Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:40:52 (6297)

1997-05-13 13:40:52# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðalatriði þessa máls er það að flugstöðin skuldar í dag 4.300 millj. og frá því að öll lán voru tekin í árslok 1990 hafa skuldirnar aukist um 430 millj. Vilja menn takast á við þennan vanda eða ekki? Ég heyri það á hv. þm. að hann telur enga ástæðu til þess. Hann segir að vísu: Það á að taka úr ríkissjóði sem ríkissjóður hefur hrifsað, en gæti ekki verið að það kæmu upp einhver önnur vandamál þar?

Ræða hans hér var mikill lofsöngur um ríkisrekstur og greinilegt að hann telur að ef einhver einstaklingsrekstur kemur inn í þessa stöð, þá sé landið í miklum voða.

Því er haldið fram að segja eigi upp 50--60 manns. Hvaða bull er þetta? Hugmyndir nefndarinnar ganga út á það að 5--7% af vöruúrvali Fríhafnarinnar verði flutt til annarra. Þingmaðurinn hristir höfuðið. Hann hefur greinilega ekki kynnt sér málið. (GÁS: Jú.) Greinilega ekki kynnt sér málið. Síðan er gert ráð fyrir því að Fríhöfnin fái meira svæði til þess að geta aukið sitt athafnapláss. Síðan er gert ráð fyrir því að leigja út nýtt svæði upp á tæpa 350 fermetra og bjóða það út og bjóða jafnframt út það svæði sem Íslenskur markaður hefur í dag sem er álíka mikið. Þetta mun skila, varlega áætlað, viðbótartekjum upp á 110 millj. Það er stefna nefndarinnar og það er stefna utanrrn. að reyna að ná þarna inn sem mestum viðbótartekjum.

Því er haldið fram að málefni Fríhafnarinnar séu sett í uppnám. Það er langt í frá því það er ákveðið að Fríhöfnin starfi áfram í óbreyttu formi. Það stendur ekki til að bjóða það rými út. Það hefur verið nefnt, eins og gengur í þessu starfi, hvort ekki sé rétt að bjóða það út líka. Það er tekin ákvörðun um að gera það ekki og þar með er verið að tryggja starfsemi Fríhafnarinnar til lengri tíma. Allt það sem hv. þm. segir er því miður byggt á misskilningi.

Hann heldur því fram að íslenskur iðnaður muni tapa fjölda starfa vegna þessa. Það er gert ráð fyrir því að svæðið sem Íslenskur markaður hefur nú til umráða fái meira frelsi, þ.e. geti tekið inn erlenda vöru, en þeim ber að selja a.m.k. 50% íslenskar vörur. Jafnframt er gert ráð fyrir því að Fríhöfnin geti þá tekið inn meira af íslenskum vörum. Það er ekki mikið af íslensku sælgæti sem er selt í Fríhöfninni í dag og ástæða til þess að auka það úrval að mínu mati. Hér er verið að reyna að þyrla upp moldviðri og skapa óvissu meðal þessa fólks, í hvaða tilgangi geri ég mér ekki grein fyrir. Nema hv. þm. sé svo hrifinn af ríkisrekstri að það megi aldrei líða það að einhver einstaklingur komi neins staðar að. Af hverju í ósköpunum kemur hann þá ekki bara með óbrenglaða þjóðnýtingarstefnu Alþfl. eins og hún var fyrir um það bil 60 árum? (GÁS: Ég held að fólk hafi misskilið ráðherrann.) Ég hélt að þingmaðurinn hefði verið að fylgjast með kosningum í Bretlandi fyrir stuttu síðan og teldi sig hafa lært mikið af því.

Auðvitað viljum við að fólk hafi vinnu og það er það sem verið er að gera með þessum breytingum. Það er verið að auka umsvifin og hvað þýðir það á mæltu máli? Það þýðir fleiri störf. Ef hv. þm. heldur að það muni tryggja störf til langframa að reka þessa starfsemi með bullandi tapi og skuldasöfnun þá er það mikill misskilningur. Og koma hér með einhverjar töfralausnir um að ríkissjóður geti bara borgað. Ég býst við því að þegar hv. þm. ræðir hér um heilbrigðismál og velferðarmál, þá vilji hann snúa því við, þá vanti peninga til þeirra málaflokka. Ef þeir peningar verða teknir frá ríkissjóði verður einfaldlega minna til skiptanna til annarra hluta. Þetta hélt ég að hv. þm. hefði lært. Ég harma það að menn skuli vera að reyna að spilla fyrir þessu máli með ómálefnalegum hætti, en því miður hefur hv. þm. gripið til þess og ég harma það.