Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 12:49:57 (424)

1996-10-17 12:49:57# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[12:49]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í ræðu sinni áðan hrósaði hæstv. fjmrh. sér af góðri fjármálastjórn og taldi frv. vera dæmi um það ef ég skildi hann rétt. En þegar ég les frv. yfir fæ ég ekki betur séð en að a.m.k. hluti ríkisstjórnarinnar hafi farið á eyðslufyllirí þegar þeir sáu hvað tekjur ríkisins voru að aukast og efnahagurinn að rétta úr sér. Hér er vægast sagt um ýmislegt sérkennilegt að ræða. Frv. einkennist í fyrsta lagi af því að menn hafa tekið ýmsar skjótar ákvarðanir um aðgerðir og breytingar, sérstaklega í húsnæðismálum. Í öðru lagi er að miklu leyti um endurtekna sögu að ræða, þ.e. vanáætlanir eða hreinlega bókhaldsbrellur eins og ég hef kallað það á undanförnum árum þar sem ríkisstjórnin er stöðugt að blekkja sjálfa sig og almenning um útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála þar sem augljóst er að tölurnar standast engan veginn. Þetta þrennt einkennir frv., ýmsar skyndiákvarðanir, endurtekin saga og vanáætlanir í ýmsum málum.

Mig langar til að fræðast um nokkur atriði af hæstv. fjmrh. Ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri ráðherra til að svara fyrir sín mál. Ég hefði talið það mjög eðlilegt í umræðu sem þessari og til of mikils ætlast að hæstv. fjmrh. kunni skýringar á öllu því sem hér er að finna.

Eins og fleiri vil ég nefna þá skyndiákvörðun að flytja forseta Íslands úr Stjórnarráðinu yfir í Sóleyjargötu 1. Ég hefði talið að sú ráðstöfun hefði mátt bíða ef menn eru að hugsa um fjárhaginn og að sýna aðhald og sparnað, þó ég sé eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir ekki að gagnrýna flutning í sjálfu sér. Ég held að vissulega sé nauðsynlegt að bæta aðstöðu forsetaembættisins. En þessi flutningur kallar ekki eingöngu á kaup á nýju húsi heldur breytingar og aðgerðir í sjálfu Stjórnarráðshúsinu. Sem áhugakona um gömul hús og varðveislu gamalla húsa, sem ég deili m.a. með hæstv. forseta þingsins, langar mig mjög að fá nánari skýringu á því hvort þarna er fyrst og fremst um viðgerðir og viðhald að ræða eða eru það einhverjar breytingar sem verið er að framkvæma. Þetta er friðað hús þannig að ég get ekki ímyndað mér að það séu miklar breytingar en þó getur verið um eitthvað slíkt að ræða en ég vildi gjarnan fá skýringu.

Það vekur athygli mína að hér er að finna upphæð til Byggðastofnunar, (Gripið fram í.) Ég var nú ekki að leggja það til. Þetta hús hefur reyndar gegnt fleiri hlutverkum en að vera stjórnarráðshús og fangelsi. Reyndar bjó landshöfðinginn Hilmar Finsen þarna um tíma og fleiri embættismenn Danakonungs en það er önnur saga.

Ég ætlaði að nefna Byggðastofnun. Hér kemur fram að verið er að leggja til 140 millj. kr. aukaframlag vegna aðgerða á Vestfjörðum til samruna fyrirtækja á Vestfjörðum. Þarna er verið að tala um sambærilegar aðgerðir og voru töluvert gagnrýndar hér fyrir um tveimur árum eða svo þegar ýmsum fannst að aðrir landshlutar þyrftu ekki síður á svipaðri aðstoð að halda, t.d. ýmsir hlutar Vesturlands. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvenær var þessi ákvörðun tekin og á hvaða grunni? Ég kannast ekki við að þetta mál hafi verið rætt einu orði í þingsölum. En það kann þó að hafa farið fram hjá mér. Hvenær var þessi ákvörðun tekin og er viðunandi að taka einn landshluta út úr eins og hefur verið gert hvað eftir annað? Enginn þingmaður Vestf. er staddur í salnum. Ég spyr í því samhengi að ég held að við á hinu háa Alþingi þurfum í mikilli alvöru að skoða stöðu, verkefni og hlutverk Byggðastofnunar. Ég tek undir það sjónarmið að ég stórefa að þessi stofnun og aðgerðir hennar hafi skilað þeim árangri sem til var ætlast. Það eru allt, allt aðrir hlutir sem stjórna því hvort fólk vill búa úti á landsbyggðinni eða hvort það vill flytja eitthvert annað. Við vitum að víða úti á landi er mjög öflugt atvinnulíf og hæstu meðaltekjur á landinu, m.a. á Vestfjörðum, en samt sem áður flytur fólk í burtu. Ég held að þær aðgerðir sem menn hafa verið að beita hér á undanförnum árum til einhvers konar aðstoðar í byggðamálum hafi að meira og minna leyti mistekist. Ég hvet til þess að þetta mál verði rætt af mikilli alvöru þegar skýrsla Byggðastofnunar verður hér til umræðu.

Ég fagna því að menntmrn. ætlar að styrkja Leikfélag Reykjavíkur í tilefni af 100 ára afmæli þess. Ekki veitir af að styrkja menninguna og við vitum að þarna er um merkilega starfsemi að ræða sem á því miður heldur í vök að verjast um þessar mundir.

Ég kem aðeins inn á utanrrn. sem var aðeins nefnt hér áður. Það vill svo til að fulltrúar utanrrn. voru að gera grein fyrir fjárlögum og fjárveitingum til ráðuneytis síns í utanrmn. í gær. Nú eru mjög strangar trúnaðarreglur sem ríkja í utanrmn. og ég vona að ég sé ekki að upplýsa neitt sem ekki má upplýsa. En það kom fram í máli þeirra, sem svo sem allir vita og er augljóst mál, að sífellt er verið að auka verkefni utanrrn. Sífellt er verið að hlaða á það nýjum og auknum verkefnum sem hafa í för með sér mikinn kostnað. Ráðuneytið á fullt í fangi með að sinna þessum verkefnum eins og hefur reyndar komið fram á undanförnum mánuðum og það er alveg augljóst að ráðuneytið er undirmannað. Í tengslum við þetta datt mér nú í hug þegar við horfum á þessi auknu verkefni og hvað okkar stjórnkerfi á í raun og veru í miklum erfiðleikum með að sinna öllu þessu alþjóðasamstarfi sem við erum í og fer stöðugt vaxandi, hvað ætli það mundi kosta ef við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu? Nú liggur við að hæstv. fjmrh. hnígi niður. Hér vitna ég til þeirra orða sem hæstv. forsrh. lét falla á landsfundi Sjálfstfl. þegar hann lýsti því að reglugerðafarganið frá Brussel og kostnaðurinn við aðildina að EES væru miklu meiri en menn hafi gert sér grein fyrir. Ég minnist þess að í þeim miklu umræðum sem þá urðu var hæstv. þáv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, spurður aftur og aftur og aftur hvað þetta mundi kosta. Hvaða kostnað hefði aðildin að EES í för með sér? Við því fengust aldrein nein svör. Það var greinilega sama hvað það mundi kosta, það skipti engu máli í því dæmi. Það hefur komið í ljós að þetta er mjög stórt verkefni auk annars, hafréttarmála og samninga sem snerta fiskveiðar sem greinilega kallar á stöðugt meiri átök. Þetta kallar allt á aukin ferðalög, aukna vinnu og hefur í för með sér mikinn kostnað. Þetta er mál sem við þurfum að skoða mjög rækilega. Því mætti m.a. velta fyrir sér hvort einhverjar tilfærslur gætu átt sér stað á stöðugildum milli ráðuneyta. Eru öll ráðuneytin það ásett verkefnum að ekki væri hægt að hugsa sér einhverja tilfærslu?

Hæstv. forseti. Ég ætla að nefna það sem kemur fram varðandi félmrn. og varðar Framkvæmdasjóð fatlaðra. Þetta mál kemur mér spánskt fyrir sjónir því þegar fjárlög þessa árs voru til umræðu á haustmánuðum á seinasta ári var harðlega gagnrýnt hvernig verið var að taka hluta af erfðafjárskattinum til annarra nota í stað þess að láta hann renna inn í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Svo gerist það að leitað er eftir því að fá 88 millj. kr. viðbótarheimild til að greiða til sjóðsins það sem vantaði upp á innheimtar tekjur. Félmrn. er sem sagt núna að heimta þessar tekjur, sem voru skornar niður, og reyndar nokkuð meira sýnist mér. Því var haldið fram í fyrra að þetta væri allt í lagi og engin þörf á þessu en það kemur ekkert fram hér til hvers á að nota þessa peninga eða hvar þörfin er. Ég átta mig satt að segja ekki alveg á því hvað hér er á ferð en hæstv. fjmrh. getur vonandi skýrt það. Ég átta mig ekki á því hvort framkvæmdir í málefnum fatlaðra hafa farið eitthvað fram úr áætlun þannig að það vantar peninga eða hvað er eiginlega þarna á ferð.

[13:00]

Þá eru það heilbrigðismálin sem ég ætlaði að gera að aðalefni máls míns. Ég ætla annars vegar að nefna að það er mjög fróðlegt að skoða tölur frá Þjóðhagsstofnun yfir framlög Íslendinga til heilbrigðismála. Nýlega kom fram að þegar OECD-ríkin eru skoðuð erum við í 16. sæti hvað varðar framlög til heilbrigðismála. Að vísu er ekki sama hvað er verið að skoða. Ég hef undir höndum mismunandi töflur eftir því hvað er miðað við og það eru mismunandi útreikningar á því hvað telst til heilbrigðismála. En samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar frá því í febrúar 1996 hafa útgjöld til heilbrigðismála lækkað sem prósentur af vergri landsframleiðslu. Ef við tökum t.d. árið 1991 voru útgjöld 7,05% af vergri landsframleiðslu en 1995 voru þau 6,86%. Reyndar voru þau samkvæmt þessum tölum lægst árið 1994. Það er því fróðlegt að sjá hvernig útkoman verður fyrir árið 1996 og hver áætlunin er fyrir árið 1997. Ef maður skoðar þessar tölur þá hafa útgjöldin lækkað vegna þess að við verðum að gera ráð fyrir að heilbrigðismálin haldi sínum hlut. Þegar þetta er skoðað í krónutölu er hins vegar um hækkun í krónum að ræða. En mergur málsins er auðvitað sá að þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu vex sífellt og á eftir að vaxa gífurlega á næstu árum og áratugum vegna þeirrar breytingar sem er að verða á aldursskiptingu og hæstv. fjmrh. gerði m.a. að umtalsefni í fyrstu ræðu sinni um fjárlög fyrir árið 1997.

Það sem mig langar til að rifja upp er sagan af því hvernig þetta hefur gengið fyrir sig á undanförnum árum. Hér er verið að biðja um mjög háar upphæðir til viðbótar núverandi fjárlögum vegna útgjalda til sjúkratrygginga, til Tryggingastofnunar ríkisins og til Ríkisspítalanna. Allt var þetta fyrirséð. Þetta var allt saman fyrirséð þegar verið var að afgreiða fjárlögin. Sama sagan endurtekur sig ár eftir ár eftir ár. Ég vil, með leyfi forseta, fá að rifja hana upp á þeim örfáu mínútum sem ég á eftir og snúa mér alveg sérstaklega að lífeyristryggingum og sjúkratryggingum.

Í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 var farið fram á 693 millj. til Tryggingastofnunar ríkisins og þar var áætlað að 163 millj. væru vegna aukningar í útgjöldum lífeyristrygginga og síðan var sótt það ár um 530 millj. til sjúkratrygginga. Ríkisspítalarnir fengu þá 120 millj. til viðbótar. Árið 1993 voru 350 millj. í aukaframlag til Tryggingastofnunar. Uppbætur á lífeyri voru 410 millj. kr. og Ríkisspítalarnir og Sjúkrahús Reykjavíkur fengu líka viðbótarframlög. Ár eftir ár kemur hækkun á eingreiðslum til lífeyrisþega eins og einhver sending af himnum ofan. Það er eins og aldrei hafi verið reiknað með því að kjarasamningar hefðu einhver áhrif á lífeyrisgreiðslurnar. Nei, þetta er alltaf sótt í aukafjárlög, hundruð millj. kr. Árið 1994 var sótt um 800 millj. kr. hækkun á sjúkratryggingum. Árið 1995 var beðið um hækkun á lífeyristryggingum upp á 1.330 millj. kr. þar af var 630 millj. kostnaðarauki við eingreiðslur til lífeyrisþega, 550 millj. beint vegna sjúkratrygginga. Hvað er verið að biðja um nú, hæstv. forseti? Tryggingastofnun ríkisins 32,5 millj., sjúkratryggingar 830 millj. og síðan Ríkisspítalarnir og Sjúkrahús Reykjavíkur sem við ræddum allítarlega í utandagskrárumræðu. Allt var þetta fyrirséð. Þá kem ég að upphafspunkti mínum. Hvers konar fjármálastjórnun er þetta? Hvernig stendur á þessu? Við minnumst þess að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á heilbrigðismálunum og benti á að sparnaðaráform þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu hefðu alls ekki náð fram að ganga. Ár eftir ár eru settar fram áætlanir sem standast ekki. Ef við skoðum tímabilið frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Alþfl. tók við og tíma núv. ríkisstjórnar þá er þetta alltaf sama sagan, útgjöldin eru stórlega vanáætluð og allir vita það. Við eigum einfaldlega að hætta þessu, hæstv. fjmrh. Við verðum að vera með raunhæf fjárlög. Við verðum að horfast í augu við það að útgjöld til heilbrigðismála munu aukast. Ég hef svo oft rætt þessi mál hér en mín skoðun er sú að það þurfi að eiga sér stað uppstokkun og áherslubreyting í heilbrigðismálum. Ég er tilbúin til að skoða sameiningu stóru sjúkrahúsanna þó ég hafi miklar efasemdir um að það skili einhverju. Fyrst og fremst þarf að stórauka forvarnir. Það þarf að stórauka forvarnir og reyna með þeim hætti að bæta heilsu fólks og draga úr kostnaði vegna þess að við vitum að fram undan er gífurleg aukning í útgjöldum. Annars vegar er um það að ræða að reyna að bæta heilsuna og draga þannig úr þörfinni fyrir þjónustu og hins vegar að skera niður á öðrum stöðum en þá vandast málið því víða er þörf. Þar hef ég m.a. minnst á að ég held að við getum skorið töluvert mikið niður í yfirbyggingunni og náð fram hagræðingu með því t.d. að sameina ráðuneytin og hugsanlega koma ýmiss konar þjónustu sem þau veita og sinna til annarra.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég fá að spyrja hæstv. fjmrh. út í þá furðulegu upphæð eða það einkennilega mál sem snertir eftirlaun bankastjóra og aðstoðarbankastjóra Útvegsbanka Íslands. Hér hlýtur að vera um gamalt mál að ræða því ef ég man rétt var Íslandsbanki að halda upp á tíu ára afmæli sitt nýlega. Ég þori ekki að fara með ártöl í því sambandi hvenær Útvegsbankinn var gerður upp og breytt í Íslandsbanka með sameiningu við aðra banka en hér kemur fram að það á að hækka fjárheimild um 25 millj. kr. til að gera upp vangreidd eftirlaun bankastjóranna og aðstoðarbankastjóranna á tímabilinu frá desember 1993 til ágúst 1996. Ef þessi aukaupphæð fæst er þar með búið að koma málinu í réttan farveg? Er því þar með lokið eða hver er saga þessa máls? Þetta er afar sérkennilegt. Hér hafa fallið dómar um orlofsgreiðslur til dómara og annarra og þetta vekur ýmsar spurningar um það hvernig menn túlka kjarasamninga og jafnvel lög í fjmrn. Það er alltaf ákaflega slæmt að fá á sig svona mál eftir á.

Hæstv. forseti. Allra síðast: Eru dráttarvextir inni í þessum 25 millj. kr. eða hvað er þarna á ferðinni?