Tolla- og fíkniefnaleit í Reykjavík

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:42:07 (6507)

1997-05-14 15:42:07# 121. lþ. 125.5 fundur 596. mál: #A tolla- og fíkniefnaleit í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:42]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin sem mér fannst út af fyrir sig ágæt miðað við aðstæður. Ég skil það svo að verið sé að vinna að málinu í fjmrn. og ég hvet til þess að kallaðir verði til þessa verks þeir aðilar sem að því eiga að koma. Það eru fyrir utan fjmrn. sjálft tollverðirnir og samtök þeirra, sem ég tel eðlilegt að verði haft samráð við, það er dómsmrn. sem er aðili að þessu máli og það er samgrn. Ég skora á hæstv. ráðherra að reyna að ná utan um málið svo að hægt verði að fara heildstætt yfir það í haust.

Mér er kunnugt um að fjöldamargir aðilar sem hafa verið að horfa á Reykjavík sérstaklega hafa áhyggjur af því að Reykjavík sé hættulega opin fyrir fíkniefnainnflutningi, bæði vegna ferjuflugsins á nóttunni og reyndar líka vegna skipanna því að þau eru eftirlitslaus eftir að tollafgreiðslu er lokið á nóttunni. Hér er um algerlega óforsvaranlegt ástand að ræða og það má segja að það sé hálfgerð gervimennska að vera með stranga leit í Keflavík og á ýmsum öðrum stöðum meðan Reykjavík sjálf er galopin að því er varðar hugsanlegan innflutning á fíkniefnum. Ég skora sem sagt á hæstv. ráðherra að fylgja eftir því verki sem hann hefur sett af stað og mun fyrir mitt leyti gera það sem ég get til að halda málinu vakandi ef þörf krefur á dagskrá haustþingsins.