Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:10:25 (6184)

1997-05-12 23:10:25# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., Frsm. KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:10]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það sem fram hefur komið í máli hv. ræðumanna að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig þessari tillögu verður fylgt eftir. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í kvöld, þá veltur það fyrst og fremst á framkvæmdinni hvort hún verður að veruleika eða einhverjir hlutar hennar. En alla vega er það víst, hæstv. forseti, að með samþykkt þessarar tillögu er komin ákveðin fótfesta og það verður erfitt á næsta þingi að vísa frá tillögum um fæðingarorlof þannig að ég held að eftir að þessi tillaga verður samþykkt, séum við í nokkuð annarri stöðu og þá verður ríkisstjórnin auðvitað að sýna í raun að hún vilji fylgja eftir þessari fjölskyldustefnu.

En til að hugga hina harmi þrungnu þingmenn sem eru svo áhyggjufullir yfir framkvæmd þessarar tillögu, þá vil ég bara minna á að hæstv. félmrh. spáði því fyrir nokkrum dögum að núverandi stjórnarandstaða mundi ná meiri hluta í næstu kosningum og kjörtímabilið er nú meira en hálfnað þannig að ekki er langt að bíða.