Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 15:21:25 (6714)

1997-05-16 15:21:25# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:21]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt höfum við jafnaðarmenn lagt fram á Alþingi tvö frumvörp, annað um virkjanarétt fallvatna og hitt um námuréttindi. Í þeim frumvörpum báðum er gert ráð fyrir að greitt verði sérstakt gjald fyrir virkjanaréttindi þannig að fyrir þinginu liggur tillaga um þau efni frá okkur. Það er fyllsta ástæða til að það sé gert ekki síst þegar frjáls samkeppni verður innleidd í virkjanir á Íslandi sem verður upp úr árinu 1999. Þá er eðlilegt að tekið sé slíkt gjald fyrir virkjanaréttindi þannig að við hér á Alþingi fylgjum tillögu um samræmda auðlindastefnu og erum ekki aðeins að tala um veiðigjald í sjávarútvegi heldur um gjald fyrir afnotarétt á takmörkuðum orkulindum.

Hvers vegna er það ekki gert við þessar aðstæður? Vegna þess að nú eru þau fyrirtæki sem eru í virkjunum með beinum eða óbeinum hætti sameign þjóðarinnar allrar, eins og t.d. Landsvirkjun. Landsvirkjun er fyrirtæki sem er í eigu ríkisins, þ.e. borgaranna í landinu og íbúa tveggja sveitarfélaga þannig að þetta er í raun almenningseign. Arðsemin af framkvæmdum Landsvirkjunar fellur því í hlut íbúa landsins þannig að þeir fá sínar tekjur í því formi eða annaðhvort sem eignamyndun hjá Landsvirkjun eða í formi lækkaðs raforkuverðs eins og stefnt er að á næstu öld. Þetta breytist hins vegar þegar til kemur frjáls samkeppni eða möguleikar á slíku í virkjunum, þá verður að sjálfsögðu að leggja á gjald af því tagi sem við jafnaðarmenn á Alþingi höfum lagt til að tekið verði fyrir virkjanarétt.