Lögræðislög

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 14:32:03 (6486)

1997-05-14 14:32:03# 121. lþ. 124.2 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., samgrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[14:32]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í athugasemdum með þessu frv. er tekið sérstaklega fram að ef sjálfræðisaldur verði færður upp þá sé talið eðlilegt að taka einnig til athugunar að 6. gr. skattalaga um tekju- og eignarskatt verði breytt á þann veg að börn verði sjálfstæðir skattaðilar við 18 ára aldur í stað 16 ára eins og nú er. Þetta felur í sér mikla skattahækkun á þá unglinga úti um land sem fara á sjóinn 16 og 17 ára ef slíkt yrði samþykkt. (Gripið fram í: Það er búið að banna það.) Er hv. þm. búinn að banna það? Herra forseti. Ég heyri að það er ráðríkur kvenmaður hér í þingsalnum en það er kannski þá hægt að sinna ýmsum öðrum störfum. Ég hefði kosið að þetta mál væri athugað nánar milli 2. og 3. umr. þar sem þessi brtt. var ekki dregin til baka til þess að mér ynnist tími til að kanna viðhorf nefndarinnar til þessa atriðis og segi ég nei.