Hvalveiðar

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:33:21 (53)

1996-10-07 15:33:21# 121. lþ. 3.1 fundur 33#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:33]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst er þess að geta að ákvörðun um að hefja hvalveiðar hefur ekki verið tekin. Hins vegar hefur verið sett á fót nefnd sem vinnur nú að því að undirbúa þáltill. sem kemur væntanlega til umfjöllunar í þinginu í vetur og í framhaldi af því verður trúlega unnt að taka ákvarðanir í þessu efni.

Varðandi afstöðuna til Alþjóðahvalveiðiráðsins þá er staða okkar talsvert önnur en Norðmanna. Eins og kunnugt er ákvað Alþingi Íslendinga að mótmæla ekki ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um núllkvóta á sínum tíma. Hins vegar tóku Norðmenn þá ákvörðun að mótmæla þeirri samþykkt og eru þess vegna óbundnir af henni. Þetta var ein af ástæðunum fyrir því að við töldum nauðsynlegt að losa okkur undan þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem við komum okkur sjálfir í með þeirri afstöðu sem Alþingi tók á sínum tíma. Hitt er svo alltaf sjálfstætt athugunarefni þegar kemur að ákvörðunum í þessu hvort við styrkjum betur stöðu okkar með því að ganga í hvalveiðiráðið að nýju með mótmælum gagnvart samþykktinni frá sínum tíma. Það er sjálfstætt athugunarefni sem kemur eðlilega til skoðunar í þeirri vinnu sem fer nú fram.