1996-10-15 13:50:53# 121. lþ. 8.6 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[13:50]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Samkvæmt greinargerð með þessari till. til þál. um fullgildingu úthafsveiðisáttmálans kemur fram að tilgangur sáttmálans sé að ná utan um allar veiðar, ná stjórn á þeim vegna þess að hafréttarsáttmálinn tekur ekki til úthafsveiðanna en samkvæmt hafréttarsáttmálanum er veiði á úthöfunum frjáls. Menn telja að vegna þessa frelsis hafi sókn í veiðar á úthafinu aukist svo mjög að nú þurfi að grípa til aðgerða. Það þurfi að reyna að ná utan um þær veiðar einnig. Ég er sammála því sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að langtímahagsmunir okkar eru auðvitað í því fólgnir að það takist að stjórna fiskveiðum þannig að fiskstofnarnir skaðist ekki og við getum sem þjóð haldið áfram að nýta auðlindir hafsins þannig að þær geti verið okkur uppspretta lífsgæða og við getum unnið í sátt við okkar umhverfi. En það kemur einnig fram, eins og til frekari áréttingar á nauðsyn þess að samningurinn verði samþykktur, að 70% fiskstofna í heiminum eru fullnýttir, ofnýttir eða að hruni komnir. Þar er vitnað í skýrslu FAO sem er skammstöfun fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Ég hef séð þessa tölu ganga aftur og aftur í ýmsum gögnum og étur þar hver upp eftir öðrum. Ég verð að segja eins og er að fyrst þegar ég las þessa tölu rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds því satt best að segja hljómar þetta ákaflega illa. Þetta hljómar raunar þannig að mér fannst að það hlyti að verða að grípa til ráðstafana og það frekar róttækra ráðstafana og þannig veit ég að þessi tala virkar á aðra. En þegar skoðað er hvað stendur í nefndri FAO-skýrslu, þegar þessi tala er sundurgreind þá kemur allt annað í ljós. Í grg. með þáltill. stendur að um 70% fiskstofna séu fullnýttir, ofnýttir eða að hruni komnir. Tölurnar eru hins vegar þannig að 43% fiskstofnanna eru fullnýttir. Þeir eru fullnýttir þannig að um er að ræða sjálfbæra nýtingu, þ.e. nýting náttúruauðlindanna er í jafnvægi. Þetta á við um 43%. Það stendur að 23% fiskstofnanna séu vannýttir og jafnframt að 9% fiskstofnanna séu ónýttir með öllu. Það kemur jafnframt fram að 3% fiskstofnanna séu að ná sér, þar með talinn þorskstofninn okkar. Það kemur sem sé fram ef maður vill líta á málið frá þessu sjónarhorni að 75% fiskstofnanna í heiminum eru vannýttir eða eðlilega nýttir og 3% að auki á batavegi eða, sé sambærilegri reikningskúnst og í grg. beitt, að um 80% fiskstofna í heiminum séu bara í bærilegu lagi, takk fyrir. Svona er hægt að stilla þessu upp ef við viljum líta jákvætt á stöðuna og þetta er raunsærra mat en það sem felst í þeirri fullyrðingu sem fram kemur í greinargerðinni. Ég vil segja það hér, af því að þetta er án athugasemda látið fljóta inn í greinargerð með þessari þáltill., að við Íslendingar þurfum ekki hræðsluáróður af þessu tagi til að segja okkur að nauðsynlegt sé að taka tillit til náttúrunnar og vernda þá fiskstofna sem í hættu kunna að vera. Við hljótum að velta því fyrir okkur af hverju við, athugasemdalaust, stillum málum svona upp. Sjá menn ekki að hér er verið að stilla upp áróðursstöðu fyrir þá sem vantar vopn gegn fiskveiðiþjóðum eins og okkur? Sjá menn ekki að upplýsingar eins og þessar eru matreiddar á þennan hátt til þess að sannfæra fólk, t.d. kaupendur afurða okkar erlendis, að nánast allt sé í hættu, að fiskveiðiþjóðir eins og við séum búnar að koma fiskveiðunum á vonarvöl, séum u.þ.b. að rústa öllu? Sjá menn ekki að svona uppstilling er auðvitað notuð til þess að sannfæra fólk um að þorskur og ýsa þurfi almennt að vera á válista án tillits til þess að um mismunandi stofna geti verið að ræða og í mismunandi ástandi?

Við þekkjum vel úr hvalaumræðunni að það að hvalastofn í Miðjarðarhafi er í hættu, er notað sem rök fyrir verndun hvalastofna á norðurslóðum. Ætlum við að samþykkja sömu vinnubrögð gagnvart fisveiðum? Af hverju tökum við þátt í að stilla málum upp með þessum hætti? Af hverju látum við svona túlkanir fljóta athugasemdalaust inn í okkar pappíra? Við þekkjum af skýrslum, blaðaskrifum og fjölmiðlum, áhuga samtaka á því að banna veiðar á bræðslufiski, að banna veiðar frystitogara, að banna að nota íslenska kvótakerfið eða a.m.k. að nota það til að ráðast gegn fiskveiðum okkar af því þær byggja á markaðslausnum sem eru eitur í beinum ýmissa aðila. Þannig er að þó að einstaka fiskstofnar í heiminum kunni að vera ofveiddir, þó að um svæðisbundin vandræði geti verið að ræða, þá megum við ekki láta upplýsingar um slíkt og matreiðslu á þeim ganga aftur í okkar pappírum eins og um heilagan sannleik sé að ræða. Og allra síst ef á að nota það sem rök fyrir hertum aðgerðum, aðgerðum sem beinast síðan fyrst og fremst að okkur sjálfum. Til þess eigum við allt of mikið í húfi að réttar upplýsingar séu til staðar og að túlkun þeirra gefi rétta mynd af ástandinu.

Ég gat ekki stillt mig, herra forseti, að benda á þessar staðreyndir vegna þess að við verðum að vara okkur á því hvaða upplýsingar er verið að matreiða fyrir okkur og hvað liggur að baki þeim þegar þessir grundvallarhagsmunir okkar eru í veði, eins og fiskveiðarnar og það að við fáum að stunda okkar fiskveiðar eðlilega en séum ekki ofurseld því að einstök samtök umhverfisverndarsinna eða þeirra sem telja sig slíka hafi áhrif á viðhorf, ekki bara kaupenda okkar afurða heldur jafnvel okkar sjálfra, á því hvað við höfum okkur til lífsviðurværis.

Það stendur líka í greinargerðinni og þá er ég komin yfir í aðra sálma, að samkvæmt frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands séu sköpuð skilyrði til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi. Ég hef lagt á það áherslu í umfjöllun minni um frv. um úthafsveiðarnar að það sé eðlilegt að látið sé reyna á stjórnmálalegan vilja Alþingis áður en við förum í þá lagasetningu. Það liggur ekki svo á. Við eigum að gefa okkur þann tíma sem við þurfum. Það er alveg ljóst þegar við lítum til samningsins að hvað svo sem menn vilja og hvernig svo sem menn vilja sjá þetta þá er það veiðireynslan sem skiptir öllu máli. Hún er aðgöngumiðinn. Til þess verðum við að taka tillit. Þess vegna skulum við taka hlutina í réttri röð og vinna þá þannig að við gætum okkar hagsmuna. Það gera það ekki aðrir fyrir okkur.