Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 18:18:32 (6162)

1997-05-12 18:18:32# 121. lþ. 122.23 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[18:18]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 993 í svokölluðum starfsmannabandormi.

Auk mín standa að álitinu hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Baldvin Hannibalsson.

Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Frumvarp það sem hér um ræðir er fylgifrumvarp þeirrar miklu lagasetningar sem ríkisstjórnin knúði fram fyrir ári síðan í óþökk stjórnarandstöðu og stéttarfélaga á opinberum markaði. Þá voru gerðar miklar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Stjórnarandstaðan taldi mjög ranglega staðið að þeim breytingum, bæði samráðsleysi og einnig efnislega þær breytingar sem ríkisstjórnin knúði í gegn á þeim vettvangi. Það var ekki einungis gagnvart opinberum starfsmönnum sem ríkisstjórnin sýndi vald sitt og hugarfar heldur einnig gagnvart launþegum á almennum markaði. Afstaða okkar stjórnarandstæðinga gagnvart þessari aðferðafræði og hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar kom þá skýrt fram og er í sjálfu sér óþarfi, herra forseti, að fara mörgum orðum um þann þátt málsins.

Hvað viðkemur hins vegar þessu frv. sem er tæknileg útfærsla á ýmsum atriðum sem leiðir af fyrri lagasetningu, má benda á að rauði þráðurinn í löggjöfinni frá því í fyrra var einmitt að festa í lög miðstýringu fjmrn. við alla starfsmannastefnu og launaákvarðanir. Sett voru inn í þennan farveg mjög óskilgreind launauppbótakerfi sem ekki átti að semja um, geðþóttagreiðslur yfirmanna og öryggi óbreyttra starfsmanna var skert. Það var eiginlega það versta í öllu þessu að þarna var ekki tekið mið af nútímalegum stjórnarháttum og skipulagi í stjórnar- og starfsmannamálum eins og þekkist víða erlendis.

Stjórnarandstaðan telur ekki rétt að þetta frv. nái fram að ganga í þessu formi. Við erum andsnúin efni þessa frv. nákvæmlega eins og við vorum andsnúin efni frv. sem þetta byggir á. Við teljum rétt að þessu máli sé vísað til ríkisstjórnarinnar og öll sú starfsmannastefna og lögfesting sem var gerð hér fyrir ári síðan í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði tekin upp og breytt í það horf er við töluðum um þá.

Það eru samt nokkur atriði sem ég vildi geta um sem við gagnrýnum. Við gagnrýnum t.d. við afgreiðslu þessa frv. að ráðherrar hafa mikið vald til að ráða og skipa næstæðstu yfirmenn stofnana. Vitaskuld er eðlilegt að þeir skipi æðstu yfirmenn stofnana en almenna reglan ætti vitanlega að vera sú að sá yfirmaður réði alla undirmenn. Það er ekki gert og er hægt að benda á fjölmörg dæmi um þetta. Það var samstaða í efh.- og viðskn. um að reyna að taka út þessa ráðherraskipun við æðstu yfirmenn stofnana, aðra en forstöðumenn stofnana. Það náðist samkomulag um það en síðan sneru ráðherrar ríkisstjórnarinnar ofan af því öllu og handjárnuðu stjórnarliðana hvað þetta varðaði. Þetta er sérstaklega ámælisvert ef maður tekur t.d. stofnanir eins og Ríkisútvarpið. Þar skipar ráðherra ekki einungis útvarpsstjóra heldur einnig framkvæmdastjóra. Þetta er mjög áberandi og er að valda vandræðum í Tryggingastofnun ríkisins, þar sem fjölmargir aðilar sækja vald sitt til ráðherra en ekki til forstjóra Tryggingastofnunar. Það er hægt að benda á að þetta er svona innan Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins þar sem skipaðir eru aðstoðarforstjórar af ráðherra. Þetta er innan Flugmálastofnunar þar sem samgrh. tilnefnir flugmálastjóra og jafnframt framkvæmdastjóra. Með afgreiðslu þessa frv. er ekki dregin upp skýr mynd af stjórnskipulagi í einstökum stofnunum. Þetta er miður. Þannig kom hins vegar málið frá meiri hluta nefndarinnar og við munum vekja sérstaka athygli á einstökum þáttum þess máls í atkvæðagreiðslunni þegar að henni kemur.

Annað atriði sem ég vil sérstaklega draga fram, sem er reyndar matsatriði, er að í brtt. hjá meiri hlutanum er víðast hvar tekið út hið formlega samráð stjórnar við forstöðumann stofnana við ráðningar undirmanna. Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að það sé óþarfi að kveða á um formlegt samráð í þeim efnum því stjórnarfundir fjalla jú eðli málsins samkvæmt um þessa þætti ef menn kjósa svo. Þannig að það er ef til vill ekki verið að þrengja mjög að stjórnum stofnana. Þó er það mjög misjafnt eftir því hvaða stofnanir er um að ræða þannig að það eru efasemdir af hálfu aðila innan stjórnarandstöðunnar um þessa útfærslu sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir. Það má benda á ýmsar umsagnir sem komu fram við þetta mál. Undantekningarlaust koma mjög alvarlegar athugasemdir frá stéttarfélögum opinberra starfsmanna við ýmis atriði þessa frv. Það gengur eins og rauður þráður í gegnum þetta frv. að ekki er samráð við starfsmenn en það er í sjálfu sér bara fylgifiskur þeirrar starfsmannastefnu sem var mótuð hér fyrir ári síðan. Hins vegar kemur fram í mörgum umsögnum að fjölmörg stéttarfélög óska eftir að fá að vinna betur með ríkisstjórninni að þessari lagasetningu og það styður enn frekar þá tillögu okkar stjórnarandstæðinga að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og unnið betur.

Það er augljóst og það er eiginlega meginniðurstaða við þetta frv. þegar við skoðum það ári eftir hina miklu löggjöf um vinnumarkaðinn sem ríkisstjórnin knúði í gegn að samráðsleysi við starfsmenn, hvort sem það er á opinberum markaði eða almennum markaði, er vond stefna. Það er stefna sem er ekki árangursrík í okkar þjóðlífi. Þess vegna, herra forseti, teljum við í minni hluta efh.- og viðskn. að þessu máli væri best borgið með því að styðja tillögu okkar um að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar, það unnið betur og í samráði við stjórnarandstöðu og þau stéttarfélög sem hér eiga hlut að máli.