Stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:53:35 (6293)

1997-05-13 12:53:35# 121. lþ. 123.27 fundur 481. mál: #A stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins# þál., Frsm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:53]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Á þskj. 1218 er nál. utanrmn. um þáltill. um endurnýjun á stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins. Hér er um að ræða málefni sem að hluta til varðar innri skipulagsmál hér í Alþingi á vettvangi alþjóðlegra samskipta. Um er að ræða samskiptin við Færeyjar og Grænland í þingmannasamstarfinu.

Þetta samstarf á sér nú þegar traustar rætur í starfi Alþingis og þinganna í Færeyjum og Grænlandi og hefur verið starfandi í meira en áratug. Í þessari tillögu um endurnýjun á stofnskrá er gert ráð fyrir þó nokkrum skipulagsbreytingum í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af þessu samstarfi og má segja að veigamesta breytingin sé sú að framvegis verði kosið hlutfallskosningu í þetta samstarf á þingunum og þar með með pólitískari hætti heldur en verið hefur til þessa. Ég tel að þetta sé eðlileg breyting og nefndarmenn eru sammála um að leggja til að tillagan verði samþykkt eins og hún kemur fyrir.

Í framhaldi af samþykkt þessarar tillögu má gera ráð fyrir því að leitað verði til Alþingis um að hýsa skrifstofu Vestnorræna þingmannaráðsins, sem framvegis verður reyndar kallað Vestnorræna ráðið, og vænti ég þess að um það geti tekist samningar enda er Ísland forusturíki í samstarfi þessara þriggja þjóða og eðlilegt að skrifstofunni verði fundinn staður hér, og reyndar fagnaðarefni fyrir Alþingi að fá að hýsa þessa starfsemi þó af því hljótist óhjákvæmilega einhver rekstrarkostnaður umfram þann helming af kostnaði við starfsemi ráðsins sem samkvæmt stofnskránni er ráðgert að Alþingi greiði. Ég tel að Alþingi sé fengur í þessum samningi og nefndin leggur einróma til að þessi endurnýjaða stofnskrá verði staðfest.