Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 15:51:04 (6126)

1997-05-12 15:51:04# 121. lþ. 121.7 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[15:51]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það eru örfá atriði sem mig langar að gera hér að umtalsefni við 3. umr. málsins. Ég var ekki í umhvn. þegar málið var afgreitt og fulltrúi Alþb. og varamaður minn á þingi skrifaði undir nál. með fyrirvara. Við atkvæðagreiðslu við 2. umr. gerði ég stuttlega grein fyrir vissum fyrirvörum af minni hálfu sem e.t.v. endurspegla það sem hv. þm. sem skrifaði undir nál. hafði í huga í sambandi við fyrirvara en ég vil þó ekki kveða neitt ákveðið upp úr um það. Það kann að taka til fleiri atriða heldur en ég vík að og hef talað um. En ég hlýddi á umræðu áðan milli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og formanns umhvn. Ólafs Haraldssonar varðandi túlkun á 10. gr. frv. Mig langaði aðeins að fram kæmi sá skilningur sem ég hef á málinu. Ég vil ekki segja að það sé endilega skilningur á texta laganna eða útlegging á því heldur meira almennt skilningur á málinu og málavöxtum. Vegna þess, virðulegur forseti, að ég er að vitna til máls sem var í umræðu hér áðan þætti mér vænt um að formanni umhvn. væri gert viðvart þannig að hann gæti fylgst með þessu. Í 10. gr., 1. mgr. er þetta orðað eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn gerir tillögu til ofanflóðanefndar að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem þegar hafa verið byggð samkvæmt aðalskipulagi. Eftir að viðurkennd varnarvirki hafa verið reist er heimilt að meta af bærum aðilum hvort til greina komi að þétta byggð á viðkomandi svæði og þá með hvaða skilyrðum.``

Á það var bent af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hér væri um að ræða breytingu frá gildandi lögum, nr. 28/1985, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Ekki má hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er áhættusvæðum, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.``

Ég sé út af fyrir sig ekki að það sé einhver sérstök mótsögn á milli þessara ákvæða en skal þó ekki vera með stífar túlkanir á því, það getur hver lesið í textann sem hefur hann fyrir framan sig. En ég vil að það viðhorf og mat af minni hálfu liggi fyrir að með byggingu varnarvirkja til að verjast snjóflóðum geta menn ekki fullyrt að þar með hafi þeir séð til þess að svæði sem undir þessum varnarvirkjum er og virkjunum er ætlað að verja sé ekki lengur í neinni hættu fyrir snjóflóðum. Mér fannst í þeirri umræðu sem hér fór fram af nefndum hv. þingmönnum að þeir litu svo á málið. Varnarvirki eru að sjálfsögðu reist til þess að draga úr hættu og gera það væntanlega í verulegum mæli, en að þau útiloki hættu og að þau leysi viðkomandi íbúa undan þeirri kvöð að þurfa hugsanlega við vissar aðstæður að sæta rýmingu þess húsnæðis sem þeir búa í á því svæði sem undir er, tel ég ekki að liggi í eðli máls. Og ég held að menn geti leitað nokkuð víða um lönd þar sem svona aðstæður eru og þar sem varnarvirki hafa verið reist, menn ganga ekki út frá þeirri forsendu að þeir séu þar með búnir að skapa 100% öryggi gagnvart snjóflóðahættu fyrir þá íbúa sem eru á því svæði sem verið er að verja. Svo einfalt tel ég að málið sé almennt talað. Hversu mikil áhættan er eftir að varnarvirki hafa verið reist fer að sjálfsögðu eftir gerð þeirra og aðstæðum sem skapast fyrr eða síðar, hvort þau gagnast 100% eða ekki. Það væri að skapa falskt öryggi að líta svo til í framtíðinni varðandi almannavarnir, hvort sem þær eru í höndum viðkomandi sveitarfélags eða í höndum Veðurstofu Íslands, í sambandi við rýmingu svæða við tilteknar aðstæður, að ekki þurfi lengur að fylgjast þar með og meta hvort hættuástand skapast eða ekki. Og ég tel að það væri mjög alvarlegt mál ef gefið væri til kynna gagnvart íbúum í viðkomandi byggðarlögum að með byggingu varnarvirkja sé verið að skapa fullkomið öryggi og losa viðkomandi með öllu frá því að þurfa að gera ráð fyrir að þurfa að rýma húsnæði sitt við tilteknar aðstæður, við getum kallað það verstu aðstæður eða slæmar aðstæður. Þetta vildi ég að fyrir lægi sem mitt viðhorf og mat á málinu þar sem ég á sæti í umhvn. en var ekki við lokaafgreiðslu og mér fannst að túlkanir lægju þannig að menn væru að gefa til kynna að forsendur og skilningurinn væri sá að með ákvæðum laganna eða á bak við ákvarðanir um varnarvirki væru menn búnir að skapa þetta fullkomna öryggi gagnvart þessari vá.

Virðulegur forseti. Síðan aðeins í sambandi við bráðabirgðaákvæði sem ég studdi með skýringu við 2. umr. málsins. Þetta ákvæði hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn leggur fram tillögu um skipulag nýrrar byggðar og nýbygginga í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu. Skipulagstillagan skal unnin í samræmi við reglur, sem umhverfisráðherra setur. Ráðherra skal fá tillögur frá Skipulagi ríkisins, Veðurstofu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og skal liggja fyrir bráðabirgðahættumat. Skal styðjast við þær reglur þar til hættumat hefur verið staðfest fyrir hlutaðeigandi sveitarfélag.`` Þetta er ákvæði I til bráðabirgða. Og um þetta er fjallað í nál. með svofelldum hætti, með leyfi forseta:

,,Loks er gerð tillaga varðandi ákvæði til bráðabirgða I um nýja byggð og nýbyggingar í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu. Gerir tillagan ráð fyrir að þar til hættumat hefur verið staðfest skuli sveitarstjórn leggja fram tillögu um skipulag nýrrar byggðar og nýbygginga og skal tillagan vera í samræmi við reglur sem umhverfisráðherra setur. Áður en umhverfisráðherra setur reglurnar skal hann hafa fengið tillögur frá Skipulagi ríkisins, Veðurstofu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einnig skal liggja fyrir bráðabirgðahættumat fyrir viðkomandi svæði. Miðar tillagan að því að heimila brýnar framkvæmdir í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu, en jafnframt leggur nefndin áherslu á að ekki verði, áður en hættumat liggur fyrir, hafnar framkvæmdir á svæðum sem ljóst þykir að séu á hættusvæði. Um framkvæmdir eftir að hættumat liggur fyrir og varnarvirki hafa verið reist gildir 10. gr.``

[16:00]

Ég lét það koma fram í umhvn. varðandi þetta atriði að ég teldi að þarna ættu menn að fara afar varlega í sakirnar. Ég var til með að standa að afgreiðslu málsins án slíks bráðabirgðaákvæðis, þ.e. að bíða eftir því að þessu almenna ferli ljúki og málavextir væru skýrir áður en framkvæmdir væru heimilaðar. Ég tek eftir því að í áliti nefndarinnar sem ég vitnaði til eru menn svona á ákveðnum glóðum þegar um þetta mál er rætt og kannski ekki alveg talað skýrt. Varðandi ákvæði sjálfs textans, ákvæðis til bráðabirgða, þá vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái framkvæmd þessa ákvæðis og alveg sérstaklega þær reglur sem hæstv. ráðherra er ætlað að setja áður en sveitarstjórn mótar sína tillögu. Eftir mínum skilningi á þessu ákvæði þá hljóta þessi ákvæði að vera nokkuð almenns eðlis. Hvernig stendur á því að þau eru ekki útfærð hér í laganna texta í þessu bráðabirgðaákvæði svo skiljanlegt sé? Ég get ekki lesið úr þessu að hér sé verið að tala um að umhvrh. setji reglur sem eigi við í hverju einstöku tilviki heldur sé um að ræða einhverjar almennar leiðbeinandi reglur. Á því vildi ég gjarnan fá skýringu eða skilning, virðulegur forseti, frá hæstv. umhvrh. Ég vara mjög við því að þessu ákvæði verði beitt í einhverjum teljandi mæli. Ég treysti því og ég greiddi atkvæði við 2. umr. til að vera ekki að rjúfa þá viðleitni til samstöðu sem hefur verið við afgreiðslu á þessu vandasama máli. Ég lét það jafnframt koma fram að ég óskaði eftir því að þetta yrði túlkað og með heimildir farið mjög þröngt í þessu sambandi. En þá vandast náttúrlega málið. Hver hefur valdið í þessu efni? Samkvæmt skipulagslöggjöf er það sveitarstjórnin sem hefur það. Þessar tillögur eru ákveðin undirstaða í hugsun í frv. varðandi vöktun og mat á hættuástandi, að færa það frá heimavettvangi kannski sem aðalreglu þótt heimavettvangurinn hafi eftir sem áður möguleika, þ.e. almannavarnarnefnd heima fyrir, að fyrirskipa rýmingu ef henni býður svo við að horfa. Meginreglan er samt sú að Veðurstofa Íslands hafi vald í þessum efnum jafnframt almannavarnanefnd. En skipulagsvaldið liggur samkvæmt þessu ákvæði að ég best fæ séð í höndum sveitarstjórnar með hliðsjón af einhverjum almennum reglum sem hæstv. umhvrh. setur og að bráðabirgðahættumat liggi fyrir.

Ástæðan fyrir því að ég féllst á þetta var að mín hugsun var sú að það ætti að lofa þessum þrýstingi að vera þarna og hann ýtti þá á eftir því að endanlegt hættumat yrði unnið eins hratt og frekast væri kostur á forsvaranlegan hátt og menn losnuðu við þetta bráðabirgðaákvæði. Ég held t.d. að gagnvart íbúðarbyggð eigi alls ekki að beita svona ákvæði eða gagnvart þéttingu íbúðarbyggðar. Þau rök sem ég heyrði og gátu stutt þetta efni voru að það ætti við þjónustuhúsnæði eins og sorpeyðingarstöð sem ég þekki dæmi um og er sannarlega á snjóflóðahættusvæði og yrði tekin í gagnið án þess að eitthvað endanlegt lægi fyrir. Einhver slík atriði með tilheyrandi varúðarráðstöfunum ætti kannski ekki að útiloka vegna aðstæðna og brýnnar þarfar á að nýta viðkomandi en hér ættu menn sannarlega að gæta sín mjög vel.

Ég skal stytta þetta, virðulegur foreti. Ég vil þó nefna að hér eru komin inn ákvæði sem ég tel vera til verulegra bóta og hafði orð á, ég held við 1. umr. málsins, í öllu falli í umhvn. Það snertir það að fram fari hættumat á skipulögðum skíðasvæðum. Ég hefði nú kosið að hafa þetta eitthvað víðtækara, en aðalatriðið er þó skíðasvæði eða svæði þar sem fólk safnast saman í snjó við aðstæður þar sem hætta getur verið yfirvofandi. Það er komið hér inn og er sannarlega til bóta frá því sem var í frv.

Síðan er þetta ákvæði sem ég nefndi í atkvæðaskýringu við 2. umr. málsins og ég vil aðeins tengja þessari ræðu minni nú. Það er það sem snýr að því að hættumat skuli samkvæmt 4. gr. fyrst og fremst ná til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð. Ég hefði kosið að þetta væri ekki orðað svona og legg áherslu á að ekki sé lokað á það að sveitabýli í landinu þar sem menn hafa áhyggjur af snjóflóðahættu fái fyrirgreiðslu þeirra sem eiga að meta slíka hættu og ráðgjöf og aðgang að þeirri þjónustu til samfélagsins sem þarna er um að ræða. Ég sé ekki hvernig stætt er á því að setja inn mismunandi ákvæði af þessum toga þó mér sé fullljóst að það verður að sjálfsögðu að vinna málið stig af stigi og það verður ekki allt gert í einu. En að draga mörkin milli þéttbýlis og dreifbýlis í þessu sambandi finnst mér ekki skynsamleg hugsun og bið um að þetta verði með farið af framkvæmdarvaldinu með þeim skilningi að ekki sé verið að útiloka dreifbýli, sveitabýli, frá því að geta fengið hættumat og ráðgjöf í þessum efnum rétt eins og þéttbýli. Ég held að mannslíf og aðstæður séu jafngildar hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.