Fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 15:33:48 (270)

1996-10-14 15:33:48# 121. lþ. 7.95 fundur 44#B fjármál Sjúkrahúss Reykjavíkur# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[15:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það mál sem við erum hér með til umræðu er erfitt vandamál. Mér finnst ekki hægt fyrir menn að koma hér og ræða það eiginlega út og suður eins og mér finnst bæði á köflum hæstv. heilbrrh. gera en þó ekki síður hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Það þýðir ekkert að koma hingað og ræða um vandamál spítalans í dag með því að vísa til þess að ekki var farið að ráðleggingum skýrslu Ernst og Young á sínum tíma.

Ég vil upplýsa hv. þm. um það að á grundvelli þeirrar skýrslu var t.d. lagt til að ekki yrði farið út í glasafrjóvganir á Íslandi. Það var lagt til að ekki yrði farið út í hjarta- og æðaaðgerðir eins og hins vegar hefur verið gert þannig að ef farið hefði verið eftir þeim tillögum sem Ernst og Young og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vildu væntanlega gera, þá væri staðan allt önnur hér en hún er núna.

Herra forseti. Ég vil að flestu leyti taka undir það sem hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði áðan. Við eigum að gefa stjórnendum þessa spítala andrými. Við skulum ekki gleyma því að þeir byrjuðu á því að þurfa að ráðast gegn 400 millj. kr. halla. Þeir urðu að skera hann niður um 150--170 millj. Auðvitað kostar það þrek. Og þeir hafa líka þurft að beita atgervi sínu og orku til þess að finna úrræði á margs konar vandamálum sem tengjast sameiningu tveggja spítala og þess vegna segi ég það að allt þetta ár hafa þessir stjórnendur þurft að vera að berjast við vandamál sem eru óeðlileg. Þetta hefur skapað vondan vinnumóral, þetta hefur skapað kvíða, þetta hefur skapað ótta og við eigum að taka tillit til þessa. Þess vegna segi ég að mér finnst vera meiri mannsbragur að því sem talsmenn Sjálfstfl. hafa sagt í þessari umræðu heldur en t.d. hæstv. heilbrrh. sem kemur hingað og reynir að sá tortryggni í garð stjórnendanna. Hæstv. heilbrrh. segir að það valdi ráðuneytinu miklum áhyggjum að ekki sé hægt að treysta tölum Sjúkrahúss Reykjavíkur, tekur síðan fram að hún eigi ekki við bókhaldsdeildina. Ja, þakka skyldi að ráðherrann komi ekki hér og haldi því fram að óreiða sé á þessum málum eins og mátti skilja á umræðum hennar um daginn. Orð eru dýr, ágætu framsóknarmenn, og menn verða að vita með hverju á að greiða þau.