Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:06:28 (518)

1996-10-28 16:06:28# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:06]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi um að átt hefði sér stað kúvending í málflutningi okkar jafnaðarmanna. Þetta er alrangt. Kannski er málið eitthvað skýrara eftir þessa löngu umræðu. Það má vel vera. En við höfum engu breytt og ég hef ekki sagt neitt annað í þessari umræðu en ég sagði í framsögu og segir í grg. frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ýmsir hagfræðingar telja að fiskveiðiarðurinn muni nema 15--30 milljörðum kr. árlega þegar fyllstu hagkvæmni er náð.`` Það er rætt alveg sérstaklega. Það er sagt hér að ,,talsmenn veiðileyfagjalds hafa fæstir talað um að mjög stór hluti fiskveiðiarðsins yrði tekinn út úr greininni.``

Þetta er allt sagt nákvæmlega eins og ég gerði grein fyrir áðan. Við höfum dregið mjög skýrt fram, og kannski er misskilningurinn fólginn í því, að undirstaðan fyrir álagningu veiðileyfagjalds er fiskveiðiarður sem er að myndast og hefur myndast í sjávarútvegi. Það er undirstaðan fyrir þessari gjaldtöku. Við höfum aldrei rætt um að það eigi að skattleggja sjávarútveg umfram getu. Við höfum dregið mjög skýrt fram réttlætisrökin og hin efnahagslegu rök og ástæðurnar fyrir því hvernig fiskveiðiarður myndast í þessu kerfi. Þessu hefur skilmerkilega verið haldið fram á öllum stigum umræðunnar. Það er engin kúvending eða breyting í okkar afstöðu.

Ég vil hins vegar leiðrétta það sem hv. þm. sagði. Það er getið um aðrar auðlindir í þessari tillögu. Það segir beinlínis í tillögunni:

,,Nefndin kanni enn fremur leiðir til að leggja auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar, svo sem vatnsorku.``

Það er vikið að þessu í greinargerð og ég bendi á ein þrjú frv. okkar jafnaðarmanna í þinginu sem taka á þessum þætti. Við lítum svo á að það gildi engin sérstaða um sjávarútveg þegar um er að ræða sameiginlegar auðlindir. Það eru margar aðrar auðlindir sem eiga að falla undir þessa hugmyndafræði ef við viðurkennum hugmyndafræðina á annað borð.