Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 11:59:25 (6849)

1997-05-17 11:59:25# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til í framhaldi af því sem hér hefur verið sagt að fara nokkrum orðum um fjölskylduna. Mér finnst að þætti hennar hafi ekki verið sýndur nægur sómi í þessum umræðum, þ.e. flestir ræðumenn hafa lagt ríka áherslu á stofnanaþjónustu. Stofnanaþjónusta er auðvitað nauðsynleg ef fjölskyldan brestur. En meginatriðið er náttúrlega að fjölskyldan sé í lagi og geti sinnt fjölskyldumeðlimum sínum. Því miður held ég að staða fjölskyldunnar sem slíkrar hafi veikst. Menn eru ekki eins meðvitaðir nú og þeir voru fyrir einhverjum áratugum um ábyrgð fjölskyldunnar. Mér finnst að firring hafi aukist og að einstakir fjölskyldumeðlimir gleymi því allt of oft að þeir komi hver öðrum við. Síðan þegar í óefni er komið eða einhver er orðinn til trafala er of oft hrópað að það sé ríkisins eða hins opinbera að taka við honum og ráða bót á því sem aflaga hefur farið.

Ég held að það sé verðugt verkefni fyrir okkur á næstu árum að reyna að bæta stöðu fjölskyldunnar. Liður í því er ályktun Alþingis um mótun opinberrar fjölskyldustefnu sem ég er mjög þakklátur fyrir að skyldi fá afgreiðslu á þinginu. Ég tel að þar sé tekið á mörgum málum sem geta orðið fjölskyldunni til góðs og minnt á gildi sem við eigum að hafa í heiðri. Ég mun reyna að vinna eftir þessari ályktun Alþingis og vænti þess að hv. alþm. leggi því máli líka lið.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði hvaða breyting yrði þegar sjálfræðisaldur yrði hækkaður. Það sem ég er að benda á er að eins og staðan hefur verið hafa unglingar útskrifast af meðferðarheimilum á vegum félmrn. eða á vegum Barnaverndarstofu þegar þeir eru 16 ára gamlir. Nú verða mál einhverra þeirra þar væntanlega til meðferðar þangað til þeir verða 18 ára. Í því felst aukinn kostnaður. Við höfum ákveðna peninga til ráðstöfunar. Við verðum að hafa ríkisbúskapinn í jafnvægi. Við viljum lækka skattana. Við þurfum að raða tiltækum fjármunum eftir því sem okkur sýnist skynsamlegast og eftir því sem þeir nýtast best og þar sem þörfin er mest. Ég stend frammi fyrir þeim vanda við hverja fjárlagagerð að mismuna eitthvað á milli einstakra málaflokka í ráðuneytingu. Við í félmrn. höfum reynt að láta málefni fatlaðra njóta forgangs. Sannarlega er þar ekki síður þörf á auknum fjármunum en varðandi barnaverndarmál.

Ég þakka umræðuna. Ég held að það hafi verið heppilegt fyrir okkur og gagnlegt þessa morgunstund að hugleiða málefnið og ræða það.