Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:11:20 (6688)

1997-05-16 10:11:20# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:11]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Mér hefur ekki borist nein sérstök fyrirspurn fyrir þessa umræðu af hálfu hv. málshefjanda og hlýt þess vegna í máli mínu að ganga út frá yfirskrift umræðunnar, réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar.

Starfsleyfi til atvinnurekstrar eru annars vegar gefin út samkvæmt heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, með síðari breytingum, og hins vegar samkvæmt mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum. Báðar hafa þessar reglugerðir stoð í lögum nr. 81/1988 og í tengslum við fullyrðingar hv. málshefjanda um að svo sé ekki verð ég nú að vitna til álits frá lagadeild háskólans sem dagsett er 23. apríl 1997 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Með vísun til alls þess, sem að framan segir, er það álit mitt að 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, eins og henni var breytt með 2. gr. reglugerðar nr. 26/1997, samrýmist lögum nr. 81/1988.``

Þetta er undirskrifað af Eiríki Tómassyni prófessor.

Þegar um er að ræða starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun gefur umhvrh. út starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem fjárfesting framkvæmda er meiri en 800 millj. miðað við byggingarvísitölu í febrúar 1992, sbr. 72. gr. og viðauka VII við mengunarvarnareglugerð. Hollustuvernd sér hins vegar um starfsleyfisvinnsluna og gerir tillögur að starfsleyfi fyrir ráðherra. Ef um er að ræða minni framkvæmd samkvæmt viðaukanum, vinnur Hollustuvernd ríkisins og gefur út starfsleyfið. Þegar um er að ræða framkvæmdir sem taldar eru upp í viðauka VIII, t.d. í matvælavinnslu og búfjár- og dýrahaldi ýmiss konar, svo sem minka-, refa, hænsna- og kjúklingabú svo að eitthvað sé upp talið, og starfsemi sem snertir vélknúin farartæki, þá er vinnsla og útgáfa starfsleyfis í höndum viðkomandi heilbrigðisnefndar. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um útgáfu starfsleyfa samkvæmt heilbrigðisreglugerð enda heyrist mér áhugi hv. málshefjanda einkum eða eingöngu snúast um starfsleyfi sem gefin eru út samkvæmt mengunarvarnareglugerðinni.

Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar skulu starfsleyfistillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofum viðkomandi sveitarstjórnar og er frestur til að gera athugasemdir frá fjórum vikum og allt að 12 eftir því um hvers konar tillögur er að ræða. Rétt til athugasemda hafa þeir sem sótt hafa um starfsleyfi, forsvarsmenn og starfsmenn tengdrar og nálægrar starfsemi, íbúar þess svæðis sem ætla má að geti orðið fyrir óþægindum vegna mengunarinnar og opinberir aðilar, félög eða aðrir þeir sem málið varðar.

Þegar um er að ræða atvinnurekstur þar sem vinnsla starfsleyfis er í höndum heilbrigðisnefndar skal senda hlutaðeigandi nefnd athugasemdirnar sem kannar þær og gefur álit sitt. Því máli má vísa til stjórnar Hollustuverndar og síðan áfram til sérstakrar úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sætti menn sig ekki við niðurstöðu stjórnarinnar.

Þegar um er að ræða atvinnurekstur þar sem vinnsla starfsleyfis er í höndum Hollustuverndar ríkisins skal senda stofnuninni skriflegar athugasemdir og kannar stjórnin þær og gefur álit sitt. Því áliti má vísa til úrskurðarnefndarinnar. Þannig má vísa ákvörðun eða úrskurði stjórnarinnar um starfsleyfi til nefndarinnar.

Í 26. gr. laga um hollustuhætti segir að ágreiningi um framkvæmd laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim megi vísa til stjórnar Hollustuverndar til úrskurðar og úrskurði hennar síðan til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar. Því er í 65. gr. mengunarvarnareglugerðarinnar kveðið á um að sömuleiðis megi vísa ákvörðun stjórnarinnar um starfsleyfistillögur í þeim tilvikum sem ráðherra gefur út starfsleyfi, til úrskurðar nefndarinnar þótt sumum finnist e.t.v. undarlegt að tillögum til ráðherra sé vísað til hennar, sérstaklega þegar litið er til þess að ráðherra er ekki bundinn við tillögurnar. Þetta vil ég árétta sérstaklega.

[10:15]

Hv. þm. hefur gert að umtalsefni meðferð mála sem tengjast útgáfu starfsleyfis við Norðurál á Grundartanga. Trúlega er það mál kveikjan að umræðunni sem ekki er óeðlilegt. Þar háttaði svo til að 54 aðilar gerðu formlegar athugasemdir við tillögur Hollustuverndar. Stjórnin tók tillit til fjölmargra, lét í ljós álit sitt á öllum athugasemdunum og svaraði þeim sem þær gerðu og sendi síðan, eftir að hafa tekið ákvörðun um endanlegar starfsleyfistillögur ráðherra málið. Þremur vikum eftir að stjórn Hollustuverndar hafði tekið endanlega ákvörðun eða kveðið upp úrskurð í málinu í skilningi laga gaf ég út starfsleyfi til Norðuráls hf. Með því fylgdi fyrirvari af minni hálfu um að ef ákvörðun stjórnarinnar yrði vísað til úrskurðarnefndarinnar gæti ráðuneytið þurft að taka tillit til niðurstöðu nefndarinnar í samræmi við íslensk lög og stjórnsýsluhætti. Þetta hefur þegar komið fram í umræðum á hv. þingi.

Nú hefur úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að málið hafi ekki verið réttilega afgreitt af stjórn Hollustuverndar ríkisins. Sú niðurstaða olli mér vissulega vonbrigðum. Hún er þvert á niðurstöður þeirra lögspekinga innan og utan ráðuneytisins sem ég hef leitað til og vitna þá aftur til þessarar niðurstöðu sem ég las hér áðan úr áliti frá lagadeild Háskóla Íslands og er mér því illskiljanleg þessi niðurstaða sem hér liggur fyrir af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Helst er þó að skilja að menn eigi að geta kært starfsleyfistillögur Hollustuverndar ríkisins til stjórnar stofnunarinnar. Þessu er ég og þeir lögfróðu menn sem ég leitaði til ósammála enda er stjórnin og stofnunin eitt og sama stjórnvaldið.

Þá er enn fremur fundið að því að stjórnin hafi ekki kveðið upp úrskurð í skilningi 26. gr. laganna. Þessu er ég líka ósammála, enda alveg ljóst að um var að ræða endanlega afgreiðslu stjórnarinnar á þeim athugasemdum sem bárust. Úrskurðarnefndin staðfestir hins vegar það sem ég hef margoft sagt, að starfsleyfi ráðherra verður ekki borið undir úrskurðarnefnd, þ.e. starfsleyfi sem ráðherra gefur út. Því hélt hv. málshefjandi hér hins vegar ítrekað fram í umræðu utan dagskrár skömmu eftir páska þegar við ræddum um stöðu mála þá og taldi að ráðherrann yrði að sæta niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar. Því hefur nú verið rækilega hnekkt af úrskurðarnefndinni sjálfri.

Hvað sem því líður hljóta nú að vakna spurningar um hvað gerist í kjölfar þessa úrskurðar eins og hv. málshefjandi hefur velt fyrir sér. Ég hef þegar átt fund með stjórn Hollustuverndar ríkisins um þau mál þar sem ræddar hafa verið hugsanlegar leiðir til lausnar. Ég mun eiga annan fund með stjórninni á næstu dögum og vonast til að þá liggi fyrir niðurstaða í málinu, hvernig við getum haldið því fram, en það er nú til skoðunar í ráðuneytinu og með ráðgjöfum.

Megingalli þeirra laga sem nú eru í gildi er hversu óglögg og óskýr ýmis ákvæði um útgáfu starfsleyfa og kærumeðferð vegna þeirra eru og er það auðvitað hluti af því að við höfum lent í ákveðnum erfiðleikum með málsmeðferð. Ég mun á haustþingi leggja fram frv. til nýrra laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Það frv. er nú reyndar þegar langt komið, það hefur nefnd verið að vinna í því í vetur. Í ljósi fenginnar reynslu mun ég því leggja áherslu á að þar verði skýrt kveðið á um þessi efni og heiti á hv. þm. og þingheim allan að veita mér fulltingi við skjóta afgreiðslu þess máls hér á þingi.

Eins og hv. þm. veit og ég vona aðrir hv. þm., þá hefur það komið fram í máli mínu bæði hér og annars staðar að ég hef áhuga á því og er talsmaður þess að almenningur fái að koma að sjónarmiðum sínum við útgáfu starfsleyfa og umfjöllun um umhverfismál almennt. Fyrir utan hina formlegu meðferð mála hef ég tekið við fjölmörgum athugasemdum vegna hinna ýmsu kærumála, skriflega og munnlega, á fundum sem ég hef átt með málsaðilum, símleiðis og í viðtölum sem hafa nýst mér við afgreiðslu þess og má merkja það í ákvæðum þessa starfsleyfis sem ég hef þegar gefið út fyrir Norðurál.

Ég mun t.d. beita mér fyrir því og hef vilja til þess, á vettvangi ríkisstjórnarinnar, að stuðningur stjórnvalda við innlend umhverfisverndarsamtök og starfsemi þeirra verði aukinn og komið í fastara horf. Í tilefni af því langar mig að tilkynna þingheimi að ég hef nú á þessum morgni skrifað undir samkomulag við samtökin Sól í Hvalfirði um umhverfisrannsóknir og vöktun umhverfis vegna stóriðju í Hvalfirði. Ég mun innan skamms skipa fimm manna ráðgjafarnefnd sem verður mér og Hollustuvernd ríkisins til ráðgjafar um framkvæmd þeirra mála eins og nánar kemur fram í þessu samkomulagi sem ég hef látið dreifa til þingmanna og sú ráðgjafarnefnd er að sjálfsögðu með aðild þessara samtaka. Með skipan nefndarinnar eru því áhrif Sólar í Hvalfirði á framkvæmd umhverfisrannsókna og vöktun umhverfis vegna stóriðju á Grundartanga tryggð. Hér er um að ræða ákaflega merkilegt samkomulag og mikivægt fyrir mig sem umhvrh. og væntanlega fordæmi þess hvernig hægt er að taka á öðrum málum tengdum þessu og sýnir vilja minn til góðs samstarfs við þessa aðila.