Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 22:04:55 (22)

1996-10-02 22:04:55# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, MS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:04]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við lifum á tímum mikilla breytinga. Miklar tækniframfarir sem auðvelda og auka samskipti milli manna og þjóða gera það að verkum að heimurinn minnkar stöðugt. Þessi þróun skapar aukna möguleika á viðskiptum þjóða í milli og hin hraðfara þróun í samskiptatækni færir okkur Íslendinga nær hringiðu heimsviðskiptanna, hvort sem litið er til austurs eða vesturs. Þessir breytingatímar eiga þó ekki eingöngu við samskipti og viðskipti okkar við aðrar þjóðir heldur verður þeirra einnig vart meðal okkar sjálfra.

Það eru greinileg batamerki í efnahagsmálum íslensku þjóðarinnar. Sumir halda því fram að hér ríki góðæri og bent er á að ýmis þenslumerki séu komin fram í efnahagskerfi okkar eftir nokkurra ára efnahagsþrengingar og erfitt atvinnuástand. Það eru að sjálfsögðu góð tíðindi að hagur okkar batnar en við þessar aðstæður er mikilvægara en í annan tíma að fara með gát og gæta þess að góðæri í efnahagslegu tilliti nýtist þjóðinni sem best og beita þarf ráðstöfunum til þess að byggja okkur upp til framtíðar. Það gerum við m.a. með því að reka ríkissjóð án halla, greiða niður skuldir og minnka þar með greiðslubyrði og vaxtakostnað í komandi framtíð eins og hæstv. ríkisstjórn vinnur nú markvisst að. Við getum ekki leyft okkur við þessar aðstæður að skuldbinda afkomendur okkar til þess að greiða niður skuldir sem við stofnuðum til með áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs.

Það sem skiptir okkar þjóð hvað mestu er hver afkoman er í sjávarútvegi hverju sinni og hvernig tekst til við að draga verðmæti úr sjónum. Þetta eru gömul sannindi og ný. Íslenska þjóðin á afkomu sína hvað mest undir fiskveiðum og fiskvinnslu. Á síðasta fiskveiðiári færði fiskiskipafloti okkar meiri afla að landi en nokkru sinni fyrr. Flotinn hefur að undanförnu sótt æ meira á fjarlæg fiskimið utan fiskveiðilögsögu okkar og borið þaðan björg í bú. Einnig hefur loðnu- og síldarafli aukist verulega og menn líta björtum augum til nánustu framtíðar á því sviði. Þetta er ánægjuefni. Hins vegar er það staðreynd að hin hefðbundna bolfiskvinnsla á nú verulega undir högg að sækja og hafa nokkur fiskvinnslufyrirtæki neyðst til þess að hætta vinnslu vegna lélegrar afkomu í greininni.

Þetta sýnir okkur enn á ný hve miklar sveiflur eru í sjávarútvegi og hve fólk býr við mismunandi aðstæður eftir því hvar á landinu það er við sjávarsíðuna. Við núverandi aðstæður er ljóst að þeir aðilar og þau landsvæði, sem hafa ekki aðgang að og geta ekki hagnýtt sér þá uppsveiflu sem er í veiðum og vinnslu á uppsjávartegundum, sitja eftir og munu eiga erfitt með að halda atvinnustarfsemi gangandi. Hér er um verulegt áhyggjuefni að ræða sem stjórnvöld hljóta að veita athygli og bregðast við. Hins vegar starfa flest þau sjávarútvegsfyrirtæki sem eru nú rekin með afgangi við veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski og stunda veiðar á fjarlægum miðum utan fiskveiðilögsögunnar.

Mörg undanfarin ár hefur mikið verið rætt og ritað um þá löggjöf um fiskveiðistjórn sem við búum við og eðlilega sýnist sitt hverjum um það. Þessi löggjöf er ekki gallalaus frekar en mörg önnur mannanna verk en í tímans rás hafa verið gerðar ýmsar breytingar á löggjöfinni í þeim tilgangi að sníða af henni þá vankanta sem löggjafarvaldið hefur verið sammála um að gera. Hvað sem öðru líður er ljóst að þau fiskverndarsjónarmið, sem lögð hafa verið til grundvallar fiskveiðistjórninni, hafa átt fullan rétt á sér. Nú er þjóðin að upplifa þá ánægjulegu staðreynd að þorskstofninn er að rétta við og allt útlit er fyrir að heimilt verði að veiða mun meira af þorski á allra næstu árum en verið hefur. Þetta gefur tilefni til bjartsýni, ekki síst á landsvæðum þar sem bolfiskveiðar og vinnsla eru undirstöðuatvinnugreinarnar. Það gefur einnig tilefni til bjartsýni á framtíð sjávarútvegsins að þrátt fyrir miklar þrengingar undanfarin ár hefur sjávarútvegurinn í heild sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni og þannig tekist að vinna sig út úr erfiðleikum með hagræðingu og miklum tækniframförum. Það mátti sjá glögg dæmi um framfarir á þessum sviðum á sjávarútvegssýningu sem haldin var fyrir stuttu og vakti mikla athygli bæði hér á landi sem víða erlendis. Á þessu má sjá að við Íslendingar stöndum flestum öðrum þjóðum framar á þessum sviðum og það gefur möguleika á auknum viðskiptum við aðrar þjóðir.

Herra forseti. Um þessar mundir erum við að upplifa það að fjárfesting og framkvæmdir eru að aukast í þjóðfélaginu. Þetta er á sinn hátt mikið ánægjuefni eftir nokkurra ára stöðnun. Vert er að vekja athygli á því að mest af þessum fjárfestingum og framkvæmdum eru og munu eiga sér stað á suðvesturhorni landsins og tengjast m.a. uppbyggingu stóriðjuvera og auknum umsvifum á ýmsum sviðum. Ljóst er að þetta getur valdið hættu á enn meiri byggðaröskun en verið hefur. Einstök landsvæði eiga verulega undir högg að sækja vegna einhæfs atvinnulífs, samdráttar og breytinga í undirstöðuatvinnuvegunum sjávarútvegi og landbúnaði og vegna búsetuaðstæðna sem fólk metur því miður lakari víða úti á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni. Þau auknu umsvif, sem eru að verða á þessu svæði, munu án efa draga fólk frá landsbyggðinni.

Það er gífurlega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þessu og leitum leiða til þess að bregðast við í tíma. Það er ekki síður mikilvægt að heimamenn og sveitarstjórnir á hverju svæði bregðist við og leiti leiða til þess að standast samkeppnina um fólkið og atvinnutækifærin. Víða um land eru miklir möguleikar fyrir hendi og víða eru myndarlegar byggðir og öflugt atvinnulíf. Með framsýni, samstöðu og jákvæðu hugarfari geta aðilar víða úti á landsbyggðinni staðist samkeppnina við suðvesturhornið um fólkið og atvinnustarfsemina. Fjölmörg dæmi sanna það. Það er hins vegar jafnljóst að neikvæð umræða um einstök landsvæði af hálfu stjórnvalda, embættismanna sem heimamanna sjálfra, getur hæglega lamað mannlífið og atvinnufyrirtækin þannig að byggðirnar fjara smám saman út. Það ber að varast.

Eitt mesta hagsmunamál byggðar úti um land eru bættar samgöngur. Víða um landið er knýjandi þörf fyrir bætt vegasamband ekki síst til þess að efla einstaka atvinnu- og þjónustusvæði þannig að þau geti staðið betur að vígi í harðnandi samkeppni um fólk og atvinnutæki. Þegar aðhaldi er beitt í ríkisútgjöldum eins og nú er með það að markmiði að reka ríkissjóð án halla og minnka skuldir og vaxtakostnað fer ekki hjá því að það komi við samgöngumál eins og aðra málaflokka. Bættur hagur ríkissjóðs gefur væntingar um að á næstu árum verði unnt að veita aukið fjármagn til samgöngumála.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er ástæða til þess að hvetja þjóðina til að vera bjartsýn og jákvæð. Landið okkar er gjöfult og fagurt og þjóðin er vel menntuð og býr yfir ýmsum hæfileikum sem gefur okkur möguleika á áframhaldandi framförum og bættum hag. --- Ég þakka þeim er hlýddu. Góðar stundir.