Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 15:31:08 (6718)

1997-05-16 15:31:08# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða það mál sem hér liggur fyrir til 2. umr., frv. til laga um álbræðslu á Grundartanga, að lokinni yfirferð hv. iðnn. og mun ég gera að umtalsefni nokkur atriði almenns eðlis sem tengjast málinu, vissa þætti sem snúa að iðnaðarþætti málsins en ekki síst atriði sem varða umhverfisþátt þess sem er mjög stór og umdeildur eins og kunnugt er. Þó að margt hafi verið um það mál sagt er þörf á að fara yfir viss atriði við 2. umr. af minni hálfu. Ég vil biðja hæstv. forseta að gera hæstv. umhvrh. aðvart um það að ég mun víkja að þeim þætti málsins og þar sem hann er á ábyrgð hæstv. umhvrh. óska ég eftir að hann verði viðstaddur ásamt hæstv. iðnrh. við yfirferð þessa máls.

Þetta mál er að sjálfsögðu á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar í heild sinni sem stendur að þeirri stefnu sem er fram borin, að ég best veit óskipt, en alveg sérstaklega er málið á ábyrgð Framsfl. sem fer með þau ráðuneyti sem efnisþættir þessa máls snerta mest, þ.e. ráðuneyti iðnaðarmála og ráðuneyti umhverfismála. Það er því alveg ljóst að Framsfl. ber öðrum flokkum meiri ábyrgð á því sem verið er að gera, sem og öðru sem nú er verið að leitast við að hrinda í framkvæmd á sviði iðnaðarmála og orkumála og það sem ekki er gert á sviði umhverfismála. Eiginlega er réttara að fara í málið þeim megin frá því þar er ástandið með þeim hætti sem þjóðin þekkir, heldur dapurlegt, og ekki síst ýmsir þættir sem varða nýtingu bæði orkulinda og umhverfi landsins í tengslum við iðnað.

Með þessu máli er verið að ganga gegn framtíðarhagsmunum Íslands og skyldum málum eins og á því hefur verið haldið. Því er haldið fram af hv. talsmanni meiri hluta iðnn. að þetta mál sé hið besta mál og leiddar eru fram ýmsar tölur um þjóðhagslegar stærðir sem varði málið. Fyrir utan tilkostnaðinn, þ.e. fjárfestinguna, er reiddur fram þjóðhagslegur ávinningur eins og hann er reiknaður á hefðbundinn hátt, þar á meðal 0,7% aukning vergrar þjóðarframleiðslu, ef ég man rétt, sem hv. formaður iðnn. tíundaði sem efnahagslegan ávinning til lengri tíma litið. Þó er viðurkennt að um áhættu geti verið að ræða varðandi vissa þætti málsins ef illa fer í sambandi við verðlag á áli, en ekki var slegið neinu talnagildi á botninn í því sambandi. Hann virðist ekki hafa verið reiknaður. Kannski vilja menn koma sér hjá því að reiða fram tölur í því sambandi en miðað við einhverja meðaltalsútreikninga er arðurinn af fjárfestingu, sennilega þá í orkuframkvæmdum sem er Íslands megin, reiknaður á 6,8% eða þar um bil.

Allt eru þetta kunnuglegar tölur og kunnuglegar reikniaðferðir sem þarna er um að ræða, byggðar á þeim hefðbundnu efnahagslegu reikniformúlum sem eru tíðkaðar. Ég er út af fyrir sig ekkert að segja að óeðlilegt sé að koma með slíkar viðmiðanir og hef ekkert á móti því að það sé gert. En hitt skortir mjög á að dæmið í heild sé reiknað og það er það sem ég geri mjög sterkar athugasemdir við. --- Ég spyr virðulegan forseta: Er von á hæstv. umhvrh. í þingsal?

(Forseti (RA): Hæstv. umhvrh. hefur verið gert viðvart.)

Ég þakka. Fyrir utan þá áhættu sem snýr að vatnsorkunni og verðlagningu hennar er það sá kostnaður sem varðar spillingu umhverfisins og ætti að sjálfsögðu að reikna til fjár þegar verið er að draga upp mynd af heildarniðurstöðunni, þ.e. að taka inn í það og verðleggja þá spillingu umhverfis, andrúmslofts og umhverfis að öðru leyti sem fylgir svona framkvæmd, sem er auðsæilega kostnaður í þessu máli sem verið er að taka á sig til langs tíma og hann er í rauninni ekki miklum vafa undirorpinn. Hann er þarna. Hagnaðurinn, hinn reiknaði hagnaður, sem hv. formaður iðnn. tíundaði er verulegri óvissu háður. En hitt er engum vafa undirorpið að sú umhverfisspilling, þau spjöll sem fylgja rekstri af þessu tagi verða ekki aftur tekin. Það er ekki þannig, því miður, um hnútana búið í þessu máli að reikna megi með því að bætt verði við hreinsibúnaði í þessa verksmiðju á afskriftartíma hennar. Það er ekkert sem vekur vonir um að þannig verði á málum haldið. Því er það svo að þarna er um verulega stóra frádráttarliði að ræða, sem og þau orkumannvirki sem tengjast þessari framkvæmd. Þar hef ég oft nefnt það sem ég tel hvað tilfinnanlegast í þessu sambandi, sem nú er búið að bjóða út og á að fara að ráðast í, þ.e. Hágöngumiðlun og framkvæmdir við hana.

Hver telur hæstv. umhvrh. að fórnarkostnaðurinn sé við slíka framkvæmd? Hefur verið reynt að meta það af umhvrn. hver fórnarkostnaðurinn er með því að hleypa virkjunaraðila inn í algerlega ósnortið svæði? Að mínu mati er þetta eitt verðmætasta svæði Íslands, sem á að vera hluti af ósnortnu víðerni sem taki til vesturhluta Vatnajökuls og aðliggjandi svæða og gæti haft ómælda þýðingu fyrir okkur Íslendinga um langa framtíð ef við bærum gæfu til að vernda það svæði og varðveita.

Þetta eru nokkur dæmi, virðulegur forseti, um kostnaðarþætti í þessu máli sem að sjálfsögðu ber að meta og reikna til verðs. Það er hægt að gera það á mismunandi hátt. Alþjóðlega er farið að gera það í ýmsum atriðum, þ.e. að reyna að leggja mat á slíkna kostnað og það er fráleitt að leggja fyrir eitthvert hagrænt dæmi þar sem ekki er reynt að taka fórnarkostnaðinn, að því er umhverfið varðar, einnig með inn í dæmið.

Síðan er að nefna þann þátt sem snýr að alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og þá samninga sem verið er að ganga gegn eða brjóta með þeirri samþykkt, sem verið er að leggja til af meiri hluta iðnn. að gangi fram, og þeirri framkvæmd sem um ræðir og er þar stærsta málið samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Það hefur verið rakið skýrt af hv. talsmanni minni hluta iðnn., hv. þm. Svavari Gestssyni, hvað hér er um að ræða í tölum reiknað hvað snertir losun á gróðurhúsalofttegundum og miðað við 180.000 tonna álbræðslu er þetta metið af umhvrn. á 373.000 tonn á ári hverju sem verði losað út í andrúmsloftið. Til hliðsjónar skulu menn hafa það sem ríkisstjórnin færir sér til tekna sérstaklega á þessu sviði. Það er sú binding sem hljótist af sérstöku skógræktarátaki, sem á að kosta 450 millj. kr. á fimm ára tímabili eða svo. En hvað skyldi það binda mikið? Ætli það séu hundruð þúsunda? Ónei, það eru lítil 22.000 tonn. Það er ekki fimmtándi hluti, og sennilega tæplega það, af því sem losað er af þessari álbræðslu fullbúinni með 180.000 tonna ársframleiðslu. Það er aðeins lítið brot sem þar er á ferðinni. Þetta er hægt að verðleggja. Þarna hefur hæstv. ríkisstjórn sjálf lagt fram viðmiðun um verðlagningu á þessu. Og hver verður kostnaðurinn? Hver er kostnaðurinn af því að bæta þarna í losun gróðurhúsalofttegunda með þessari verksmiðju samkvæmt mælistiku sjálfrar ríkisstjórnarinnar og hæstv. umhvrh.? Hann liggur á bilinu 6.000--7.000 millj. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra Framsfl., hæstv. iðnrh. og umhvrh.: Hafa þeir tekið þennan fórnarkostnað með í dæmið? Er þessi kostnaður reiknaður með? Telja þeir ekki réttmætt að reikna slíkan kostnað inn í dæmi sem þetta?

Ég veitti því athygli, virðulegur forseti, að formaður Framsfl. vék í stuttu máli að umhverfismálum í ræðu sinni fyrir tveimur dögum á svonefndum eldhúsdegi. Ég bið hæstv. ráðherra flokksins, undirsáta formannsins, að leggja við hlustir hafi þetta farið fram hjá þeim, en ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna í þessa nefndu ræðu þar sem formaður Framsfl. sagði eftirfarandi:

,,Ég vil einnig nefna umhverfismál sem verður vaxandi málaflokkur á næstu árum og ríkisstjórnin mun sinna þeim málum í vaxandi mæli.`` Mitt innskot er að það er nú góðra gjalda vert, í vaxandi mæli, ætli það sé ekki eins og með efnahagsvöxtinn í Albaníu; þegar nógu langt niðri er byrjað, þá er hægt að sýna einhvern árangur og á ekki að kosta mjög mikið.

,,Við höfum fyrst og fremst litið til hafsins og þeirra vandamála sem þar eru en við þurfum líka að líta til loftmengunar og annarra vandamála í sambandi við umhverfismál. En það má aldrei verða svo`` --- ég bið hv. þingmenn að leggja við hlustir --- ,,að við Íslendingar getum ekki nýtt okkar orkulindir, orkulindir sem ekki menga umhverfið. Það er grundvallaratriði að við fáum að nota þessar orkulindir okkur sjálfum til framdráttar og í reynd heiminum öllum.``

Þetta er málflutningur formanns Framsfl. og tala menn eins og hæstv. ráðherrar flokksins gera í reynd. Þetta endurspeglar það því að þeir hafa lært þessa röksemdafærslu af formanni Framsfl., þ.e. að vatnsorkulindirnar mengi ekki, þær losi ekki koltvísýrling út í andrúmsloftið, en það skipti engu hvað kemur frá iðnaðinum sem tengist þessum orkulindum og verið er að reyna að draga að fjárfestingu. Það skiptir engu máli og veit þó hæstv. umhvrh. mætavel um að það er ekkert á leiðinni að þannig verði gengið frá málum alþjóðlega. Það er ekkert á leiðinni að um einhver hlutaskipti verði að ræða á mengun, enda sér það auðvitað hver maður sem athugar það mál að það gengur engan veginn upp, að ætla að koma upp slíku kerfi þó að menn séu þjálfaðir í kvótaviðskiptum innan lands og margt gangi kaupum og sölum bæði til lands og sjávar, þá eru ekki undirtektir við það á alþjóðavettvangi að taka upp kvótasölu í sambandi við mengunarheimildir, enda mundi slíkt kerfi fyrr og síðar reka í strand.

[15:45]

Það virðist svo sem Framsfl. ætli að bera það á borð fyrir þjóðina: Við skulum bara reyna að draga að orkufrekan iðnað. Megi sá iðnaður menga hvað sem það kostar. Það skal ekki hindra okkur í að nota þessar orkulindir vegna þess að á mæltu máli er nýting orkulindanna hjá þessum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum ekki spurningin um það að eiga til ljóss og hita og almenns iðnaðar. Nei, það er orkufrekur iðnaður sem hæstv. iðnrh. leggur nú ofurkapp á að draga að með undirboði á raforku þar sem ekki er tekinn inn í fórnarkostnaðurinn vegna umhverfisins og aðrir slíkir þættir. Þetta er málflutningur sem nauðsynlegt er að vara við og í raun fordæma hvernig haldið er á máli. Þeir sem þannig mæla geta ekki ætlast til þess að mikið sé gert með málflutning þeirra að því er varðar umhverfisvernd að öðru leyti.

Hæstv. umhvrh. ætlar að undirgangast fyrir Íslands hönd, og er þátttakandi í því lagalega skuldbindandi, alþjóðlegan samning á grundvelli fyrirliggjandi samnings nánar útfærðan um það að við Íslendingar tökum á okkur þær skuldbindingar sem verður væntanlega gengið frá í lok ársins. Ég tel að það sé skynsamleg stefna af hálfu hæstv. ráðherra að halda þannig á máli að Ísland greini sig ekki frá. Það væri algerlega fráleitt með tilliti til heildarhagsmuna okkar að ætla sér slíkt en þá standa menn frammi fyrir því að halda þær skuldbindingar. Þá blasir við spurningin: Hvernig ætla menn að ganga þannig frá málum að við getum uppfyllt þau markmið sem rætt er um og er almennt talað þess eðlis að stig af stigi verði dregið úr losun á gróðurhúsalofttegundum? Samkvæmt því sem hæstv. umhvrh. upplýsti þingið um í svari í lok janúar sl. stefnir í það að minnka losun þessara lofttegunda sem valda loftslagsbreytingum og er þegar farið að gera vart við sig að mati vísindamanna, þar verði um að ræða samdrátt sem nemur 50% og raunar gott betur samkvæmt málflutningi þeirra sem vilja hafa varúðina að leiðarljósi.

Þá gera menn ekki allt í senn. Þá fylgja menn ekki þeirri stefnu sem formaður Framsfl. var að draga upp í fyrradag. Það gengur ekki upp nema meiningin sé að láta stóriðjuna taka við af samgöngum í landinu og fiskveiðunum sem eru þeir atvinnuvegir sem leggja til á móti stóriðjunni lungann af þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem um er að ræða. Er það meiningin? Felst það í þessu? Eða ætla menn bara að láta lönd og leið alþjóðlegar skuldbindingar að þessu leyti og reyna að komast af og treysta á guð og lukkuna í þeim efnum? Þetta er gersamlega ábyrgðarlaus stefna og kannski það atriði sem menn ættu að horfa mest á þegar litið er á stóriðjustefnu núv. ríkisstjórnar og kostnaðurinn samkvæmt mælikvarða landbrh., uppgræðslan sem þyrfti að koma á móti ef menn ætluðu að binda, eru 6.000--7.000 millj. kr., 6--7 milljarðar á mælikvarða skógræktarátaksins bara til þess að jafna metin að þessu leyti varðandi álbræðsluna á Grundartanga.

Síðan er það sá þáttur sem snýr að mengunarvörnum að öðru leyti og satt að segja er hörmulegt til þess að vita að það sé hægt að vitna til þess eins og formaður Alþfl. gerði áðan, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, að ekki væri verið að brjóta lagafyrirmæli í sambandi við mengunarvarnir og þá væntanlega verið að vísa til þess sem snýr að losun brennisteinssambanda. Út af fyrir sig og má það til sanns vegar færa að við erum þannig stödd í þeim efnum að það hafa ekki verið sett fyrirmæli og þá ætla menn að láta gott heita eins og mér heyrðist hjá formanni Alþfl. Þá er ekki ástæða til þess að hafa uppi stór orð um þetta. En þar er staðan sú að verið er að opna fyrir verksmiðju sem losar brennisteinssambönd, brennisteinstvíoxíð tífalt á við það sem allar álbræðslur á Norðurlöndum gera þar sem brennisteinstvíoxíð er hreinsað með vothreinsun í sex verksmiðjum í Noregi og í einni einustu álbræðslunni sem enn er starfrækt í Svíþjóð þar sem vothreinsun er stunduð. Menn ná reyndar mun lengra en þetta sem ég nefndi í Sundsvall í Svíþjóð þar sem losunin 1995 var 0,7 kg á tonn en ég hef nú verið að miða við tölur sem er kannski um 2 kg sem væri auðvitað stórfelldur árangur miðað við það sem hér er verið að heimila, 21 kg á tonn af losun brennisteins. Halda menn að það sé svo tilviljun að hæstv. umhvrh. heldur þannig á máli að halda Íslendingum utan við þá samningsgerð og skuldbindingar sem uppi eru í sambandi við mengun sem berst landa á milli, að gera Ísland ekki að virkum þátttakanda í þeim alþjóðasamningi sem þar er um að ræða? Ó, nei. Auðvitað er það engin tilviljun sem þar ræður ferð. Það er beinlínis verið að draga það til þess að framfylgja stefnu Framsfl. í þessum efnum. Hér er verið að komast hjá því að taka þátt í alþjóðlegu skuldbindandi samstarfi til þess að geta sagt það eins og formaður Alþfl. sagði áðan og fest er inn í nefndarálit meiri hlutans. Út af fyrir sig er sú mengun ekki brot á íslenskum lagafyrirmælum sem hér á að heimila frá þessari bræðslu.

Það var um tíma svo að hæstv. iðnrh. og jafnvel hæstv. umhvrh., í öllu falli sá fyrrnefndi, virðulegur forseti, héldu því fram og gott ef ekki einhverjir talsmenn meiri hlutans úr umhvn. þingsins að þetta væri þannig að ef menn væru að tala um vothreinsun væru menn bara að færa vandann yfir í hafið og það væri ekkert betra en að losa þetta í loftið. Menn muna kannski eftir því að það eru ekki nema örfáir mánuðir liðnir síðan þessi málflutningur var uppi hafður og það var verið að hugga menn upp í Hvalfirði með slíkum rökum en þessi málflutningur hefur nú hljóðnað og það er út af fyrir sig vel. Kannski hafa hæstv. ráðherrar fengið upplýsingar um það hvaða var á ferðinni, hvers konar fjarstæðu var verið að halda hér fram. Þar sem Ísland er orðið þátttakandi í skilgreiningum á bestu fáanlegri tækni þar sem tekið er fram að losun efna sem afleiðing af vothreinsun í áliðnaði skapi ekki vandamál sem ástæða sé til að hafa áhyggjur af og Ísland er þátttakandi í slíkri samþykkt, þá er kannski erfitt fyrir hæstv. ráðherra að halda slíkum málflutningi áfram eins og gert var þegar umræðan var hvað mest um þessi efni.

En það er kannski tilviljun, ég veit það ekki, virðulegur forseti, að með þessu plaggi, sem ég er hér með fyrir framan mig og fékk frá Hollustuverndinni í Noregi í febrúarmánuði um það leyti sem var verið að ljúka meðferð í umhvn., fékk ég um það vitneskju að það hefði verið frágengið sem kallað er lýsing á núverandi tækni og bestu fáanlegri tækni í áliðnaði, Aluminium Electrolysis Industry. Þetta plagg sem ég fékk í hendurnar frá Noregi er próförk fyrir bók sem er verið að gefa út á vegum Parcom og í nafni Parcom, Frakkar að vísu með fyrirvara í þessu sambandi, skera sig frá en samt er ákvörðunin tekin því að þeir höfðu þar ákveðna fyrirvara uppi en Ísland er þátttakandi í þessu. Þar gefur að líta mat á áhrifum af losun efna og vatns frá vothreinsibúnaði í sjó og tekið svo til orða að það sé ekki meiri háttar mál vegna útjafnandi hæfileika eða getu og náttúrulegs bakgrunns af súlfötum í hafinu, lauslega þýtt eitt brot um vothreinsun upp úr þessum kafla. Starfsmaður Hollustuverndar ríkisins staðfesti það við mig í dag að þetta rit væri væntanlegt í útgáfu. En ekki var verið að hafa fyrir því af hálfu hv. umhvrn. eða hæstv. umhvrh. að koma vitneskju um þetta á framfæri við umhvn. en væntanlega hefur hæstv. ráðherra frétt af þessu og hvíslar því að hæstv. iðnrh. því þeir eru hættir að tala um það sem einhverja vá að setja upp vothreinsun vegna mengunaráhrifa í hafi.

Svona ganga nú hlutirnir. Sá talsmaður sem hefur talað hvað skýrast í þessum málum í umræðunni og gerþekkir þessi mál er Högni Hansson í Landskrona í Svíþjóð, sérfræðingur á þessu sviði og trúnaðarmaður þar. Hann hefur vakið athygli á þessum atriðum og mörgum fleiri og þökk sé honum fyrir að hafa verið á vaktinni og frætt okkur hér heima og þau áhugasamtök í Hvalfirði sem hafa miðlað þeim fróðleik sem er m.a. komið frá honum í þessum efnum til þess að hrekja firrurnar sem eru m.a. hafðar uppi af yfirvöldum iðnaðar- og umhverfismála í þessum efnum.

Virðulegur forseti. Fyrr á þessum degi ræddi ég við hæstv. umhvrh. um málafylgju hans að því er varðar starfsleyfi. Ég ætla ekki að nota langan tíma til þess að ræða það mál frekar þó að full ástæða væri til þess. Nokkur atriði vil ég þó nefna í tilefni 2. umr. málsins.

Það er þá sérstaklega sem varðar ákvörðun hæstv. umhvrh. að gefa út starfsleyfi í marsmánuði sl., rétt í þann mund sem er að fara af stað yfirferð og mat þeirra aðila sem lög bjóða og samkvæmt reyndar ólöglegum reglugerðum hæstv. ráðherra voru að hefja starf sitt. Hæstv. ráðherra gumar af því gagnvart Alþingi Íslendinga og alþjóð að hann sé valdið í þessum efnum og úrskurðarnefnd og aðrir aðilar sem hann er að vísa almenningi á til að leita réttar síns fái þar engu um breytt. Ég verð að segja að í þessum gjörningi felst dæmalaus vanvirða gagnvart almenningi í landinu. Ég vil einnig nefna það siðleysi þegar það ætti að vera sjálfsagt mál í stjórnsýslu að afgreiða ekki slík leyfi frá síðasta stjórnsýslustigi fyrr en lögboðinni og lögverndaðri umfjöllun er lokið að því er varðar ágreiningsefni af hálfu almennings og þeirra sem athugasemdir gera og það ferli sé komið í lokastöðu. Í raun á að mínu mati verkefni umhvrn. og hæstv. ráðherra ekki að vera annað en það að gefa út starfsleyfi eftir að ráðuneytið hefur farið yfir það og tryggt það með yfirferð sinni að öllum formsatriðum sé rétt til skila haldið og þannig sé réttmætt að veita umrætt leyfi. Ekki til þess að beita þar valdi til breytinga til eða frá eins og hæstv. ráðherra gerði við útgáfu sína og eins og gert var í þessu máli og það sem við blasir að engu verður þar um þokað í þessum efnum að því er varðar skilyrði starfsleyfisins, ekki nokkrum sköpuðum hlut nema málinu og útgáfu leyfisins verði hnekkt fyrir dómi.

[16:00]

Virðulegur forseti. Ég beini því einnig til hæstv. iðnrh. því að hans er ábyrgðin enn þá meiri í þessu máli að hæstv. ráðherrar ættu að skoða sinn gang hér og nú í sambandi við þetta mál ef svo færi að kærumál fyrir dómi yrði höfðað vegna ólöglegra athafna stjórnsýslunnar sem tengist málinu. Hver er staðan að þessu leyti, hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh.? Rétt að báðir hæstv. ráðherrar svari fyrir. Hver er staðan að því er varðar skuldbindingar gagnvart þessu fyrirtæki sem fékk þessa sérstöku fyrirgreiðslu og staðfestingu á því að ekki væri stundað neitt hér sem héti ,,environmental red tape``, engin óþarfa skriffinnska í tengslum við umhverfismál eins og auglýst er á vegum stjórnmála út um allan heim að hér sé hraðafgreiðsla á málum, ekki síst varðandi umhverfismálin. Hver er staðan gagnvart Norðurálsfyrirtækinu ef svo færi að starfsleyfið yrði dæmt ógilt á grundvelli þess að það er reist? Undirbúningur þess brýtur lög og fer fram samkvæmt ólöglegum reglugerðum. Það er rétt að hæstv. ráðherrar svari því hvernig þeir meta þá stöðu og hvort það er ekki skynsamlegt að hægja aðeins á ferðinni að þessu leyti. Hraðinn í málinu, sem stjórnvöld standa fyrir og heimila, er með þeim hætti að það er gengið yfir öll eðlileg vinnubrögð í tengslum við svona mál. Jarðvegsframkvæmdir eru heimilaðar. Það heitir að það sé á ábyrgð fyrirtækisins. Það eru heimilaðar jarðvegsframkvæmdir samkvæmt útboði. Það er hluti af þessu. Í rauninni er flest það brotið sem hægt er að brjóta af eðlegri stjórnsýslu í málsmeðferðinni. Byrjunin í því var meðferð hæstv. umhvrh. við mat á umhverfisáhrifum og hvernig þar var á málum haldið þar sem úrskurður skipulagsstjóra ríkisins var höggvinn í spað af hæstv. ráðherra af viðlíka valdhroka og hæstv. ráðherra beitir og beitti þegar hann gaf út starfsleyfið þvert ofan í athugasemdir frá 54 einstaklingum sem þar með höfðu öðlast kærurétt ef þeim svo sýndist að nýta hann, gefið langt nef af ráðherrum Framsfl.

Virðulegur forseti. Heldur er ógæfuleg lest ákvarðana sem fylgir málinu, valdníðslu og valdhroka, ólöglegra athafna, ólöglegrar stjórnsýslu og hæstv. ráðherrar ætla bara að hrista þetta af sér og láta sem ekkert sé. Síðan kemur meiri hluti iðnn. og hæstv. ráðherrar og segja: Það verður að gera fleira en gott þykir í svona máli. Það verður að grípa gæsina þegar hún gefst en við skulum reyna að bæta okkur í framhaldinu. Við gætum alveg hugsað okkur að fara aðeins að athuga það hvort ekki væri ráð að fara að móta einhverja stefnu varðandi orkumál og orkunýtingu, stóriðjumál. Það er jafnvel á dagskrá að það eigi að fara að hugsa til þess að fara að móta stefnu að þessu leyti og formaður iðnn. vitnaði sérstaklega til þess að meiri hluti umhvn. hefði haft á orði að ráð væri að reyna að hraða endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. En eitt af því sem hæstv. umhvrh. hefur hrist af sér eru lagafyrirmæli um það í ákvæði til bráðabirgða sem fylgir lögum um mat á umhverfisáhrifum að þau skuli endurskoða samhliða lögunum um skipulags- og byggingarmál sem Alþingi var að lögfesta í gær. Ekki er farið að sjást tangur eða tetur af endurskoðun frá hæstv. ráðherra og það skal mikið til ef hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans kemur með það mál fyrir þingið í þeim búningi að hægt verði að lögfesta þessa breytingu á kjörtímabilinu.

Það er auðvelt og kostar ekki mikið að heita bót og betrun eftir á. En er sú bót og er sú betrun á leiðinni í framkvæmd? Það er a.m.k. alveg ljóst að ekki er verið að doka við í þeim efnum ef um er að ræða að falbjóða orkulindir landsins til stóriðju fyrir hvern sem hafa vill og fyrir verð sem er sagt vera um helmingur af því sem nágrönnum okkar hentar að bjóða í þessu skyni og engar hömlur eru settar í þessu sambandi fyrir utan það að öllu þessu á að koma fyrir, öllu þessu er lofað á þessu svæði, Faxaflóasvæði. Sú stefna er uppi og fyrirvaralaus að þessir nýju landnámsmenn, hinir erlendu stóriðjufurstar, fjármagnseigendurnir, eiga að geta hagað sér með viðlíka hætti og þegar norræna og írska menn bar hér að landi og námu land 9. öld þar sem þeim hentaði og pláss fyndist í landi. Þeir kusu að nota öndvegissúlurnar til þess að vísa sér á góða staði ef trúa má sögum og hæstv. ráðherrar Framsfl. viðhafa alveg það sama. Hinir erlendu fjárfestar, sem hafa peningana, geta numið land og sett niður verksmiðjur sínar þar sem þeim hentar. Þá þarf ekkert að spyrja að því hvar þær eru settar niður.

Virðulegi forseti. Á vegum ríkisstjórnar Íslands er í fullum gangi sú stefna í atvinnumálum og efnahagsmálum að færa Íslendinga til Suðvesturlandsins á sem skemmstum tíma. Hin markaða byggðastefna ríkisstjórnarinnar er að standa þannig að málum. Þetta er verið að undirbúa af sveitarfélögunum hérna, m.a. af Reykjavíkurborg með því að sprengja rammann utan af sér, þ.e. sprengja af sér fjötrana hvað snertir rými fyrir hús og lendur með því að stækka Reykjavíkurborg of færa hana langleiðina upp undir Akranes og til þess að taka við flóttafólkinu utan af landi og skipuleggja Geldinganesið undir stóriðju, í hinni væntanlegu miðju þessarar borgar sem innan ekki langs tíma mun rúma hátt í 200 þúsund manns ef heldur fram sem horfir og taka við sem flestum sem hingað eru dregnir nauðugir viljugir vegna þess hvernig á málum er haldið.

Virðulegur forseti. Ég er andvígur þessu máli og tek undir það sem fyrir liggur í áliti minni hluta iðnn., ágætu nefndaráliti þar sem lagt er gegn lögfestingu þessa frv. þó að minnst af efni málsins sé að finna í þessu frv. Mikið af því liggur fyrir í gjörningum, ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar af ráðherrum sem telja sig hafa vald til þess eins og hæstv. umhvrh. sem þurfti auðvitað ekkert að vera að doka eftir því að Alþingi lýsti vilja sínum frekar en almenningur hefði rétt til að sjá hverju fram yndi um athugasemdir sínar.

Þetta er hörmuleg málafylgja og er þó því miður aðeins hluti og lítið brot af þeim farangri sem þessir hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn hafa í farteski sínu og ætla að reyna að hrinda í framkvæmd ef þeir halda völdum til langframa. Við skulum vona að í því styttist, virðulegur forseti, að þessi stefna hafi brautargengi. Til þess að hamla gegn því verður þjóðin að vakna til vitundar um það hver háski er á ferðum ef svo heldur fram sem horfir og nauðsynin á að svipta þá hæstv. ráðherra og flokka völdum í landinu sem ganga fram af slíkri óbilgirni í máli sem þessu og fullkomnu tillitsleysi að því er varðar rétt almennings í landinu og hagsmuni umhverfis okkar á Íslandi.