Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 17:10:21 (119)

1996-10-08 17:10:21# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst athyglisvert við þessa ræðu hv. form. fjárln. sem gekk til kosninga undir kjörorðinu: Fólk í fyrirrúmi, skyldi nánast ekki hafa nein orð um þann niðurskurð sem er í frv. til velferðarkerfis fólksins. Hv. þm. hafði þó hér áður fyrr mikið um það mál að segja þegar hann var í stjórnarandstöðu, þegar boðaður var einhvers staðar niðurskurður. Þó var efnahagsástandið þá verra en nú er og ríkissjóður verr staddur. Ég spyr hvort hv. þm. hafi ekkert að segja um það að verið er að eyðileggja hér Framkvæmdasjóð fatlaðra og lögbundin framlög sem hann á að hafa og eru um 420 milljónir eru skorin niður um 165 milljónir. Það er verið að stefna Byggingarsjóði verkamanna í gjaldþrot með miklum niðurskurði á þessu og næsta ári til sjóðsins. Það er verið að þrengja að atvinnulausum. Og ég spyr: Er verið að rýra kjör þeirra með því að það er boðað að herða eigi útlánareglur um 128 milljónir og ný viðfangsefni sett á sjóðinn sem ríkissjóður hefur fjármagnað sérstaklega áður eins og starfsmenntun og atvinnumál kvenna? Og ég spyr hann um sjúkrahúsin. Hefur hv. þm. ekkert um það að segja að það stefnir í sama uppnám þar á næsta ári eins og þessu? Hæstv. heilbrrh. virðist lítið hafa um það að segja vegna þess að hún virðist hafa verið í ársleyfi á tunglinu þegar hún núna er að kalla til forustumenn Ríkisspítala og spyrja þá hverju sæti þessi niðurskurður sem nú er á sjúkrahúsunum. Og hvað með niðurskurðinn til menntamála sem boðaður er og aukin þjónustugjöld, að ekki sé talað um það að ekki er boðuð ein einasta aukin króna til átaks í fíkniefnamálum, en þó eru boðaðar ýmsar tillögur sem eigi að hrinda því í framkvæmd.