Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 10:55:43 (6236)

1997-05-13 10:55:43# 121. lþ. 123.3 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# frv., RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[10:55]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við jafnaðarmenn styðjum ekki stofnun þessa sjóðs og munum sitja hjá við afgreiðsluna. Við teljum að það hefði átt að skipa málum einyrkja og sjálfstætt starfandi einstaklinga innan Atvinnuleysistryggingasjóðs með þeirri samábyrgð sem felst í aðild að honum. Fjárhagsgrunnur þessa sérsjóðs er veikur, deildum hans hverri um sig er ætlað að vera sjálfbærar sem þýðir hækkun iðgjalds einstakra hópa og/eða lækkun atvinnuleysisbóta til þeirra meðan allar stéttir njóta innbyrðis sambærilegra réttinda í Atvinnuleysistryggingasjóðnum. Félmrh. og forsrh. hafa gefið yfirlýsingar þó veikar séu.

Virðulegi forseti. Forsrh. gat þess að ekki væri útilokað að ríkissjóður kæmi til skjalanna ef Alþingi samþykkti að koma í veg fyrir að Tryggingasjóðurinn komist í þrot og að þetta með öðrum orðum þýddi að til geti komið aukin framlög ríkissjóðs eða aukin iðgjöld. Yfirlýsingar ráðherranna eru ekki afdráttarlausar en við munum kalla eftir efndum ef til þess kemur að mismunun sjóðfélaga blasir við.