Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:42:08 (6448)

1997-05-14 11:42:08# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:42]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin þegar hv. þm. Egill Jónsson ræðir um ólög þegar hann lýsir stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta hlýtur að verða hæstv. landbrh. sem hér er í salnum og reyndar hv. formanni landbn. mjög mikið íhugunarefni og stjórnarliðum, að hér skuli falla svo hörð ummæli af hálfu stjórnarþingmanns um þetta mál.

Best hefði verið að fylgja tillögu sem kom fram í landbn. og við Egill Jónsson vorum báðir sammála um, þ.e. að þetta mál væri þess eðlis að það ætti nú að leggja til hliðar bæði lánasjóðsmálið og búnaðargjaldið og reyna að vinna í sumar að einhverri betri útfærslu þessa máls. Það var ekki vilji fyrir því innan nefndarinnar og því er málið komið fram hér eins og raun ber vitni. Lagasetning verður knúin fram í andstöðu, ekki bara við stjórnarandstöðuna --- það er nú kannski hefðbundið --- heldur í andstöðu við þann þingmann sem hefur mest talað um landbúnaðarmál að öðrum þingmönnum ólöstuðum undanfarin ár. Þetta eru mikil tíðindi. Þetta eru alvarleg tíðindi og þetta sýnir e.t.v. betur en margt annað að núverandi landbúnaðarstefna er komin á endamörk, þegar menn sem gjörþekkja þetta kerfi og hafa oft á tíðum varið það, eins og hv. þm. Egill Jónsson, eru búnir að fá nóg af þessu. Hann telur útfærsluna vera slíka í þetta sinn, eins og mun koma mjög skýrt fram í umræðu hér á eftir um búnaðargjaldið þar sem mjög margt ámælisvert er á ferðinni, að hann er búinn að gefast upp á því að reyna að koma viti fyrir sína eigin ríkisstjórn. Þetta er einn mesti áfellisdómur sem ég hef heyrt um núverandi ríkisstjórn frá því að hún tók við, a.m.k. hvað þennan málaflokk varðar.