Veiðileyfagjald

Þriðjudaginn 15. október 1996, kl. 16:00:27 (341)

1996-10-15 16:00:27# 121. lþ. 8.7 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:00]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni um þetta mál í seinustu viku lýsti ég þeirri grundvallarafstöðu okkar kvennalistakvenna að ávallt verði að tryggja að fiskurinn í sjónum, auðlindin sem þjóðin lifir á, sé sameign þjóðarinnar og hana verði að nýta á sjálfbæran hátt.

Ég vil ítreka þá skoðun að langalvarlegasta gagnrýnin sem nú er uppi á kvótakerfið tengist eignarréttarmyndun útgerðarinnar á fiskstofnum, að þrátt fyrir 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sé að myndast ígildi eignarréttar. Þetta verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum að mínu mati, ef gagnrýnin er rétt.

Á síðasta landsfundi Kvennalistans sem haldinn var í nóvember 1995 var samþykkt að ef ekki næðist veruleg uppstokkun á núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar í þá átt sem er útfærð í okkar stefnuskrá, þar sem m.a. er lögð áhersla á byggðakvóta og að miðunum verði skipt upp í grunnsjávarmið og djúpsjávarmið, þar sem nýting grunnsjávarmiða verði í höndum kjörinna fulltrúa byggðarlaga, þá telji Kvennalistinn mikið réttlætismál að styðja hugmyndir um veiðileyfagjald eða aflagjald, að þjóðin fái greitt fyrir afnot af auðlindinni í stað þess að þessi takmörkuðu gæði séu afhent æ færri útgerðarmönnum frítt sem síðan versla með þau sín á milli og láta kvótann ganga í erfðir til barna sinna.

Á því ári sem síðan er liðið hefur óánægjan með fiskveiðistjórnunarkerfið farið sívaxandi. Það er nöturlegt að heyra þá sem vel til þekkja lýsa því á fundi um sjávarútvegsmál, sem haldinn var í Keflavík nú fyrir skömmu, að þetta tímabil verði síðar meir skoðað sem svartasta tímabil í atvinnusögu Íslendinga.

Sú sem hér stendur varaði við því í umræðum um málið í fyrri viku að veiðileyfagjaldi yrði komið á með þeim hætti að það styrkti það sjónarmið að litið verði á veiðiheimildir sem einkaeign. Um leið ítrekaði ég helstu galla núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Ég benti m.a. á að ný félagsleg skil væru að myndast. Það var talað um sægreifa og leiguliða. Ég talaði um byggðavanda, um að eignarhald væri að færast á æ færri hendur og að öllu þessu fylgdi mikil siðferðileg upplausn og réttlætiskennd margra væri misboðið.

Ég fagna því innilega að formaður Framsfl. og landsfundur Sjálfstfl. hafa ítrekað það sjónarmið að fiskstofnarnir verði sameign þjóðarinnar og tel mjög mikilvægt að þróa kerfið áfram þannig að þjóðarsátt náist um það.

Ein leiðin til þess að ekki verði mótsögn milli kerfisins og sameignarákvæðisins er að halda lítið breyttu aflamarkskerfi og setja veiðileyfagjald á eins og hér er lagt til. Ef þessi leið yrði farin ætti að mínu mati að leigja kvóta til skamms tíma í senn eða lengri tíma með árlegum markaðstengdum greiðslum sem væntanlega yrðu hærri en málamyndagjald. Þetta gjald yrði síðan notað til hagsbóta fyrir þjóðina alla hvort sem er til að lækka tekjuskatt eða borga fyrir hafrannsóknir eða eitthvað annað.

Þetta þarf einungis að gerast þannig að sameignarákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna verði virkt. Slíkt væri að sjálfsögðu hægt að gera með beinni skattlagningu ef það er eitthvert lykilatriði hvað þetta heitir. Þessi leið er þó að mínu mati ekki sú sem líklegust er til þjóðarsáttar um þessar mundir. Í því sambandi tel ég mikilvægast að taka fyrir svokallað kvótabrask og hætta að úthluta kvóta frítt til þeirra sem ekki stunda veiðar á meðan þeir sem veiða fiskinn, leiguliðarnir, verða að greiða sægreifunum fyrir.

Mikilvægar sáttaaðgerðir sem ég tel að þingið verði að skoða núna eru t.d. þær að allur fiskur fari á markað, að allur munaðarlaus kvóti verði boðinn upp af ríkinu og fari til almannaheilla, að kvóta verði úthlutað til byggða, sjómanna og fiskvinnslu eða annarra en útgerðarmanna, eða að taka í auknum mæli upp sóknarstýringu.

Framsal á aflaheimildum eða á sóknardögum er mjög umdeild aðgerð en það er viðurkennt jafnframt að það er til hagræðingar í kerfinu og við hljótum að fagna og stefna að aukinni hagræðingu. En hún má ekki verða til þess að gengið sé fram af réttlætiskennd fólks og að allt að því byltingarástand skapist eins og nú er í þjóðfélaginu.

Ég vil í þessu sambandi benda á umfjöllun um hagfræðing nokkurn, Amartya Sen, í nýju tímariti Times, Higher Edu\-cation Supplement. Þessi hagfræðingur hefur verið orðaður við nóbelsverðlaun. Hann heldur því fram að hagfræðingar verði í auknum mæli að taka siðferðilega afstöðu til sinna módela svipað og vísindamaðurinn verði að gera til kjarnorkumála. Hagfræðingar smíði í vaxandi mæli módel sem gangi ekki upp siðferðilega. Auður fárra leiðir nefnilega ekki til almennar velsældar eins og kemur fram í greinargerðinni með þessari tillögu.

Ég tel að þannig sé ástatt með okkar fiskveiðistjórnunarkerfi og þess vegna verði að breyta því. Fólk lætur ekki bjóða sér þetta kerfi lengur hvort sem það er fiskvinnslufólk, sjómenn, íbúar í sjávarbyggðum eða almenningur í landinu sem á auðlindina. Það kerfi sem nú er við lýði er eingöngu að skapi sægreifa og þeirra sem þegar maka krókinn á því að fá auðlind þjóðarinnar afhenta á silfurfati.

Varðandi þá hugmynd sem fram kemur í greinargerð, að aðskilja alveg hugmyndir um fiskveiðistjórnun og skattlagningu á auðlindinni eða veiðileyfagjald, þá tel ég að það vanti mikið upp á að þær hugmyndir séu skýrar þó vissulega séu þær umhugsunarverðar. Vissulega er mikilvægt að Íslendingar komist út úr þeirri stöðu að lifa 80% á einni auðlind. Það er kominn tími til að aðrir atvinnuvegir komi sterkar inn í þessa mynd og hugsanlega er álagning veiðileyfagjalds skref í þá átt.

Ég ítreka því að þessi tillaga er vel til þess fallin að þróa áfram umræður um fiskveiðistjórnunarkerfið annars vegar og réttlæti í tekjuskiptingu þjóðarinnar hins vegar. Forsendan er og verður að vera skýr, að hvergi sé hvikað frá því sjónarmiði að þjóðin eigi fiskstofnana og njóti afrakstursins af þeim. Ef óbreytt kerfi fiskveiðistjórnunar verður ofan á, eins og því miður má vænta eftir landsfund Sjálfstfl., þá verður annaðhvort að koma til, gjaldtaka í formi veiðileyfagjalds eða aukin skattheimta á fiskveiðiarðinn eins og formaður Framsfl. hefur aðeins opnað á. Þetta er stærsta mál stjórnmálanna í dag og verður að fá grundvallarumræðu strax.

Það er mitt mat að það muni ráðast á næstu vikum þessa þings hvort þjóðarsátt næst um málið eða hvort þetta verður mál málanna í næstu kosningum.