Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:41:59 (6695)

1997-05-16 10:41:59# 121. lþ. 128.1 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:41]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta menntmn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Nefndin hefur fjallað um málið og kallað á sinn fund til viðræðna marga góða gesti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Bandalagi háskólamanna og samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru:

Í fyrsta lagi að endurgreiðsluhlutfall verði lækkað frá því sem nú er, þ.e. úr allt að 7% í 4,75%.

Í öðru lagi er lagt til að teknir verði upp beinir styrkir til námsmanna vegna fjármagnskostnaðar sem þeir verða fyrir vegna lántöku hjá bönkum. Þannig geta námsmenn fengið mánaðarlegar greiðslur gegnum bankakerfið frá upphafi námstíma án þess að bera af þeim fjármagnskostnað. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að við ákvörðun vaxtastyrks verði komið til móts við þá námsmenn sem ekki uppfylla skilyrði til þess að fá fullt lán ef þeim tekst að ná tilskyldum árangri síðar á námsárinu.

Í þriðja lagi er lagt til að skipan stjórnar sjóðsins verði breytt þannig að stjórnarmönnum verði fjölgað úr sex í átta. Iðnnemasamband Íslands fær aðalmann í stað áheyrnarfulltrúa og menntmrh. einn fulltrúa til viðbótar.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins verði veitt sérstök heimild til að geta komið til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla.

Loks er lagt til að tekin verði inn í lögin ákvæði vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Um er að ræða þrjár breytingar.

Í fyrsta lagi er lagt til að fellt verði brott ákvæði um að samþykki sjóðstjórnar þurfi þegar framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Er tillagan í samræmi við þá stefnu sem mótuð var í starfsmannamálum ríkisins með samþykkt laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á 120. löggjafarþingi.

Þá er lagt til að menntamálaráðherra skipi málskotsnefnd þriggja manna sem ætlað er að skera úr um það hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Getur nefndin staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins og eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nefndinni frekari starfsreglur.

Loks er lögð til breyting sem snýr að því að fellt verði brott orðið ,,ríflegan`` í efnismálgrein 6. gr., en nægilegt þykir að stjórnin hafi skyldu til að áætla útsvarsstofn án þess að sérstaklega sé tekið fram að hann skuli vera ríflegur.

Undir nál. rita Sigríður A. Þórðardóttir, Hjálmar Árnason, Tómas Ingi Olrich, Ólafur Örn Haraldsson og Guðmundur Hallvarðsson.

Herra forseti. Höfuðatriði þessa máls er að auknum fjármunum, á þriðja hundrað milljónum króna á ári, er varið í námsaðstoð ásamt því að brugðist er við gagnrýni námsmanna á gildandi lög. Þeir hafa einkum beint spjótum sínum að endurgreiðslum og útborgun námslána.

Endurgreiðslurnar vega þyngst í þessu sambandi. Þær eru færðar niður í 4,75% úr 5--7% eins og er í gildandi lögum. Þetta endurgreiðsluhlutfall nær einnig til þeirra sem tóku lán frá árinu 1992. Þessi breyting er metin á um 140 millj. króna á ári.

Námsmenn geta síðan fengið mánaðarlegar greiðslur frá upphafi náms gegnum bankakerfið og þurfa ekki að bera af þeim fjármagnskostnað heldur fá vaxtastyrki til að standa straum af honum. Gert er ráð fyrir að allir þeir sem sækja um og fá námslán fái vaxtastyrk, hvort sem þeir hafa raunverulega greitt fjármagnskostnað eða ekki, sem er mikilvægt réttlætismál.

Ég geri að sérstöku umtalsefni tillögu meiri hluta menntmn. um að skipuð verði sérstök þriggja manna málskotsnefnd sem ætlað er að skera úr um það hvort úrskurðir stjórnar lánasjóðsins séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Nefndin getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins og eru úrskurðir hennar endanlegir.

Í 2. grein frv. sem hér er til umfjöllunar er lagt til að úrskurðir stjórnar verði endanlegir og ekki kærðir til æðra stjórnvalds. Í greinargerð með frv. segir að ákvæðið sé í samræmi við þá venju sem verið hafi og niðurstöðu menntamálaráðuneytis frá 17. apríl 1996.

Umboðsmaður Alþingis svarar 9. janúar 1997 kvörtun vegna þeirrar niðurstöðu menntamálaráðuneytis að vísa frá kæru á úrskurði stjórnar LÍN og segir m.a.:

,,Ég tel nokkurn vafa leika á því, hvernig stjórnsýslusambandi menntmrh. og stjórnar LÍN sé háttað að því er snertir úrskurði stjórnarinnar á grundvelli 5. tölul. 5. gr. laga nr. 21/1992. Að athuguðu máli tel ég hins vegar ekki ástæðu til annarra athugasemda en þeirra, sem ég hef áður komið á framfæri við Alþingi ,,að nauðsyn sé á, að lög séu skýr um stjórnsýslulega stöðu ríkisstofnana``.``

Á bls. 12 í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1995 segir svo:

,,Vafalítið má rekja nokkurn hluta þeirra mála, sem embætti mínu berast, til þess, að ekki hefur verið hugað að því við setningu laga að haga stjórnsýslukerfinu þannig, að stjórnsýslan sé sjálf fær um að leysa á fljótvirkan og ódýran hátt þau vandamál, sem kunna að rísa.``

Í 2. gr. frv. er í raun komið til móts við ábendingar af þessu tagi þar sem skýrt er kveðið á um að úrskurðir stjórnar séu endanlegir. Einnig má benda á Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem þessi háttur er á.

Við 1. umr. um frv. gagnrýndu margir þingmenn sérstaklega þetta ákvæði og tóku þannig undir málflutning námsmanna sem lengi hafa viljað koma á laggirnar óháðri málskotsnefnd sem hefði endanlegt úrskurðarvald í ágreiningsmálum.

Í umsögn samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna frá 25. apríl 1997 segir, með leyfir forseta:

,,Frv. boðar aukið valdaframsal til stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Henni er falið að setja ítarlegri reglur, framkvæma þær og dæma í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma. Þannig er stjórn falið að vera dómari í eigin málum. Nauðsynlegt er að leiðrétta þetta og einföld og skýr lausn er að setja á laggirnar hlutlausa kærunefnd sem hægt verði að skjóta ágreiningsmálum til. Hlutlaus kærunefnd er svipað fyrirkomulag og tíðkast víðar í stjórnsýslunni.``

Síðar segir:

,,Námsmenn telja það ótvírætt réttlætismál að settur verði á laggirnar hlutlaus kæruaðili sem námsmenn geta skotið málum sínum til. Það fyrirkomulag sem boðað er í þessu frumvarpi samræmist því illa meginreglum stjórnsýsluréttarins og stjórnarskrárinnar.

Nauðsynlegt er að tryggja réttaröryggi viðskiptavina sjóðsins. Hlutlaus kærunefnd er skref í þá átt.``

Námsmenn hafa síðan ítrekað þessar skoðanir sínar í bréfum til menntamálanefndar 7. maí sl. Í bréfi samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna, dagsettu 7. maí 1997, sem undirritað er af Haraldi Guðna Eiðssyni fyrir hennar hönd, segir svo, með leyfi forseta:

,,Samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna telur að setja verði á fót hlutlausa kærunefnd. Samstarfsnefndin telur slíka nefnd mikla réttarbót fyrir námsmenn. Rétt er að taka fram að afstaða samstarfsnefnda námsmannahreyfinganna gengur út frá því að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið hjá LÍN og eru bundin í lögum haldist óbreytt; þ.e. að tryggt verði að stjórn LÍN úrskurði áfram í kærumálum. Þannig er tryggt að hlutlausa kærunefndin verði hrein viðbót við það fyrirkomulag sem nú tíðkast.

Hugmynd samstarfsnefndarinnar felur í sér að það eina sem þurfi að breyta í því frv. sem nú liggur fyrir á Alþingi um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna væri að í stað þess að úrskurðir stjórnar sé endanlegir þá geti viðskiptamenn LÍN skotið úrskurðum stjórnar til hlutlausrar kærunefndar.

Kærunefnd þessi gæti staðfest úrskurði stjórnar LÍN en jafnframt haft vald til að vísa ákvörðunum stjórnar til baka teljist þær ekki byggja á lögum og reglum um sjóðinn eða stangist þær á við fordæmi, hafi málsmeðferð verið áfátt o.s.frv.

Samstarfsnefndin minnir jafnframt á fyrri ábendingar sínar um að æskilegt sé að formaður slíkrar nefndar uppfylli hæfiskilyrði hæstaréttardómara og að hæfiskilyrði nefndarmanna skuli fela í sér kröfu um víðtæka þekkingu á menntamálum. Þá má minna á sambærilegar nefndir; til að mynda er áfrýjunarnefnd samkeppnismála tilnefnd af Hæstarétti.

Óviðunandi er fyrir viðskiptamenn sjóðsins að þurfa að leita til dómstóla eða umboðsmanns Alþingis í hvert sinn sem það rís ágreiningur um túlkun reglna eða framkvæmd þeirra. Þess vegna er hlutlaus kærunefnd nauðsynleg viðbót við það fyrirkomulag sem nú tíðkast.``

Svo mörg voru þau orð.

Meiri hluti menntmn. hefur að vel athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að verða við þessum eindregnu óskum og leggur til að skipuð verði óháð málskotsnefnd eins og fyrr segir.

Sú sem hér talar hefur margoft lýst þeirri skoðun að koma ætti á almennu styrkjakerfi til námsmanna. Það vil ég ítreka við þessa umræðu um lánasjóðinn en endurskoðun laganna að þessu sinni snerist fyrst og fremst um að koma á sátt um starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar og sníða helstu vankanta af gildandi lögum.

Margt hefur verið rætt og ritað um lánasjóðslögin frá 1992. Ég fer ekki nánar út í þá sálma að þessu sinni. Lögin hafa verið harkalega gagnrýnd innan þings og utan. Því er ekki að leyna að í þeirri umræðu allri hefur oft verið reitt hátt til höggs, en lítt af setningi slegið, svo vitnað sé til kvæðis Gríms Thomsens um Goðmund á Glæsivöllum.

Góð menntun er þungamiðja og undirstaða allra framfara. Námsaðstoð er gildur þáttur í því að styrkja menntun í landinu. Hún tryggir jafnrétti til náms og gerir mörgu ungu fólki, sem annars hefði trauðla átt þess kost, kleift að afla sér menntunar.

Með þessari lagasetningu er von til að sátt geti tekist um Lánasjóð íslenskra námsmanna og sjóðurinn standi enn traustari eftir en nokkru sinni fyrr.