Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 22:49:37 (6378)

1997-05-13 22:49:37# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., Frsm. StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[22:49]

Frsm. sérn. (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú oft nauðsynlegt að fá syndakvittanir, þær þekkjast að sjálfsögðu. En hv. 5. þm. Vestf. nefndi eitt atriði sem ég er í grundvallaratriðum ósammála honum um. Það er að fara þá leið að fjmrh. fái samþykki fjárln. fyrir fram. Hvað erum við þar að segja? Þá erum við að fela fjárln. fjárlagavald. Þetta er grundvallaratriði sem við getum ekki fallist á heldur fara þá leið sem Ólafur Jóhannesson nefnir í stjórnskipunarfræðum sínum og ég vil vitna til, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Fjárlög eru samin áður --- og stundum löngu áður --- en fjárhagstímabilið hefst. Er því ómögulegt að áætla fjárhæðir þeirra svo nákvæmlega, að engu skeiki. Óhjákvæmilegt getur því verið að fara fram úr fjárveitingum fjárlaga. Auk þess getur brýn nauðsyn orðið á útgjöldum, sem ekki hafa verið séð fyrir, er fjárlög voru samin og því eigi ráðgerð þar. Til að bæta úr þessu heimilar 42. gr. stjskr. svokölluð fjáraukalög, sem að réttu lagi hefðu átt að heita aukafjárlög.``

Síðar segir:

,,Hefur þannig myndast sú venja, að heimild eftir á fyrir fjárveitingum væri nægileg, og oftlega eru þá af hendi inntar fjárgreiðslur umfram það, sem leyft er í fjárlögum, stundum í samráði við fjárveitinganefnd, en einnig oft án samráðs í því trausti, að Alþingi samþykki fjárveitinguna eftir á í fjáraukalögum.``

Þetta er hin venjuhelgaða aðferð sem sérnefndin telur að eðlilegt sé að fara, með þeim fyrirvörum að hæstv. fjmrh. hverju sinni geri fjárln. grein fyrir þessum nauðsynlegu útgjöldum þannig að fjárln. fái tækifæri til að skoða rækilega hvaða forsendur eru fyrir þessum útgjaldaþörfum svo hægt sé að leggja mat á það síðan þegar fjáraukalög koma til afgreiðslu.