Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:18:22 (6459)

1997-05-14 12:18:22# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:18]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Endursögn hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar á ræðu minni var ágæt og ég er ánægður með að hann ætlar ekki að þrátta við mig um það hvort ég skrifa undir með fyrirvara eða ekki. En hins vegar er staðreyndin sú að þetta frv. er til bóta frá því sem nú er. Ef hann hefði einhvern tímann rætt við þá bændur sem ekki búa á lögbýli um það hvers vegna þeir gátu ekki fengið lán úr Stofnlánadeildinni eins og samkeppnisaðilar þeirra, þá mundi hann sennilega skilja betur afstöðu mína til málsins. En ég tel að það sé gríðarlega mikil réttarbót sem felst í því að allir þeir aðilar sem greiða til stofnunarinnar eigi möguleika á lánum frá stofnuninni. Það eitt hefði réttlætt að styðja málið án fyrirvara.