Vinnsla síldar til manneldis

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 15:10:24 (254)

1996-10-10 15:10:24# 121. lþ. 6.97 fundur 43#B vinnsla síldar til manneldis# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:10]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Eitt af því sem hefur hamlað því að útgerðir geti komið með afla af þessu tagi til vinnslu er það að aflinn nær ekki þeim gæðakröfum að geta verið vinnsluhæfur. Eitt af því sem veldur því að útgerðir og sjómenn geta ekki komið með aflann í þannig ástandi að hann sé vinnsluhæfur eru aðstæður um borð í skipunum. Þau hafa ekki þá geymslumöguleika að geta komið með síldina að landi þannig að hún sé vinnsluhæf nema í bræðslu.

Ein af þeim ástæðum sem valda þessu eru úreldingarreglur skipa sem eru í gildi í dag, en það er talið nauðsynlegt að kaupa um 120% í úreldingu til að geta gert skip fullhæf til þess að fullnægja ýtrustu vinnslukröfum sem aðeins næst með kælitönkum um borð í skipunum þannig að þau geti komið með síldina nokkurra daga gamla að landi til vinnslu. Einnig hefur verið mjög erfitt að fullnægja kröfum um aðbúnað áhafnarinnar um borð í þeim skipum sem hafa stundað veiðar á úthafinu. Allt þetta hefur því reynst útgerðum dýrt og þær hafa ekki treyst sér til að kaupa alla þá úreldingu sem er nauðsynleg. Þetta er einn af þeim ágöllum sem eru á kerfinu í dag svo að hægt sé að komast á það stig að uppfylla þær sjálfsögðu kröfur að opinberir aðilar geti krafist þess að öll svona vara verði unnin eins og kostur er og þjóðarbúið nái sem mestri hagkvæmni út úr veiðunum.

Ég tek undir það sem komið hefur fram um það að við erum einnig að berjast við umhverfissamtök sem hafa lagst gegn bræðsluveiðum eins og við erum að stunda hér og það er að sjálfsögðu mjög brýnt að við reynum að aðlaga þær reglur að nútímahugsunarhætti við þessar veiðar.