Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 21:49:28 (20)

1996-10-02 21:49:28# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:49]

Finnur Ingólfsson:

Herra forseti. Ágætu tilheyrendur. Kyrrstaðan í íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur verið rofin. Svartsýni hefur vikið fyrir bjartsýni, athafnaþrá og vongleði hefur verið aftur kveikt í hjörtum okkar eftir að bölmóður hafði náð tökum á þjóðarsálinni. Ótrúleg umskipti hafa orðið í íslenskum þjóðarbúskap á undanförnum missirum. Verðbólga er svipuð og í samkeppnislöndunum, afkoma fyrirtækja hefur batnað, kaupmáttur launa eykst hröðum skrefum, störfum fjölgar stórlega, atvinnuleysi minnkar, erlendar skuldir hafa lækkað og ríkisstjórnin mun skila hallalausum fjárlögum á næsta ári. Fyrir einstaklinga í alvarlegum og langvarandi greiðsluerfiðleikum hefur verið sett á fót ráðgjafarmiðstöð fjármála heimilanna og lög um réttaraðstoð við fólk í greiðsluerfiðleikum hafa verið sett.

Nú kunna einhverjir að spyrja: Er þetta ekki glansmynd stjórnmálamanns sem búinn er að gleyma öllum kosningaloforðunum? Ég segi nei, staðreyndirnar tala nefnilega sínu máli. Stjórnarandstaða hefur mikilvægu hlutverki að gegna á Alþingi hverju sinni. Hún hefur mikilvægu hlutverki að gegna við það að fylgja því eftir að ríkisstjórn á hverjum tíma standi við það sem hún lofaði. Það kom mér þess vegna mjög á óvart nú í þessari umræðu hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hafa talað að það hefur ekki verið minnst á eitt einasta kosningaloforð sem Framsfl. gaf í kosningunum 1995. Getur það verið að menn í stjórnarandstöðunni séu komnir með minnimáttarkennd yfir framkvæmdinni? Því verð ég, hv. þm., að rifja hér upp fáein atriði úr stefnuyfirlýsingu frá síðustu kosningabaráttu.

Við sögðumst vilja skapa 12 þúsund ný störf til aldamóta. Það stefnir ekki í að þau verði 12 þúsund heldur að þau verði 14 þúsund ef menn halda áfram á sömu braut. Við vildum stefna að hallalausum fjárlögum í lok kjörtímabilsins. Ríkisstjórnin á sínu öðru starfsári leggur núna fram fjárlagafrv. án halla með tekjuafgangi, með öðrum orðum erum við hætt að skuldsetja komandi kynslóðir. Við sögðum að kaupmáttur þyrfti að aukast í kjölfar kaupmáttarhrunsins. Árin 1995 og 1996 mun kaupmáttur aukast um 9% sem er tvöfalt meiri aukning heldur en í OECD-löndunum að meðaltali. Við vildum auka hagvöxt um 3% á ári. Hann verður ekki 3% á þessu ári, hann verður 5,5% sem er mesti hagvöxtur í nokkru landi allt í kringum okkur. Við vildum stefna að því að setja þúsund milljónir króna í sérstakt framlag til menntamála á kjörtímabilinu. Það verða ekki þúsund milljónir, það verða tvö þúsund milljónir þegar við flytjum núna grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Við vildum stefna að því og sögðum: Það þarf að auka erlenda fjárfestingu með samningnum um stækkun álversins í Straumsvík. Þá tíföldum við erlenda fjárfestingu í landinu. Við sögðumst vilja vinna að breytingum á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Að því er núna unnið.

Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur þannig með traustri efnahagsstjórn lagt grunninn að auknum sóknarfærum íslenskra fyrirtækja og heimila. En þrátt fyrir þetta erum við Íslendingar í alþjóðlegum samanburði ekki nema um miðjan hóp ríkustu þjóða veraldar, en batinn í efnahagslífinu gefur svigrúm til að stuðla að nauðsynlegum búháttarbreytingum í íslensku atvinnulífi. Á þetta einkum við á fjármagnsmarkaði og í orkumálum. Á fjármagnsmarkaði eru aðstæður gerbreyttar frá því sem var þegar núverandi skipan komst á. Þá var íslenskur fjármagnsmarkaður veikburða. Þetta hefur gerbreyst. Því er nú skipulag ríkisviðskiptabankanna og fjárfestingarlánasjóðanna í endurskoðun með það að markmiði að stuðla að aukinni hagkvæmni, greiðari aðgangi að fjármagni og lægri vöxtum. Það er brýnt að standa undir áhættufjármögnun til raunverulegrar nýsköpunar í því skyni að stuðla að framfarasókn í íslensku efnahags- og atvinnulífi og fjölga arðbærum störfum. Frumvörp um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna og fjárfestingarlánasjóða mun því verða lagt fyrir það Alþingi sem nú er að hefja störf.

Allt skipulag orkumálanna er nú til heildarendurskoðunar með það að meginmarkmiði að auka hagkvæmni á orkusviðinu, auka samkeppni, en jafnframt stuðla að jöfnun orkuverðs, að tryggja gæði þjónustu og afhendingaröryggi og auka sjálfstæði orkufyrirtækja.

Herra forseti. Við stöndum nú í dagrenningu nýrra tíma sem munu geta fært okkur aukna hagsæld og bætt mannlíf, ekki síst vegna stórstígra framfara í upplýsinga- og fjarskiptatækni. Því hefur nú á vegum ríkisstjórnarinnar verið mótuð heildstæð stefna um upplýsingasamfélag framtíðarinnar, samfélag þar sem greiður aðgangur að upplýsingum mun breyta atvinnuháttum okkar og samskiptum manna á milli. Þessi nýja samfélagsmynd er nefnd upplýsingasamfélagið. Hugbúnaðariðnaðurinn er hluti upplýsingaiðnaðarins. Gengi hans hér á landi má fyrst og fremst þakka dugmiklum og skapandi einstaklingum sem með þekkingu sinni og eljusemi hafa náð ótrúlegum árangri.

Nátengdur upplýsingaiðnaðinum er afþreyingariðnaðurinn sem er orðinn ein stærsta atvinnugrein heims og í hvað örustum vexti. Íslenskir tónlistar- og kvikmyndagerðarmenn eiga því einnig mikla möguleika á þessu sviði og þannig er um fleiri. Það er m.a. þetta fólk og fyrirtæki þess sem draga munu vagninn inn í velferðarsamfélag komandi ára.

Herra forseti. Þeir eru ekki spámannlega vaxnir í dag, þeir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem nefndu ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., ríkisstjórn stöðnunar og kyrrstöðu. Áralöng kyrrstaða í íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur verið rofin. Fyrsta heila þing ríkisstjórnarinnar er eitt hið athafnasamasta um langt skeið. Komið hefur verið á sveigjanlegri og lýðræðislegri samskiptareglum á vinnumarkaði. Unnið er að skipulagsumbótum í menntakerfi og heilbrigðismálum. Allar þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar ber að sama brunni, að byggja hér upp fyrirmyndarþjóðfélag sem býr vel að þegnum sínum. Þannig getum við orðið í fremstu röð meðal þeirra þjóða sem við viljum helst bera okkur saman við, hvort sem litið er til menntunar, atvinnu eða velferðar og félagslegra aðstæðna. Árangurinn sem þegar er orðinn af styrkri stjórnun ríkisstjórnarinnar ber því glöggt vitni að slíkt er ekki draumsýn ein heldur raunhæfur möguleiki. Að honum stefnum við öruggum skrefum og getum þannig gengið með reisn móti nýrri öld.