Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:18:05 (6747)

1997-05-16 19:18:05# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:18]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hann hefur tekið aftur það sem hann hefur sagt tvisvar úr þessum ræðustól, að ég og Alþb. vildum beita okkur fyrir því að auka atvinnuleysið. Það hefur hann tvisvar sagt úr þessum ræðustól. Hann var þó það smekklegur í þetta skipti að segja að ég vildi sennilega ekki atvinnuleysi. Það er framför í málflutningi hans og ég þakka honum sérstaklega fyrir það.

Varðandi málið að öðru leyti eins og hann setti það upp skil ég út af fyrir sig vel að menn hafi endað í þessum samningi vegna þess að greinilegt er að hæstv. iðnrh. hafði enga trú á eigin samningsstöðu. Hann taldi sig vera með mjög vonda vöru. Hann taldi að hlutirnir væru þannig að öryggi starfsfólksins væri í fyrsta lagi í verulegri hættu. Ég segi: Það er rangt. Það er augljóst mál og segir sig sjálft og þarf ekki að halda neinar ræður um það á Alþingi að eftir því sem fyrirtækið er stærra, eftir því eru meiri líkur á því að fleiri hafi vinnu. Það er ekki mikil vísindaleg niðurstaða, það skil jafnvel ég þannig að málið snýst ekki um að það sé mikil speki að hlutirnir séu þannig. En það er bersýnilegt að hæstv. ráðherra hefur trú á því að fyrirtækið hafi verið þannig komið að fótum fram að öryggi starfsfólksins hafi verið í stórkostlegri hættu. Ég undrast ekki að ráðherrann skuli hafa selt þetta fyrirtæki fyrir slikk, ef hann hefur verið þessarar skoðunar, sem sagt á hnjánum í þessu máli.

Hann segir líka: Óvissan með fyrirtæki hefði haldið áfram ef þetta hefði ekki verið selt. Ég er algerlega ósammála þessu. Ég tel að ráðherrann hafi tekið inn á sig kenningar um það að þetta fyrirtæki hafi verið miklu veikara en það var og hafi þar með tekið við fortíðararfi í iðnrn. þar sem þetta fyrirtæki var á sínum tíma afskrifað af því að það væri ónýtt og gæti ekki neitt. Ég er ósammála þessu.

Ég er líka ósammála því að hægt sé að líta á það að markaðshlutdeild t.d. Elkem í Evrópu sem úrslitaþátt í málinu. Það verður að horfa á allan heiminn í þessum efnum og markaðsyfirburðir Elkem voru ekki þeir sem látið var í veðri vaka. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að ég er svo sem ekki hissa á því að menn skuli hafa látið sig hafa það að láta fyrirtækið fara með þeim hætti sem gert var.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það hafi verið rangt hjá matsfyrirtækjunum að gefa sér langtímameðalverð eftir meðalverði síðustu 10 ára en inni í því eru tveir eða þrír fjórðungar með lægsta meðalverð á járnblendi á öldinni. Ég tel að það hafi verið rangt að meta fyrirtækið þannig. Út af fyrir sig gæti ég farið yfir þessa matskafla um frv. ef þeir væru ekki allir trúnaðarmál. Þeir voru lagðir fyrir í iðnn. og ég las þá gaumgæfilega. Ég tel enga ástæðu til að trúa þeim pappírum þannig að það sé um að ræða dóm sem menn hafi þurft að hlíta með þeim hætti sem gert er.

Ég vil einnig segja það, herra forseti, að ég veit ekki hvaðan hæstv. iðnrh. hefur það að ég hafi verið að tala um að stækka fyrirtækið með einhliða ákvörðunum. Hvernig í ósköpunum má það vera? Hvaðan hefur maðurinn eiginlega þá hugmynd? Var félagið ekki hlutafélag? Ég verð að segja það eins og er að ég hef gert mér grein fyrir því að þetta væri hlutafélag þannig að það kemur mér ekki á óvart. En það er ekki þannig að aðili í hlutafélagi þó sterkur sé geti tekið einhliða ákvörðun um eitt eða neitt í því heldur þarf hann að leita samkomulags. Það segir sig algerlega sjálft þannig að ég botna ekkert í þeim málflutningi sem er hafður uppi að því er þetta varðar. Ég tel að engin rök séu á móti því að reynt hefði verið að halda fyrirtækinu áfram og stækka það eins og það var að ekki hafi verið hægt að taka um það einhliða ákvörðun. Það eru engin rök í málinu vegna þess að það dettur ekki nokkrum einasta manni í hug.

Ég vil líka segja að ég átti ágætar viðræður við forstjóra fyrirtækisins og verður ekki rakið hér hvað okkur fór á milli. En ég vil endurtaka það að hér hefur verið byggt af honum og samstarfsmönnum hans upp fyrirtæki sem er svo gott að Elkem leggur mikið upp úr því að eignast það. Það er af einhverjum ástæðum. Það er ekki vegna þess að þetta sé vont og illa rekið fyrirtæki heldur vegna þess að menn hafa haldið vel á hlutunum og mér finnst ástæða til þess að halda því til haga og þakka fyrir það.

Hæstv. iðnrh. vék svo að þeim málum sem hafa verið til meðferðar hjá hv. iðnn. á tveimur árum. Hann sagði að kyrrstaða hefði verið rofin með þessari ríkisstjórn í atvinnumálum eins og þetta væri henni að þakka eða hvað það nú er að þessir samningar hefðu orðið til. Ég tel að hlutirnir liggi ekki þannig. Ég tel að um sé að ræða röð af ytri aðstæðum sem leiða til þessarar niðurstöðu og málið geti engan veginn legið þannig að hægt sé að halda því fram að ríkisstjórnin núverandi hafi skipt sköpum í þessum efnum. Ég tel það ekki vera. Ég bendi á að að þessum málum hafa menn unnið mjög lengi, bæði Landsvirkjun, iðnrn. og fleiri aðilar og að því hafa menn komið úr fleiri flokkum en Framsfl.

Ég held að þess vegna sé nauðsynlegt að hafa þá hluti mjög rækilega í huga að það er fáránlegt að tala um að þessi ríkisstjórn hafi rofið einhverja kyrrstöðu í málinu. Hún hefur ekki gert það. Hún hefur tekið við hagstæðum ytri hagvexti og út af fyrir sig liggja hlutirnir fyrst og fremst þannig frekar en hún hafi í sjálfu sér haldið þannig á málum að hún hafi framkallað þessa stórkostlegu framfarasókn í íslensku atvinnulífi. Ef ráðherrarnir trúa því lifa þeir í blekkingarheimi sem er ekki hollt fyrir ráðherra að vera í.

Hæstv. ráðherra sagði að með þeim ákvörðunum sem hefðu verið teknar á undanförnum árum og hafa m.a. farið í gegnum iðnn. um stækkun Ísals, þriðja ofninn á Grundartanga og Columbia Ventures Corporation og Landsvirkjunarbreytinguna, hafi verið um að ræða mikilvægar ákvarðanir sem stuðli að betri lífskjörum í landinu og að um sé að ræða í þessum fyrirtækjum betur launuð störf en annars staðar og ég segi eins og ég sagði áðan, herra forseti: Margt af því fólki sem hefur unnið í stóriðjufyrirtækjunum hefur gert það vegna þess að það hefur ekki átt neinna annarra kosta völ. Það hefur ekki verið að öllu leyti af fúsum og frjálsum vilja sem þetta fólk hefur kosið að vera þarna og það hefur m.a. verið vegna þess að launin hafa verið lág og að nokkru leyti hafa menn borgað fyrir aðeins hærri laun með aðeins lakari heilsu. Það held ég að sé viðurkennt.

Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni að það sé slæmt að ekki skuli hafa verið samstaða um þau mál sem iðnn. hefur tekið fyrir. Ég get tekið undir það. Það er mjög slæmt. En ég held að hann hafi ekkert gert til að stuðla að henni. Þvert á móti hafi hann gert það sem hann getur til þess að koma í veg fyrir að hún næðist. Það tel ég að eigi sérstaklega við um Landsvirkjunarmálið, bæði fyrr og síðar af hálfu hans þar sem hann beitti sér fyrir ósamkomulaginu. Ég harma það, herra forseti.