Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 18:10:33 (6161)

1997-05-12 18:10:33# 121. lþ. 122.23 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., Frsm. meiri hluta SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[18:10]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, frá meiri hluta efh.- og viðskn., á þskj. 991.

Nefndin hefur farið mjög ítarlega yfir þetta mál í vetur og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson, deildarstjóra í forsætisráðuneyti, og Önnu Sigríði Örlygsdóttur og Gunnar Björnsson, deildarstjóra í fjármálaráðuneyti. Nefndin leitaði eftir áliti annarra fastanefnda þingsins á ákvæðum frv. er til þeirra málaflokka heyrðu og bárust nefndinni fjölmargar umsagnir. Einnig bárust umsagnir um málið frá ýmsum öðrum aðilum utan þings.

Ákvæði þessa frv. leiðir af ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem samþykkt voru á síðasta þingi og þeim markmiðum sem þau lög stefna að. Starfsmannalögin eru almenn lög sem víkja fyrir sérlögum. Því er nauðsynlegt að sérákvæðum um einstaka embættismenn og hópa starfsmanna verði breytt til samræmis við meginreglu laganna. Má þar fyrst nefna afnám æviráðningar, þ.e. að skipun embættismanna verði framvegis tímabundin til fimm ára í senn. Þó er með hliðsjón af 61. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstæði dómara áfram gert ráð fyrir að þeir verði skipaðir ótímabundið.

Jafnframt er lagt til að lögbundinn atbeini forseta Íslands til að veita önnur embætti en hæstaréttardómara og biskups falli brott.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir að forstöðumönnum verði almennt falið að ráða starfslið þeirra stofnana er þeir veita forstöðu.

Loks eru sérákvæði er gera ráð fyrir tímabundinni ráðningu starfsliðs almennt felld brott enda gerir 1. mgr. 41. gr. starfsmannalaganna ráð fyrir því að ráðning í starf skuli almennt vera ótímabundin með gagnkvæmum uppsagnarfresti með þriggja mánaða fyrirvara.

Meiri hlutinn leggur til á þskj. 992 breytingar á fjölmörgum ákvæðum frv. Of langt mál væri að telja upp brtt. við hverja einustu grein en skipta má tillögunum í nokkra flokka. Í fyrsta lagi er lagt til að felld verði brott úr frv. ýmis ákvæði sem lögfest voru fyrir áramót, flest með lögum nr. 150/1996. Í öðru lagi er lagt til að úr lögum verði felld brott ákvæði um nauðsyn forstjóra til að fara að tillögum eða leita álits tillagna, samráðs, umsagna eða samþykkis stjórnar fyrir ráðningu undirmanna. Þykja slík ákvæði vera í andstöðu við einn megintilgang nýju starfsmannalaganna um aukna ábyrgð forstjóra. Sama á við um ákvæði þar sem kveðið er á um að forstjóri skuli leita samþykkis ráðuneytis fyrir ráðningu starfsfólks. Rétt er að taka fram að ekki eru gerðar tillögur til breytinga á ákvæðum þar sem sérstökum dómnefndum er ætlað að meta hæfni umsækjenda, samanber t.d. 22. gr. laga um búnaðarfræðslu og ákvæðin um stöðunefndir samkvæmt lögum um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og lögum um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra. Í þriðja lagi er lagt til að dregið verði úr lögbundnum sérmenntunarkröfum sem allvíða í lögum eru gerðar til forstöðumanna.

Meiri hlutanum þykir á grundvelli meginstefnu starfsmannalaganna ekki rétt að binda hendur ráðherra um of í þessu efni með lögum. Sem dæmi má nefna að í gildandi lögum er gert ráð fyrir að forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins hafi lokið háskólaprófi í raunvísindum og sé sérfróður um fiskiðnað, forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hafi lokið háskólaprófi í raunvísindum og sé sérmenntaður í einhverri grein búvísinda, forstjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins hafi lokið háskólaprófi í raunvísindum og forstjóri og annar aðstoðarforstjóra Hafrannsóknastofnunar hafi lokið háskólaprófi og séu sérfróðir um hafrannsóknir. Þessar tillögur nefndarinnar eru líka til samræmis við það sem almennt gildir því oftar en ekki eru hendur skipunarvaldsins óbundnar að þessu leyti. Þannig eru t.d. í lögum engar sérstakar menntunarkröfur gerðar til vegamálastjóra, forstjóra Byggðastofnunar, forstjóra Fiskistofu, forstjóra Iðntæknistofnunar Íslands, forstjóra Landmælinga Íslands, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, forstjóra Vinnueftirlits ríkisins, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, flugmálastjóra, veðurstofustjóra, forstöðumanns bankaeftirlitsins, forstöðumanns Vátryggingaeftirlitsins, bankastjóra ríkisbanka og Seðlabanka, forstöðumanns Samkeppnisstofnunar og framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs Íslands.

[18:15]

Í sumum þessara tilvika ber ráðherra þó að leita álits stjórnar stofnunarinnar áður en skipað er í stöðuna. Það liggur í augum uppi að mikilvægara er að forstöðumenn hafi til að bera stjórnunarhæfileika en að þeir hafi endilega sérmenntun á því sviði sem stofnunin fæst við. Löggjafinn hefur líka lagt áherslu á það, samanber t.d. hæfisskilyrði framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins, í lögum nr. 81/1988, þar sem segir:

,,Framkvæmdastjóri skal hafa menntun og reynslu á sviði stjórnunar og rekstrar.``

Það er helst í minni stofnunum sem eðlilegt er að gera kröfu um að forstöðumaður sé menntaður á því sviði sem heyrir undir stofnunina, sérstaklega ef nýta þarf starfskrafta hans á fagsviðinu. Hefur meiri hlutinn tekið mið af því þó að velta megi fyrir sér hvort ekki sé rétt að fela þeim er skipar í stöðuna alfarið að meta hæfi umsækjenda, oftar en ekki á grundvelli lögbundinna álitsumleitunar til stjórna eða nefnda, í stað þess að binda sérstök hæfisskilyrði í lög.

Aðrar breytingar sem nefndin leggur til miða ýmist að lagfæringu á orðalagi og frekari samræmingu einstakra lagaákvæða að nýjum starfsmannalögum, samanber t.d. breytingar á lögum um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, í 50.--53. lið brtt.

Þá skal þess að lokum getið að meiri hlutinn leggur til að úr frv. verði felld brott ákvæði um breytingar á nokkrum lögum sem eru eða hafa verið til umfjöllunar í öðrum nefndum þingsins, samanber ákvæði er varða Alþingi og stofnanir þess og ákvæði er varða þjóðkirkjuna og skipun biskups og presta.

Frá því að meiri hluti efh.- og viðskn. skilaði áliti sínu um þetta mál hafa komið til annarra nefnda fleiri þingmál sem líkur eru til að verði lögfest á þessu vorþingi er varða ákvæði sem frv. leggur til breytingar á. Því mun meiri hlutinn væntanlega leggja til við 3. umr. að þau ákvæði verði einnig felld brott úr frv.

Að lokum, herra forseti, vil ég þakka nefndarmönnum fyrir samstarfið í þessu máli en nefndin hefur eins og fram kom í upphafi máls míns eytt verulegum tíma í vinnu við málið.

Undir álitið rita Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Pétur H. Blöndal og Þóra Sverrisdóttir.