Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 16. október 1996, kl. 15:40:05 (390)

1996-10-16 15:40:05# 121. lþ. 9.4 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur

[15:40]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur farið út í býsna almennar umræður um þingsköp og sýnir kannski að það er mikil þörf á því að gefa þingmönnum almennt tækifæri til þess að ræða þau. Ég hefði óskað þess að fleiri þingmenn væru viðstaddir og úr fleiri flokkum því ég býst við að það hafi nánast hver einasti maður skoðanir á þessum málum og hugmyndir um það hverju megi breyta þó að þær skoðanir kunni að vera býsna skiptar.

Mér hefur fundist frá því að ég kom hér fyrst inn fyrir dyr að mörgum þingmönnum eins og reyndar kannski almenningi svona yfir höfuð, og nú fullyrði ég kannski nokkuð stórt, sé afskaplega illa ljóst hvað felst í þrískiptingu ríkisvaldsins. Mér finnst ég hafa rekist á það mjög oft að fólk og þar með taldir þingmenn greina ekki þarna á milli, þ.e. hvað felst í þessari grundvallarreglu okkar stjórnarskrár. Hún á sér náttúrlega fyrirmyndir í dönsku stjórnarskránni frá 1849 sem síðan sækir sínar hugmyndir m.a. til frönsku byltingarinnar og amerísku stjórnarskrárinnar og hugmynda sem mjög voru til umræðu undir lok 18. aldar. Þær áttu sér aftur rætur í því hvernig konungsvaldið fór með völdin í hverju ríki, þar sem konungur og aðall réðu dómstólunum og dæmdu menn jafnvel til lífsláts af minnstu sökum og stjórnuðu því hvernig dómar voru upp kveðnir. Þeir réðu því hvaða lög ríktu í landinu og þeir fóru með lögin og framkvæmdarvaldið eins og þeim sýndist. Því var það að hugsuðir allt frá því á 17. öld fóru að þróa hugmyndir um það hvernig nauðsynlegt væri að skapa stjórnendum aðhald, hvernig dómsvaldið ætti að tryggja að lögum væri framfylgt og að framkvæmdarvaldið væri ekki sífellt að traðka á þegnunum.

Mér hefur oft fundist að hér væri þessum sviðum blandað óþarflega mikið saman. Ég kom aðeins inn á það í umræðu á mánudag að því er ég hygg þegar önnur tillaga var til umræðu um breytingar á stjórnarskránni. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þau mál. En ég tel að við þurfum að þróa þessa skiptingu nánar. Þar getur margt komið inn í, bæði til þess að styrkja dómsvaldið og til þess að styrkja löggjafarvaldið. Mér finnst að framkvæmdarvaldið sé mjög sterkt hér á landi. Það lýsir sér m.a. í því að það er framkvæmdarvaldið sem skipar dómara og stjórnar því hverjir sitja í þeim stöðum. Þetta er allt saman arfur sem við fengum frá danska stjórnkerfinu og einhvern veginn hefur mönnum ekki dottið í hug að gera á þessu neinar breytingar. Við erum kannski smátt og smátt að stíga skref, eins og með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis, eins og með því að færa Ríkisendurskoðun undir Alþingi, til að efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. En það er ýmislegt fleira sem við þurfum að gæta að í því samhengi, eins og hér hefur nefnt, t.d. hvort ráðherrar eiga að sitja á Alþingi og þetta sem okkur finnst mörgum að þurfi að breyta, þ.e. hvernig Alþingi er kallað saman, sem er líka arfur frá því þegar konungur kallaði þing saman, og hvernig þinginu er slitið. Auðvitað er það þingið sjálft sem á að ráða því hvenær og hvernig það hefur sín störf og hvenær þingi lýkur og fleira af því tagi.

En það er þetta innra starf sem ég ætlaði fyrst og fremst að ræða og inntak tillögunnar. Það fléttast kannski ýmislegt inn í þessar hugleiðingar. Ég er algerlega sammála þessari tillögu. Að vísu tel ég að það sé í sjálfu sér ekkert í núverandi þingsköpum sem bannar þingnefndum að halda opna fundi. Núna í sumar hélt umhvn. ráðstefnu á sínum vegum þar sem einmitt var verið að kanna og fjalla um ákveðin málefni sem snerta svið nefndarinnar. Efh.- og viðskn. hefur haldið eins konar námstefnu eða námskeið, að vísu fremur lokað, fyrir nokkrum árum og ég veit að uppi eru hugmyndir um fleiri slíkar.

[15:45]

Ég hef sjálf verið að velta fyrir mér hugmynd um eins konar ráðstefnu eða opinn fund eða opna yfirheyrslu eða hvað á að kalla það um vinnumarkaðsmál. Það er fremur óljóst í huga mínun í hvaða farveg ég á að fara með það mál. Við í félmn. ákváðum í fyrravor að taka eitt ákveðið mál til sérstakrar skoðunar. Það verður að segjast eins og er að hæstv. félmrh. tók því ekki vel í fyrstu. Honum fannst greinilega að það væri verið að fara eitthvað inn á hans verksvið en ég held að hann hafi nú áttað sig á því að nefndin var fyrst og fremst að kynna sér ákveðið mál. En þegar þeirri skoðun á málinu var lokið komu líka upp spurningar um hvað átti að gera við niðurstöðuna. Hvert átti hún að fara? Ég skrifaði forseta þingsins og forsn. og bað hreinlega um úrskurð hvað ætti að gera við niðurstöðuna. Niðurstaðan varð sú að það ætti að dreifa þessari skýrslu í hólf þingmanna þannig að allir þingmenn fengu niðurstöðu nefndarinnar í sínar hendur en síðan hefur málinu lítið verið fylgt eftir. Það eru því ýmis dæmi um að nefndir hafa verið að þreifa sig áfram inn á þessar brautir.

Ég skil tillögu hv. þm. eða kýs að skilja hana þannig að hún sé m.a. að leggja til að við færum okkur í átt til þess sem tíðkast hefur í bandaríska þinginu, þar sem mjög algengt er að nefndafundir eru haldnir fyrir opnum dyrum þar sem bæði fjölmiðlar og gestir eru viðstaddir. Þar á sér stað það form sem á ensku er kallað ,,hearing`` og tíðkast reyndar mjög víða í alþjóðlegum stofnunum eins og t.d. í Evrópuráðinu þar sem menn kynna sér oft mál með því að efna til svona yfirheyrslu --- yfirheyrsla er nú kannski frekar neikvætt orð. Ég veit ekki hvað við ættum að kalla þetta, upplýsingafund eða eitthvað slíkt --- þar sem menn mæta sem þekkja málið frá ýmsum hliðum og gera grein fyrir sínum skoðunum.

En það er annað form sem tíðkast í Bandaríkjunum og tengist einmitt aðhaldshlutverki bandaríska þingsins sem er m.a. það að kanna hvort ráðherrar eða embættismenn og ekki síst dómarar eru færir um að gegna þeim störfum sem verið er að fela þeim. Það er hlutverk bandarískra þingnefnda að kanna hvort menn eru hæfir. Þess eru allnokkur dæmi að bandarískar þingnefndir hafa komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi tilnefning sem kemur frá framkvæmdarvaldinu sé ekki réttlætanleg og hafa hafnað viðkomandi. Þess eru m.a. dæmi um menn sem átti að skipa sem hæstaréttardómara. Í Bandaríkjunum er það reyndar forsetinn sem kemur með tillögu um það hverjir skuli gegna embættum hæstaréttardómara og þingið verður að staðfesta það, en aðrir dómarar eru hreinlega kjörnir af almenningi. Þannig að það eru ýmsar aðferðir sem tíðkast. Ég held að við ættum að feta okkur inn á þær brautir að vera með kannanir eða rannsóknir á einstökum málum og gera það fyrir opnum tjöldum til þess fyrst og fremst að upplýsa, á meðan við höfum ekki það hlutverk t.d. að kanna hæfi embættismanna ríkisins sem ég hygg að sé nokkuð langt í að við fáum að gera hér.

Það má nefna ýmislegt úr þingsköpum og störfum þingsins sem þyrfti að skoða betur. Eitt af því er t.d. það hvernig við eigum að fara að þegar mál sem koma hingað inn heyra undir fleiri nefndir. Hvernig á að fara með þau mál? Á að senda þau á milli nefnda? Ég tek dæmi um frv. sem við vorum með til meðferðar í fyrra og varðaði snjóflóð og skriðuföll. Ég man nú ekki rétta heitið á lagafrumvarpinu. Þar komu að málum umhvn., allshn. og félmn. og reyndar fór skylt mál inn í efh.- og viðskn. Þarna var brugðið á það ráð að þessar þrjár nefndir héldu sameiginlegan nefndafund og urðu að fá lánað til þess húsnæði því aðstaða fyrir slíkan fund, þar sem að fleiri nefndir eiga í hlut, er ekki til ráðstöfunar í því húsnæði sem Alþingi hefur á leigu eða á. Það er einmitt eitt af því sem stendur þessari tillögu fyrir þrifum, að ef við erum að ræða um stærri nefndafundi þá þarf að leita eitthvað annað. Þetta finnst mér vera mál sem nauðsynlega þarf að skoða. En hvernig á að fara með svona frv.? Það er mjög óljóst í þingsköpunum.

Eins er varðandi skýrslur Ríkisendurskoðunar. Af einhverjum ástæðum hefur fjárln. tekið það hlutverk að sér að fara yfir flestar þær skýrslur þó þær í rauninni heyri að sáralitlu leyti undir hana. Ég get tekið sem dæmi að það er nýbúið að leggja fram stjórnsýsluendurskoðun á Húsnæðisstofnun ríkisins. Við í félmn. höfum í hyggju að fara yfir þessa skýrslu. Þetta er stofnun sem heyrir undir verksvið nefndarinnar. En ég veit að fjárln. ætlar að gera það líka. Kannski er það allt í lagi og ekkert við því að segja og gott að fleiri þingmenn og þingnefndir skuli fara ofan í skýrslu af þessu tagi. En hver á að hafa þetta verkefni? Það er algjörlega óljóst og ekkert er um það fjallað í þingsköpum hvernig með þetta skuli farið.

Eitt atriði sem nefnt var fyrr í umræðunni er um meðferð mála. Þar hefur mér sýnst að þróunin í nefndum sé mjög í þá átt að reyna að afgreiða öll mál sem fyrir nefndinni liggja á einhvern hátt. Það gerðum við t.d. í félmn. Þar var farið í gegnum hvert einasta mál og ákveðið hvað með það skyldi gert, í flestum tilfellum í samráði við flutningsmenn sem stundum mæltu með því að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Stundum vildu þeir að málið yrði ekki afgreitt út úr nefndinni. Þeir vildu það sem sagt ekki ef ekki var meiri hluti fyrir því þannig að þeir ættu þess kost að koma með málið aftur á næsta þingi og þar fram eftir götunum. En hvert einasta mál var afgreitt. Ég hygg að það sama megi segja um ýmsar nefndir þingsins. Ég kynntist því t.d. á síðasta kjörtímabili að það var gert í menntmn. Þar var hvert einasta mál afgreitt. Það á auðvitað að gera. Kannski á að ganga lengra og sjá til þess að hvert einasta mál komi aftur til baka inn í þingið. Það er eitt af því sem þarf að vega og meta. En menn vilja kannski síður láta fella fyrir sér mál.

Hér hefur verið nefnt hvort það væri hugsanlega betra kerfi að kjósa nefndir eftir þeim málum sem upp koma í stað þess að hafa þetta fastanefndakerfi sem hér er. Ég hallast nú að því, án þess að hafa hugsað málið mjög mikið, að það kerfi að hafa fastanefndir hafi mjög mikinn kost. Það hefur þann kost að fólk fylgist með málum ár eftir ár, fylgir þeim eftir og fær ákveðna yfirsýn yfir málaflokkinn í stað þess að hugsanlega væri alltaf verið að kjósa nýtt og nýtt fólk til að sinna málunum. Það er meiri festa og auðveldara að skipuleggja það að þingmenn kynni sér viðkomandi málaflokk mjög rækilega. Það kann vel að vera að það hafi mikla kosti að kjósa fleiri sérnefndir og ganga lengra inn á þær brautir. Það má vel vera. Ég átta mig hreinlega ekki á því. Það er mjög algengt í ýmsum öðrum þingum að kjósa bæði undirnefndir og svokallaðar ad hoc-nefndir sem eru bara með tímabundin verkefni, þannig að þetta er með ýmsu móti.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að það er mjög brýnt að mínum dómi að skoða betur verkaskiptingu milli nefnda. Þar ríkir mjög mikið misvægi sem ég held að ráðist ekki bara af því að einstakir ráðherrar og ráðuneyti hafi verið í mikilli tiltekt eða þurft að glíma við mjög margvísleg og mörg verkefni, eins og t.d. gildir um fjmrn. og viðskrn. í tengslum við EES-samninginn eða dómsmrn. sérstaklega sem hefur verið mjög duglegt við að koma frumvörpum inn í þingið. Hvort tveggja hefur leitt til þess að allshn. og efh.- og viðskn. hafa verið mjög störfum hlaðnar á undanförnum árum. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að skoða þessi mál hvað varðar verkaskiptingu þingsins og hvort hugsanlega þurfi að gera þar einhverjar breytingar á.

Eitt mál að lokum, hæstv. forseti. Það væri hægt að hafa langt mál um eitt og annað sem snertir þingsköpin, en ég vil taka undir það að ég er nokkuð fastheldin á það að ekki sé verið að takmarka mjög ræðutíma manna meira en orðið er. Mér er sagt að á þingum Norðurlanda, þar sem ræðutími hefur verið skipulagður mjög nákvæmlega og er miklu styttri og með öðru fyrirkomulagi en við þekkjum, séu þingin líka orðin vægast sagt hrútleiðinleg og ákaflega lítið fjör í umræðum, að þar verði ekki sömu skoðanaskipti og við þekkjum hér.

Allra síðast er eitt í viðbót, hæstv. forseti. Það er um fjárlögin og meðferð þeirra. Að mínum dómi var það gott skref þegar sú breyting var gerð að fjárln. vísaði hluta fjárlagafrv. til fagnefnda. En ég hef ekki verið nógu ánægð með hvernig með það hefur verið farið. Fagnefndirnar hafa skilað áliti, stundum ítarlegu. Stundum hafa komið þar fram mjög markvissar ábendingar. En það hefur verið reynsla okkar að það hafi lítið verið með það gert. Það hefur verið kvartað yfir þessu við fjárln. Mín spurning er hvort það eigi ekki að skoða verksvið fjárln. sem hefur reyndar breyst mikið á undanförnum árum og hvort ekki eigi að ganga lengra í því að færa verkefni og vald til fagnefndanna. Ég tek sem dæmi að fjárln. er að glíma við ýmiss konar styrkveitingar á ýmsum sviðum og fer mikill tími í það. Ég tek sem dæmi að í morgun var Kvenréttindafélagið og Kvennaathvarfið og fleiri aðilar að ræða við fjárln. en þeirra málefni heyra undir félmn. Ég varpa því fram hvort ekki væri nær að það væri félmn. sem færi yfir þessi mál og þá aðrar viðkomandi fagnefndir, rétt eins og þingmannahópar fara yfir vegamál sinna kjördæma. Það er ekkert samræmi í þessu. Eru vegamál kjördæmisins á Reykn. eða Norðurl. e. svo brýnt mál sem kallar á sérþekkingu þingmanna á því svæði, að það verði að haga málum svona? Hver eru rökin fyrir því að mál hafa þróast á þann veg að þeir eru kallaðir saman? Þeir gera tillögu en fagnefndir fá ekkert að koma að málum sem heyra undir þær þegar fjárveitingar eiga í hlut. Ég varpa þessu fram. Mér finnst að þessi breyting sem gerð var hafi haft þau góðu áhrif að þingmenn eru miklu betur að sér. Þeir eru miklu betur að sér um fjármál ríkisins og um það í hvað peningarnir fara. En mér finnst það vera spurning hvort ekki eigi að stíga skrefið lengra og færa meira vald til þingnefndanna hvað varðar fjárveitingar.

Hæstv. forseti. Ég hefði getað nefnt ýmislegt fleira en læt staðar numið og ítreka að ég tek undir efni þessarar tillögu.