Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 17:07:19 (6146)

1997-05-12 17:07:19# 121. lþ. 122.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., JóhS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[17:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Kirkjunnar menn telja að það samkomulag sem íslenska ríkið og þjóðkirkjan gerðu 10. janúar 1997 um launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar eigi að standa um aldur og ævi jafnvel þótt numin verði úr gildi ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd og stuðning ríkisins við kirkjuna. Þannig túlka þeir að búið sé að tryggja um ókomna framtíð fjárhagsskuldbindingar ríkisins við kirkjuna. Telja kirkjunnar menn að ef breyta eigi þessum skuldbindingum ríkisins við kirkjuna þá væri af hálfu kirkjunnar hægt að setja fram kröfu um greiðslu á óskertum höfuðstól kirkjujarða frá 1907. Þess vegna er hér flutt brtt. þess efnis að allir liðir samkomulagsins geti komið til endurskoðunar eigi síðar en að 15 árum liðnum frá undirritun þess enda hefur ríkið ekki fjárhagslegar skuldbindingar samkvæmt samningnum nema til þess tíma.