Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 15:35:23 (104)

1996-10-08 15:35:23# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar um nefndastarf við endurskoðun á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna þá er sú nefnd enn þá að störfum og ég á von á því að hún skili af sér innan tíðar. Menn hafa skipst þar á skoðunum og verið er að leita leiða til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem hæst hefur borið og þá sérstaklega kröfur varðandi endurgreiðslu lána.

Framlagið til Þjóðarbókhlöðunnar hækkar á milli ára um 15,6 millj. kr. eins og kemur fram í fjárlagafrv. þannig að tekið er á málefnum hennar og stuðlað að því að hún geti bætt starfsemi sína. Um það hvenær hún verður opin eða hvort þessir fjármunir dugi til þess að gerbreyta þeim tíma sem hún er opin ætla ég ekki að fullyrða enda er það stjórnenda hennar að taka ákvarðanir um það en fjárframlög til Þjóðarbókhlöðu eða Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns eru aukin um 15,6 millj. kr.

Ekki er um lækkun að ræða á framlögum til sérkennslu heldur tilfærslu á fjármunum af almennum lið yfir á einstaka skóla eins og Menntaskólann við Hamrahlíð, Kennaraháskóla Íslands og Menntaskólann í Kópavogi en þessar fjárveitingar ráðast að sjálfsögðu af þeim nemendum sem stunda nám í skólunum og þurfa á sérkennslu að halda. Ég vek einnig athygli hv. þm. á því að það flyst fé til Iðnskólans og Borgarholtsskóla vegna niðurlagningar á framhaldsdeild í Réttarholtsskóla þannig að verið er að ráðstafa þessum fjármunum á annan hátt en gert hefur verið og það er það sem er þarna um að ræða en ekki lægri fjárveiting.

Um endurinnritunina og það sem stendur um hana í greinargerð frv. vil ég segja að það á við rök að styðjast því að hér er um endurinnritun að ræða og spurningin er um það hvaða nemendur haldast í námi og hvernig þeir nýta námstíma sinn. Það er ekki um að ræða að þeir þurfi að borga þetta gjald nema þeir hafi farið út úr skólanum eða séu að endurtaka áfanga eða próf. Þess vegna má reikna með því vonandi að heimild til að innheimta þetta gjald verði einnig til þess að menn taki tillit til þess að nýta tímann betur og ekki þurfi að grípa til endurinnheimtunar. Á því byggist þessi röksemdafærsla sem fram kemur í greinargerð með frv.