Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:33:27 (445)

1996-10-17 15:33:27# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:33]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur auðvitað fyrir lítið að eiga orðastað um þessi mál við hv. þm. Hann sagði raunar allt sem segja þurfti. Hann vill auðvitað ekkert vita þetta, hann vill ekkert læra, vill ekki þekkja staðreyndir mála. Ég sagði réttilega hér áðan að hv. 1. þm. Reykn. hefði tekið hv. þm. í kennslustund. Tók hann einfaldlega í kennslustund og rakti fyrir honum lið fyrir lið hvernig þær ákvarðanir voru teknar sem við erum hér að ræða. Þær birtust í forsendum fjárlaganna fyrir ári síðan og nákvæmlega fyrir lagt í þeim umræðum sem þá fóru fram hver væru áform um þessa húsbyggingu. Ég sagði lög, reglur, venjur og hefðir. Og hafi hv. þm. lagt við eyru, hvað kemur þarna fyrst --- vitaskuld lögin. Og hv. 1. þm. Reykn. tók líka hv. þm. í kennslustund um það að auðvitað hafa engin lög verð brotin. Þannig að hv. þm. vill ekki heyra, vill ekki læra og vill ekki kunna. Það er auðvitað hans vandi. En það stendur eftir sem áður, virðulegi forseti, að hv. þm. Pétur H. Blöndal telur það greinilega vera sitt höfuðviðfangsefni á þessum bjarta og fagra degi að eiga orðastað við hið háa Alþingi um þessar tilteknu framkvæmdir. En hann sér ekki nokkurn skapaðan hlut athugavert, ekkert aukatekið orð, við þann 15 milljarða frammúrakstur sem hæstv. fjmrh. er hér að óska eftir atbeina við og staðfestingu Alþingis við samþykkt þessa frv. til fjáraukalaga. Ekkert aukatekið orð um það, engar áhyggjur. Hann vill kannski ekki læra það heldur eða þekkja það, vill ekki vita af hinu óþægilega. Eða kannski er auðmýktin hjá hv. þm. eftir eins og hálfs árs setu á háa Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu orðin slík að hann þorir ekki.