Þjóðsöngur Íslendinga

Mánudaginn 14. október 1996, kl. 18:11:41 (300)

1996-10-14 18:11:41# 121. lþ. 7.11 fundur 35. mál: #A þjóðsöngur Íslendinga# þál., Flm. USt
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur

[18:11]

Flm. (Unnur Stefánsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu um endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga sem ég flyt ásamt hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, Magnúsi Stefánssyni, Lúðvíki Bergvinssyni og Kristínu Ásgeirsdóttur. Tillagan gerir ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að endurskoða lög um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983. Meðal annars verði tekið til athugunar hvort rétt sé að taka upp annan þjóðsöng við hlið núverandi þjóðsöngs sem væri aðgengilegri í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar svo sem í skólum, á íþróttakappleikum og við önnur svipuð tækifæri. Í grg. segir m.a.:

,,Tæpast er nokkur ágreiningur um tign og fegurð íslenska þjóðsöngsins og ekki er vafi á því að hann stendur djúpum rótum í vitund þjóðarinnar sem eitt helsta tákn þjóðernis okkar og sjálfstæðis. Hitt er annað mál hvort ,,Ó, Guð vors lands``, sem er lofsöngur trúarlegs eðlis eins og nafnið ber með sér, getur að öllu leyti þjónað hlutverki þjóðsöngs við þær fjölbreytilegu aðstæður sem skapast geta á okkar tímum. Tilgangurinn með flutningi þessarar þáltill. er ekki sá að ,,Ó, Guð vors lands`` verði aflagður sem þjóðsöngur Íslendinga heldur sá að athugað verði hvort rétt sé að taka upp við hlið núverandi þjóðsöngs annan söng sem betur hentaði við ýmis minna hátíðleg tækifæri.

Lofsöngurinn ,,Ó, Guð vors lands`` var fyrst fluttur við hátíðarguðþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík 2. ágúst 1874 í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi. Matthías Jochumsson orti ljóðið þegar hann dvaldist í Edinborg og London haustið og veturinn áður og Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið síðla vetrar 1874. Það mun ekki hafa verið í huga höfunda að þeir væru að semja þjóðsöng handa Íslendingum og það tók langan tíma fyrir ,,Ó, Guð vors lands`` að vinna sér sess sem þjóðsöngur.

Íslenska ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu við þjóðsönginn árið 1948 og að ljóðinu árið 1949. Alþingi samþykkti síðan árið 1983 lög um þjóðsöng Íslendinga.``

Tilgangurinn sem fyrr segir með flutningi þessarar þáltill. er ekki sá að Ó, Guð vors lands verði aflagður sem þjóðsöngur Íslendinga heldur sá að athugað verði hvort rétt sé að taka upp við hlið núverandi þjóðsöngs annan söng sem betur hentar við ýmis minna hátíðleg tækifæri. Að margra dómi er það misnotkun á Ó, Guð vors lands að flytja hann á íþróttakappleikum og útisamkomum, oft af takmarkaðri getu og við ýmiss konar aðstæður. Þátttaka okkar Íslendinga í landsleikjum í ýmsum íþróttagreinum hefur aukist hin síðari ár og eins og allir vita er þjóðsöngur þeirra landa sem eigast við í keppni leikin í upphafi leiksins. Keppendur og áhorfendur viðkomandi þjóðar taka gjarnan rösklega undir og oftar en ekki myndast sterk þjóðernistilfinning við slík tækifæri. Hins vegar er það gjarnan svo að þegar við Íslendingar tökum þátt í landsleik fá margir ónotatilfinningu eða kvíðatillfinningu. Ástæðan er sú að þjóðsöngurinn okkar hefur ekki þau áhrif sem slík stund gefur tilefni til. Margir segjast kvíða þessari athöfn í stað þess að í viðkomandi tilfellum ætti þjóðsöngurinn að efla samkennd og hvetja til dáða. Sjálf hef ég upplifað það við setningu kappleikja að á meðan keppendur annarra þjóða tóku rösklega undir þegar þeirra þjóðsöngur var leikinn, stóðum við Íslendingarnir hljóðir og niðurlútir. Slíkt er svo sannarlega ekki til þess fallið að efla samkennd og keppnisanda.

[18:15]

Það sem einnig hefur breyst á síðari árum er að lengd þjóðsöngs við notkun á íþróttalandsleikjum og stórmótum, svo sem á Ólympíuleikum, er hámark 75 sekúndur og þess vegna verður að breyta tónhraðanum þannig að um algera afbökun verður að ræða og flutningurinn í engu samræmi við þann anda sem höfundarnir ljáðu verki sínu. Engum Íslendingi er greiði gerður með slíkri afbökun, hvorki höfundunum né hlustendum.

Í skólum landsins er gjarnan mikið sönglíf. Margir tónmenntakennarar eru mjög kappsamir og kenna nemendum sínum mörg ný og eldri lög. Sumir kennarar leggja mikinn metnað í að kenna nemendum sínum þjóðsögninn, en aðrir gera það síður. Í leikskólum landsins er mikið sungið en því miður er mjög sjaldgæft að þjóðsöngurinn sé kenndur. Ástæðan er einfaldlega sú að lagið er svo erfitt í söng að það er ekki á færi svo ungra nemenda að flytja það, enda þótt vilji sé fyrir hendi. Þetta er mjög miður því mjög æskilegt væri að geta kennt börnum að virða og meta þjóðsönginn strax á leikskólaaldri.

Það hefur vakið athygli mína að undanförnu að þjóðsöngurinn virðist ekki vera nothæfur við ýmis tækifæri, þegar stilla á saman strengi, svo sem við stórafmæli, vígslur og fagnaðarfundi. Nýlega sat ég 50 ára afmæli Fósturskóla Íslands og í lok athafnarinnar var þjóðsöngurinn ekki sunginn heldur Ísland ögrum skorið. Það sama var gert í 20 ára afmæli Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem haldið var hátíðlegt fyrir nokkru. Á afmæli Reykjavíkurborgar sl. sumar hefði mátt reikna með að þjóðsöngurinn mundi hljóma en þar var Ísland er land þitt fyrir valinu sem hátíðarsöngur. Þegar fyrrv. forseti Vigdís Finnbogadóttir var kvödd á Lækjartorgi í sumar var þjóðsöngurinn ekki sunginn þrátt fyrir að vant söngfólk réði þar ferðinni, heldur var lagið Hver á sér fegra föðurland sungið. Hins vegar var þjóðsöngurinn sunginn af Dómkórnum í Alþingishúsinu í lok athafnar þegar nýr forseti Ólafur Ragnar Grímsson var settur í embætti.

Því miður virðist þjóðsöngur okkar Ó, Guð vors lands ekki lengur vera sá söngur sem almennt er notaður við hátíðleg tækifæri þegar slíkt væri þó eðlilegt. Það er jafnframt athyglisvert að yfirleitt eru það sömu lögin sem koma í staðinn, Ísland ögrum skorið, Eg vil elska mitt land, Hver á sér fegra föðurland og Ísland er land þitt. Mér finnst þetta mjög skýr vísbending um að fólk sneiðir hjá þjóðsöngnum vegna þess hve erfiður hann er í söng og velur önnur lög sem fólk kann og getur auðveldlega sungið og sem fólki finnst að skapi þá stemningu sem þjóðsöng er ætlað að gera.

Við endurskoðun á lögunum um íslenska þjóðsönginn mætti hugsa sér að finna annað lag sem gæti þjónað því hlutverki að vera þjóðsöngur við ákveðin tilefni. Margir íslenskir söngvar gætu þjónað þessu hlutverki og hafa unnið sér sess í hugum íslensku þjóðarinnar sem slíkir. Þar á meðal eru þeir söngvar sem ég hef þegar nefnt. Einnig má nefna lagið Úr útsæ rísa Íslands fjöll eftir Pál Ísólfsson og eflaust mætti nefna fleiri. Einnig kæmi til greina að hafa samkeppni meðal ljóðskálda og tónskálda þjóðarinnar um nýjan þjóðsöng. Vel væri við hæfi að vígja slíkan söng á aldamótaárinu 2000. Eftir sem áður mundi Ó, Guð vors lands þjóna hlutverki sínu sem þjóðsöngur við hátíðlegustu tækifæri, trúarlegs og veraldlegs eðlis.

Herra forseti. Það er von mín að sú till. til þál. sem ég hef mælt fyrir fái jákvæða umfjöllun og hljóti samþykki Alþingis. Vafalaust verða ekki allir á einu máli en mestu máli skiptir að málið fái málefnalega umfjöllun og verði skoðað frá öllum hliðum. Því verður varla á móti mælt að okkar fagri þjóðsöngur er ekki þjóðareign á þann hátt sem mér virðist þjóðsöngvar annarra landa vera, heldur hefur hann þróast upp í það að vera stáss sem einungis er gripið til við hátíðlegustu tækifæri. Okkar vantar þjóðarsöng og það væri vel við hæfi að við gæfum okkur hann við upphaf nýrrar aldar.

Ég vona að þessi tillaga verði rædd og fari síðan til allshn.