Vinnsla síldar til manneldis

Fimmtudaginn 10. október 1996, kl. 15:19:14 (258)

1996-10-10 15:19:14# 121. lþ. 6.97 fundur 43#B vinnsla síldar til manneldis# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:19]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Ég tel að það sé grundvallaratriði að við gerum allt sem mögulegt er til að ná sem mestum verðmætum út úr þeim síldarafla sem við eigum kost á að veiða. Við höfum barist fyrir því að fá auknar veiðiheimildir úr síldarstofnum utan okkar lögsögu og við höfum barist í því í mörg ár að byggja upp þá síldarstofna sem við getum veitt innan lögsögunnar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við gerum allt sem hægt er til að ná sem mestum verðmætum út úr þessum veiðum. Það kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að markaðir eru fyrir hendi fyrir síld til manneldis og það hefur komið fram að heimildir eru fyrir hendi til þess að stýra nýtingu síldarinnar að einhverju leyti. Ég vil hvetja til þess að það verði skoðað mjög alvarlega hvort ekki sé rétt að beita þeim heimildum að einhverju leyti til þess að heildin, þjóðarbúið, fái sem mest út úr þeim afla sem á land kemur. Það hefur komið fram og við vitum það auðvitað að vinnsla á síld til manneldis kallar á mun meiri mannafla og allt ber að sama brunni, þetta styrkir atvinnulífið. Ég vil því hvetja til þess að hæstv. sjútvrh. skoði það mjög alvarlega hvernig hægt er að stýra því að síldin fari meira til manneldis en kannski verið hefur.