Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:28:30 (6134)

1997-05-12 16:28:30# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), JBH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:28]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagðist hafa boðað málamiðlun þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði við 1. umr. Þess vegna er það undrunarefni að þær tillögur sem nú eru keyrðar í gegn í efh.- og viðskn. með atkvæðagreiðslu í klofnu stjórnarliði eru ekki málamiðlun. Tilefni þess að forustumenn aðila vinnumarkaðarins beindu máli sínu til forsrh. og óskuðu eftir frestun á málinu og að samið yrði um framhaldsvinnslu í sumar var einmitt það að þeir voru sammála því mati að tillögur meiri hluta efh.- og viðskn. væru þess eðlis að þær gætu beinlínis stofnað framtíð hins mjög svo rómaða lífeyrissjóðakerfis í hættu. Það er beinlínis vegna þess að þessar tillögur voru fram komnar og vegna andstöðu þessara aðila við grundvallaratriði í þeim tillögum sem beðið var um að gefa tíma til frekari vinnslu málsins til að vinna að málamiðlun. Þess vegna er það undrunarefni að hæstv. ráðherra og formaður efh.- og viðskn. skuli hafa keyrt þessar tillögur í gegn, ætli að fella þær inn í meginmál frv. og ætli að leggja þær fram sem hin skýru skilaboð til aðila vinnumarkaðarins um að á þessum grundvelli ætli stjórnarmeirihlutinn að vinna málinu framgang. Þar með er verið að vekja aftur upp harðar deilur um málið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Virðulegi forseti. Við viljum fyrst og fremst nota þetta tækifæri hér og nú til þess að eyða þeim misskilningi að hér sé um sáttagerð að ræða. Það er algjörlega gagnsæ tvöfeldni í þeim málflutningi. Þetta er ekki sáttagjörð, þetta er stríðshanski og getur haft ófyrirsjáanlegar skaðlegar afleiðingar um framgang málsins, og við vörum eindregið við því.