Tjón á bílum

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:45:48 (6528)

1997-05-14 16:45:48# 121. lþ. 125.9 fundur 609. mál: #A tjón á bílum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:45]

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt hér fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. sem hljóðar svo:

1. Hvers vegna er reglum um skráningarferli skemmdra bifreiða ekki framfylgt nema um innfluttar tjónabifreiðar?

2. Hvers vegna eru skoðanavottorð bifreiða, sem skemmst hafa erlendis, viðgerðra af fagmönnum hér og skoðaðra af löggiltum aðilum, stimpluð ,,tjónabifreið`` sem fylgir bifreiðinni upp frá því, en slíks er ekki krafist af sams konar tjónabifreið sem skemmist hér á landi og er seld af tryggingafélagi eða eiganda?

3. Hvaða reglum er framfylgt varðandi tjónabíla, mismunandi mikið skemmda, sem eigandi eða sá sem eignast lætur sjálfur gera við? Eru þeir burðarvirkis- og hjólstöðumældir af skoðunarstöð, og þá að beiðni hvers?

4. Hve margar bifreiðar lenda í umferðaróhöppum árlega og hve stór hluti tjóna á bílum er bótaskyldur?

5. Hver annast skráningu og mat tjóna á bílum á tjónastað?

6. Hvaða eftirlit er af hálfu umferðaryfirvalda með viðgerð bifreiða sem hafa orðið fyrir bótalausu tjóni?

Ég vil segja, hæstv. forseti: Þessi fyrirspurn er spurning um neytendavernd, um öryggismál í umferðinni, um jafnræðisreglu í landinu og snýr að því hvort menn vilja koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi. Ég vil líka segja að sem betur fer hefur tæknin mikið breyst með skoðunarstöðvunum og þar er hægt að gera nú miklu nánari skoðun á bifreiðum en áður sem lent hafa í tjónum eins og ég hef nefnt með burðarvirkis- og hjólstöðumælingar sem ég held að hljóti að vera mikilvægar á öllum tjónabifreiðum.