Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 22:52:19 (6379)

1997-05-13 22:52:19# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[22:52]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Grundvallaratriðið er það, sagði hv. þm., að fela þingnefnd fjárveitingavaldið. Því er ég ósammála. Ég get verið sammála því að við eigum ekki að gera það. Við eigum að láta þingið hafa fjárlagavaldið. Þess vegna eigum við að bera málin upp hér. Það er mín skoðun. Við eigum að fara að stjórnarskránni. En það eru ekki allir á þeirri skoðun þannig að menn hafa farið fram hjá því. Ég er að reyna að mæta þeim sjónarmiðum.

Ég spyr hv. þm.: Hvernig má það vera að honum þyki óásættanlegt að löggjafarvaldið feli hluta af sjálfu sér valdið til að samþykkja útgjöld þegar hann samþykkir og telur það ásættanlegt að framkvæmdarvaldið taki sér þetta vald og spyrji ekki löggjafarvaldið að því fyrr en eftir á og treysti á að menn samþykki það þá? Hvernig má það vera fyrst hann telur það ásættanlegt að framkvæmdarvaldið taki sér fjárveitingavaldið, að hann er ósammála því að löggjafarvaldið feli hluta af sjálfu sér að afgreiða beiðnir sem þarf að afgreiða skjótt? Ég er nefnilega alveg sammála honum af því að það er grundvallaratriði í málinu og grundvallaratriðið er það að löggjafarvaldið á að fara með fjárveitingavaldið, punktur.