Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 19:26:57 (134)

1996-10-08 19:26:57# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður í dag fjallað um hússtjórnarskólana. Það er rangt að það sé verið að slá þá af. Það er verið að gera þá að hluta af öðrum skólum og er það ekki nýjung að menn hugsi um þá leið til þess að styrkja starfsemi þeirra skóla eða það starf sem innan þeirra er.

Varðandi þá þrjá litlu framhaldsskóla sem hv. þm. gerði að umtalsefni vil ég geta þess að hér er um að ræða tilfærslu á vegum ráðuneytisins innan þeirra gildistalna sem ráðuneytið notar vegna útreiknings á kostnaði við skólahald. Þessir skólar voru í flokki með Iðnskólanum í Reykjavík og Iðnskólanum í Hafnarfirði, sem eru dýrustu skólarnir og fá mest fé á nemanda, en þeir eru vegna þess hvernig námi er háttað í þessum skólum færðir í flokk með Menntaskólanum á Laugarvatni, Menntaskólanum á Egilsstöðum, Fósturskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Námið í þessum skólum er innan við 10% verknám þannig að það eru fyrir því fullgild rök að mati ráðuneytisins að breyta gildistölunni og laga hana að því starfi sem er unnið innan skólanna.

Varðandi kostnað við framhaldsskólann og þær tölur sem nefndar eru vil ég nefna hér tölur, samanburð framlaga til framhaldsskóla árið 1996--1997 á verðlagi fjárlaga 1996. Á árinu 1996 er varið 226.900 kr. á nemanda í framhaldsskóla. Samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að varið verði 220.600 kr. og ef það er á verðlagi hvors árs um sig var það í fyrra 226.900 en í ár 227.900 á nemanda sem rennur á hvern nemanda í framhaldsskólum.