjan vill þetta af því hún hefur ekki peninga til að greiða þetta. Það er ekki hægt að leggja svona rök fyrir þingið.

Það hefur komið fram áður að þegar þessi lög voru sett upphaflega var nauðsynlegt að þjálfa guðfræðikandídata og það getur ekki verið að sú nauðsyn hafi eitthvað minnkað. Það eina sem hefur breyst er að talið er að fjármagn skorti til að greiða fyrir þennan kostnað. Mér finnst það ekki vera nægileg rök til að við förum að hleypa þessu í gegnum þingið. Ég er þeirrar skoðunar að frekar þurfi að ræða hvernig væri hægt að tryggja þetta aukna fjármagn. Og ég sé að prestlegt bros færist yfir varir hins eina sem vígður er hér í þessum sölum. Ég hef svo sem ekki heyrt álit hans á þessu máli en ég vænti þess að í þessu eins og í flestum öðrum efnum sem tengjast kirkjulegum málefnum, eigum við samleið. Ég skil þetta en út af fyrir sig væri gaman að heyra það rökstutt af munni klerksins okkar hvernig í ósköpunum hann getur stutt þetta. Því er haldið fram af formanni Þjóðvaka að hv. þm. séra Hjálmar Jónsson styðji þessa ósvinnu. Ég vil fá að vita með hvaða hætti hann getur stutt þetta. Út af fyrir sig getur vel verið að hann, sem einn af þeim er vinnur á akrinum, hafi einhver rök sem geta nægt til þess að sannfæra mig. Ég kem hér einungis sem fulltrúi leikmannanna og ég er þeirrar skoðunar að í fyrsta lagi þurfi fleiri aðstoðarpresta. Það þarf aðstoðarpresta víðar og það þarf að þjálfa þá vel.

Ég tel að menntun guðfræðinga á Íslandi sé afskaplega góð og hún hefur batnað á síðustu árum. Starf prestanna hefur verið að breytast. Þeir hafa, hvort sem það er gott eða slæmt, samt sem áður í vaxandi mæli tekið að sér eins konar hlutverk félagsráðgjafa og sálfræðinga og þeir eru þannig í sveit settir hver í sínum söfnuði að þeir eiga afskaplega auðvelt með að sinna slíku starfi. En það þýðir hins vegar að starf prestanna eykst. Það verður meira álag á þá og þarf því að búa þá með öðrum hætti undir starfið. Og það er þess vegna sem ég skaut því hérna fram að ég er þeirrar skoðunar að fjölga eigi aðstoðarprestum í vaxandi mæli og þjálfa þá einnig betur.

Ég hef reynt að rökstyðja í örstuttu máli hvernig mér sýnist sem starf prestsins hafi breyst og ég held að prestarnir hafi tekið yfir hlutverk sem er afskaplega þakklátt af hálfu sóknarbarnanna. En það kostar að þjálfa þarf prestana betur. Það þarf að þjálfa guðfræðikandídatana og þessi reynsla sem ég er að reifa fæst hvergi nema á akrinum. Ég sé að hv. prestur glottir og ég skil það nú ekki vegna þess að ég held að ég sé að hreyfa hér afskaplega þörfu máli. Ég held að nauðsynlegt sé að við reynum að styðja við þetta hlutverk kirkjunnar sem hún hefur tekið sér í vaxandi mæli og er lofsvert af hennar hálfu. Við gerum það ekki með því að breyta eða stytta starfsþjálfun guðfræðikandídata. Það eru engin rök fyrir því, herra forseti, að fækka starfsþjálfunarmánuðunum um helming, úr fjórum niður í tvo. Ég held frekar að fjölga ætti þeim mánuðum. Einu rökin sem ég hef séð í þessu máli, og þau komu fram við framsögu þessa máls, voru þau að ekki væru til peningar í kirkjumálasjóði sem á að greiða þetta. Það finnst mér bara ekki vera aðalatriði málsins. Mér finnst aðalatriði málsins vera þetta: Er þörf á þjálfun? Ef svarið er já, sem ég tel, verðum við að afla fjár með einhverjum hætti til að kosta það. Það verður þá að reyna að spara annars staðar innan kirkjunnar eða einfaldlega að ríkið verði að hlaupa undir bagga með kirkunni í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Ég er algjörlega á móti þessu.